Dýrleif Jónsdóttir fæddist 8. desember árið 1924 á Silfrastöðum í Skagafirði. Hún lést 5. mars 2018 á dvalarheimilinu Hlíð.

Foreldrar hennar voru hjónin Oddný Hjartardóttir, f. 24. september 1888, d. 2. maí 1963, og Jón Steinmóður Sigurðsson, f. 11. júlí 1877, d. 14. janúar 1932. Systkini Dýrleifar voru: a) Guðrún, f. 8. desember 1908, d. 6. mars 1989, ógift og barnlaus. b) Brynhildur, f. 31. október 1910, d. 8. desember 1993, maki Jón Jónsson og átti hún þrjár dætur. c) Einar, f. 13. október 1911, d. 7. mars 1965, ógiftur og átti eina dóttur. d) Jóhanna, f. 9. janúar 1919, d. 15. október 1987, maki Bjarni Stefánsson og eignuðust þau fimm syni.

Dýrleif ólst upp í Grundarkoti í Skagafirði til sjö ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Akureyrar. Þar gekk hún í Barnaskóla Akureyrar en lengri varð skólagangan ekki heldur farið að vinna fyrir sér. Á Akureyri kynntist hún svo mannsefni sínu, Friðriki Baldvinssyni, og gengu þau í hjónaband 8. desember árið 1946. Fyrst bjuggu þau í Oddeyrargötu 3 en eftir það í Norðurgötu 41b. Friðrik lést árið 1992 og eftir það fluttist Dýrleif í Lindarsíðu 2. Síðustu tvö árin hefur hún verið á dvalarheimilinu Hlíð.

Dýrleif og Friðrik eignuðust sex börn: 1) Jón Smári, f. 16. desember 1943, d. 15. desember 2010. Eftirlifandi eiginkona hans er María Daníelsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, Dýrleifu, Kolbrúnu, d. 2016, Guðrúnu og Rúnar. 2) Númi, f. 2. mars 1945, kona hans var Svandís Stefánsdóttir, en hún lést 2012. Þau eignuðust tvær dætur, Elvu Dögg og Telmu Hrönn. Fyrir átti Númi dótturina Maríu Sif. 3) Oddný Guðrún, f. 29. júní 1946, gift Sverri Pálmasyni. Þeirra börn eru, Svandís, Friðrik Viðar og Guðmundur Örn. 4) Sæmundur, f. 1. maí 1949, kvæntur Huldu Friðjónsdóttur. Þau eiga tvo syni Eggert og Hákon. 5) Magnea Sigurjóna, f. 2. júní 1958. Hennar dætur eru Katrín og Hildur Marín. 6) Þórey, f. 26. apríl 1964, gift Gunnari Torfasyni. Þau eiga tvær dætur, Guðnýju Björk og Berglindi.

Barnabörn Dýrleifar eru 16 og er eitt þeirra látið. Langömmubörnin eru 32 og er einnig eitt þeirra látið. Þá átti Dýrleif tvö langalangömmubörn.

Á sínum yngri árum vann Dýrleif meðal annars við síldarsöltun og á sláturhúsinu en síðan urðu ræstingar á ýmsum stöðum í bænum hennar aðalstarf. Um margra ára skeið sá Dýrleif um rekstur Alþýðuhússins á Akureyri, eða Allans, eins og sá fornfrægi skemmti- og samkomustaður var jafnan kallaður. Dýrleif lét að sér kveða á sviði félagsmála og vann mikið fyrir NLFA. Var hún þar í stjórn þegar uppbyggingin í Kjarnalundi stóð yfir. Var það Dýrleifu mikið hjartans mál. Síðar var Dýrleif virk í starfi Félags eldri borgara og var m.a. gjaldkeri félagsins. Ferðalög voru henni hjartfólgin og ferðaðist Dýrleif töluvert bæði innan- og utanlands. Kanarí og Spánn voru í uppáhaldi en einnig fór hún víðar um Evrópu. Í þessum ferðum var hún gjarnan með vini sínum og ferðafélaga til tveggja áratuga, Ívari Hjartarsyni.

