Þrýstingur Kennarar hafa notað ýmsar aðferðir til að vekja athygli á málum. Hér eru þeir mættir í Ráðhúsið.
Þrýstingur Kennarar hafa notað ýmsar aðferðir til að vekja athygli á málum. Hér eru þeir mættir í Ráðhúsið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Formaður Kennarasambands Íslands (KÍ) segir að erfiðara sé að koma réttum upplýsingum á framfæri, þannig að fólk kynni sér þær og setji sig inn í málin.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Formaður Kennarasambands Íslands (KÍ) segir að erfiðara sé að koma réttum upplýsingum á framfæri, þannig að fólk kynni sér þær og setji sig inn í málin. „Fólk tekur í auknum mæli ákvarðanir á grunni þess sem það sér á samfélagsmiðlum án þess að kynna sér málin frekar,“ segir Þórður Hjaltested, formaður KÍ.

Þannig svarar hann spurningu um það hvort sú aukna harka sem virðist vera í félagsmönnum aðildarfélaga Kennarasambandsins sé merki um að forysta kennara sé að fjarlægjast félagsmenn. Hann neitar því og vísar til breyttrar umræðu.

„Ég þekki þetta einnig frá öðrum löndum. Kennarasamtök á Norðurlöndunum standa frammi fyrir því sama. Í Noregi var til dæmis kolfelldur samningur og þá var sú skýring gefin að menn hefðu vanmetið áhrif samfélagsmiðla á umræðuna. Ég tel að við þurfum að bregðast við með því að efla kynningarstarf okkar í sambandi við alla kjarasamninga. Upplýsa félagsmenn um innihald samninga og það sem í þeim felst. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið gert, allir hafa reynt það eftir bestu getu. Við erum með heimasíðu og aðildarfélögin með facebooksíður. Jafnframt eru haldnir kynningarfundir með félagsmönnum. Við þurfum að gera betur,“ segir Þórður.

Óútkljáð eldri mál

Aukin harka í kennarastéttinni hefur meðal annars birst í því að kjarasamningar grunnskólakennara hafa ítrekað verið felldir, nú síðast með miklum mun, og framhaldsskólakennarar eru farnir að ræða um verkfallsboðun vegna þess að ekki hefur tekist að semja við ríkið. Þá hefur verið mikil umræða um stöðuna í leikskólunum vegna skorts á starfsfólki og hugmynda um leiðir til lausnar sem leikskólakennarar eru ósáttir við.

Þórður segir að þessi mál séu á borði hvers aðildarfélags fyrir sig en segir þó að þar sé í flestum tilvikum um að ræða óútkljáð eldri mál við viðsemjendur.

„Staðan er sú í framhaldsskólunum að þar eru óuppgerð mál úr fyrri samningum sem fulltrúar þeirra telja að þurfi að fást efndir á. Hluti af því er stytting framhaldsskólans í þrjú ár, sem ekki er búið að meta inn í launakjör kennara. Það er fyrst og fremst út af því sem allt stendur fast og því er ákveðin pattstaða í málinu,“ segir Þórður.

Varðandi grunnskólakennara segir Þórður að grunnástæðan sé sú að sveitarfélögin bjóði verri launakjör en ríkið og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði fyrir sambærileg störf. „Grunnskólakennarar hafa séð hækkanir kjararáðs og annarra og er misboðið þegar þeim stendur aðeins til boða 3% launahækkun. Þess vegna voru samningarnir felldir. Fleira spilar þar inn í. Óánægja hefur verið með vinnumat grunnskólakennara sem samið var um fyrir fjórum árum. Hluti af samningunum núna var að reyna að leysa þau mál en launaliðurinn skiptir það miklu máli að fólk sættir sig ekki við launakjörin þegar álagið er mikið,“ segir Þórður.

Þórður segir að það sama eigi við um kjaramál leikskólakennara en fleira komi til. Bendir á að við leikskólana eigi að vera fagmenntaðir leikskólakennarar að tveimur þriðju hlutum. Það sé nú aðeins þriðjungur. „Það fer illa í stéttina þegar farið er að ræða um að manna störf á leikskólum með fólki sem komið er á eftirlaun. Leikskólakennarar, fagstéttin sem ber hitann og þungann af starfinu, telja að verið sé að grafa undan faglegu starfi með þessu,“ segir hann.

Forystuskipti í apríl

Þórður hefur verið formaður KÍ frá árinu 2011 og gefur ekki kost á sér áfram. Forystuskiptin verða í lok þings Kennarasambands Íslands sem haldið verður dagana 10. til 13. apríl. Ragnar Þór Pétursson tekur við formennsku og Anna María Gunnarsdóttir er nýr varaformaður.

Þing KÍ eru haldin á fjögurra ára fresti. Á þinginu verður fjallað um kjaramál og skólamál og innri mál stéttarinnar. Meðal annars verður kjaramálastefna til næstu fjögurra ára mótuð. „Ég á von á því að það verði málefnalegar umræður um öll þessi mál,“ segir Þórður.