[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorberg Ólafsson fæddist 27. mars 1948 í Mjölnisholti 6 í Reykjavík. „Ég er alinn upp undir Eyjafjöllum þaðan sem föðurætt mín er. Þar eyði ég frítímanum einkum í sumarhúsinu. Þar grænkar líka fyrst, og sumarið er lengst.

Þorberg Ólafsson fæddist 27. mars 1948 í Mjölnisholti 6 í Reykjavík. „Ég er alinn upp undir Eyjafjöllum þaðan sem föðurætt mín er. Þar eyði ég frítímanum einkum í sumarhúsinu. Þar grænkar líka fyrst, og sumarið er lengst. Þar er rokið best, og fýkur mest.“ Uppeldisforeldrar Þorbergs til 14 ára aldurs voru hjónin Margrét Jónsdóttir húsmóðir og Sigurður Guðjónsson bóndi á Sauðhúsvelli undir Eyjafjöllum. Þorberg gekk síðan í Skógaskóla og varð gagnfræðingur þaðan 1965.

„Ég vildi verða barþjónn, en pabbi taldi heppilegra að hafa mig hinum megin við barborðið. Sjálfsagt hefur hann grunað genin um græsku, en ég varð nú hvorki bindindis- né ofdrykkjumaður. En ég varð barber!

Ég hef aðeins unnið við tvær götur í Reykjavík, Pósthússtrætið og Laugaveginn. Herradeild P & Ó, og Rakarastofunni í Eimskipafélagshúsinu, þar sem ég stundaði nám fyrir ævistarfið.“

Þorberg keypti helmingshlut í Rakarastofu Austurbæjar árið 1972, sem þá var í Hekluhúsinu við Laugaveg. „Við fluttum fyrirtækið í gamla sjónvarpshúsið, og síðar að Laugavegi 178, þar sem við eiginkonan, sonurinn og fleiri störfum að hársnyrtiiðninni. Ég hef því unnið hér á stéttinni í 46 ár, og í starfinu í 52 ár samfleytt. Laugavegurinn er sterkur þráður í höfuðborginni og stjórnendur hennar til seinni ára mættu vita, að hann nær lengra en að Hlemmi. Rauðarárstígurinn virðist í augum þeirra mörk menningar og þjónustuheima.“

Áhugamál Þorbergs snúast um útivist, skot- og silungsveiði og ferðalög. „Við eigum trukk og tjaldvagn og ferðumst víða.

Starfið hefur nánast verið mér ástríða og ég hef aldrei orðið var vinnuleiða. Viðskiptavinirnir eru mér nánir, ekki bara sem viðskiptavinir, heldur oft sannir vinir, og þar með fjölskyldunnar. Starfið er einkum félagslegs eðlis og getur reynt verulega á tilfinningatengslin. Þó gaman sé í frístundum, og þá sjaldan ég tek mér þriggja vikna sumarfrí samfellt, er ég farinn að sakna vinnunnar, viðskiptavinanna og félagsskaparins vegna.

Hárskeranum berast fréttir oft ótrúlega skjótt. Niðurstaða Icesave-dómsins var mér kunn rúmri klukkustund fyrir fréttatíma í virtum fjölmiðli, einnig sprengjuárásirnar í London. Líf hárskerans getur stundum verið sirkus. Þess vegna hætti ég ekki störfum strax, sé ég nothæfur.“

Fjölskylda

Eiginkona Þorbergs er Margrét Jóna Halldórsdóttir, f. 25.1. 1950, hárgreiðslumeistari. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Jónsdóttir, f. 17.8. 1924, d. 28.3. 2007, húsmóðir í Vestmannaeyjum, og Halldór Jónsson, f. 6.6. 1926, d. 26.9. 1999. útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

Börn Þorbergs og Margrétar Jónu eru 1) Þormar Þorbergsson, f. 4.3. 1973, konditor í Óðinsvéum, giftur Tine Buur Hansen konditor. Börn: Kara Buur Þormarsdóttir og Ísak Buur Þormarsson; 2) Elmar Þorbergsson, f. 10.7. 1975, hárskerameistari í Reykjavík, giftur Mögnu Ósk Júlíusdóttur, þjónusturáðgjafa trygginga. Börn: Margrét Elmarsdóttir og Arnar Elmarsson; 3) Freymar Þorbergsson, f. 7.4. 1982, hönnuður í Reykjavík, í sambúð með Rannveigu Kristjánsdóttur verslunarstjóra. Börn: Hekla Freymarsdóttir og Bjartur Freymarsson.

Albróðir Þorbergs er Sigfús Ólafsson, f. 30.4. 1944, tónlistarkennari, búsettur á Selfossi. Hálfsystkini Þorbergs eru Sigríður R. Ólafsdóttir, f. 22.6. 1950, fóstra, búsett í Reykjavík; Jón Ólafsson, f. 28.4. 1952, tónlistarmaður, búsettur í Reykjavík; Þórunn Ólafsdóttir, f. 21.5. 1961, þroskaþjálfi, búsett í Osló; Ragnar Ólafsson, f. 17.12. 1962, bifreiðarstjóri, búsettur í Kópavogi.

Foreldrar Þorbergs voru hjónin Ólafur Jónsson, f. 10.1. 1918, d. 12.8. 1989, bifreiðarstjóri í Reykjavík, og Elsa Kristín Sigfúsdóttir, f. 22.12 1924, d. 8.8. 1948, húsmóðir.