Í gær var tekin í notkun í Mývatnssveit hleðslustöð Orku náttúrunnar fyrir rafbíla og nú er hægt að aka hringveginn sem varðaður er hlöðum sem fyrirtækið hefur sett upp. Hlaðan er við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Friðrik Jakobsson, sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit, fékk fyrstu hleðsluna í gær að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON. „Ég vona svo sannarlega að þessi tímamót hvetji ekki bara okkur landsmenn til að skipta yfir á rafmagn í samgöngum, heldur ekki síður ferðafólk sem hingað kemur,“ segir Bjarni Már í tilkynningu.
Mikil fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur gert það að verkum að kolefnisspor samgangna á landi hefur vaxið, þvert á markmið um hið gagnstæða. Talið er að ríflega 20 þúsund bílaleigubílar séu í landinu og kolefnissporið stórt.
„Nú fögnum við mikilvægum áfanga. Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíla,“ segir Bjarni Már.