Útför Dýrleifar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Jæja Dilla Jóns, þar kom að því að þú fengir ósk þína uppfyllta varðandi lok jarðvistar þinnar.

Oft kom hjá þér „Hvað er verið að láta mig lifa svona lengi, gamla kerlinguna?“ en hnýttir svo við „ég ætti nú samt ekki að vera að kvarta með ágætis heilsu og þó ekki vitlausari í hausnum en ég er – hvað með fólk sem er nánast ósjálfbjarga“. Þú sagðist vera í stöðugum samningaviðræðum við þann sem öllu ræður um að hann lofaði þér að fara áður en þú yrðir ósjálfbjarga, en til þess gastu ekki hugsað. Þegar gengið er til samninga þurfa oft báðir að gefa eftir en ná samt ásættanlegri niðurstöðu eins og hjá þér.

Mamma var kjarnakona sem ól upp okkur sex börnin meðfram því að ræsta skóla og fyrirtæki, eins rak hún gamla „Allann“ um árabil. Hennar kynslóð var í grunninn „heimavinnandi„ og hún sá um að útbúa nesti handa pabba í vinnuna og handa okkur krökkunum fyrir skólann og vinnu. Heitur matur í hádeginu og á kvöldin, annað þekktist vart, og svo kvöldkaffi. Þvo þvotta og þrífa heimilið. Meðfram þessu saumaði hún á okkur krakkana nálega allt sem við gengum í allt til unglingsaldurs, því hún var snillingur á saumavélina og nutu margir utan fjölskyldunnar þess líka.

Það var oft þétt setið í Norðurgötunni á þessum árum að meðaltali fimm börn, því þegar það yngsta fæddist flaug það elsta úr hreiðrinu. Til viðbótar var amma Oddný hjá okkur. Þegar amma svo dó kom Eyþór frændi til okkar og var þar til hann lést. Þessum fjölda þjónaði mamma svo að mörg voru nú handtökin. Oft komu svo gestir, bæði úr Fljótum og frá Siglufirði þar sem pabbi ólst upp og eins af heimaslóðum mömmu í Skagafirði og úr Keflavík. Einhvern veginn var alltaf hægt að koma öllum fyrir og í minningunni var aldrei neitt plássleysi. Allt þetta þurfti svo að metta og ótrúlegt hvað mömmu tókst að gera til að allir fengju nægju sína. En eins og svo víða á þessum árum var hagsýnin ótrúleg. Pabbi átti hlut í trillu og veiddi fisk í matinn, skaut svartfugl, rjúpu, sel og hnísu. Mamma tók slátur og þar var allt nýtt sem hægt var, saltað var kjöt í tunnu fyrir veturinn bæði hrossa- og kindakjöt. Þetta galdraði mamma svo fram í ljúffengum mat.

Já Dilla Jóns, þú varst hörkukerling áttir til að vera beinskeytt og hvöss í viðmóti ef svo bar við en alltaf hreinskilin og sjálfri þér samkvæm. Hafðir sterkar skoðanir og alltaf varstu í liði með lítilmagnanum, það var þín lífsskoðun. Í félagsstörfum þínum í Náttúrulækningafélaginu á Akureyri og í Félagi aldraðra naustu mikils trausts og hafði fólk á orði dugnað þinn og ósérhlífni. Okkar samskipti voru alltaf opin, hreinskilin og yndisleg. Við treystum vel hvort öðru og aldrei bar skugga þar á. Þú sagðir mér oft að ef þú værir ung í dag mundir þú vilja ferðast út um heim, læra tungumál og kynnast ólíkri menningu. Þar sem þú stóðst þig svo vel í samningum við þann sem öllu ræður, geri ég ráð fyrir að þú sért orðin sérlegur sendimaður hans, gerir víðreist um gjörvalla heimsbyggðina og ósk þín um ferðalög um heiminn rætist.

Elsku mamma, farðu vel.

Þinn sonur

Sæmundur.