Samstaða Krakkarnir verða að „tækla“ stór mál á borð við missi, þunglyndi og ofbeldi og læra að þegar upp er staðið eru vinátta og samstaða mikilvægari en sigrar og markatölur. Hér sjást tveir af aðalleikurum Vítis í Vestmannaeyjum, Ísey Heiðarsdóttir og Lúkas Emil Johansen.
Samstaða Krakkarnir verða að „tækla“ stór mál á borð við missi, þunglyndi og ofbeldi og læra að þegar upp er staðið eru vinátta og samstaða mikilvægari en sigrar og markatölur. Hér sjást tveir af aðalleikurum Vítis í Vestmannaeyjum, Ísey Heiðarsdóttir og Lúkas Emil Johansen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Bragi Þór Hinriksson. Handrit: Gunnar Helgason, Jóhann Ævar Grímsson og Ottó Geir Borg. Kvikmyndataka: Ágúst Jakobsson. Klipping: Guðjón Hilmar Halldórsson.

Leikstjórn: Bragi Þór Hinriksson. Handrit: Gunnar Helgason, Jóhann Ævar Grímsson og Ottó Geir Borg. Kvikmyndataka: Ágúst Jakobsson. Klipping: Guðjón Hilmar Halldórsson. Aðalhlutverk: Lúkas Emil Johansen, Róbert Luu, Viktor Benóný Benediktsson, Ísey Heiðarsdóttir, Jóhann Jóhannsson, Sigurður Sigurjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir. 95 mín. Ísland, 2018.

Í síðustu viku var kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum frumsýnd. Hin eiginlega hátíðarfrumsýning var um kvöld en undirrituð laumaði sér á sýningu sem var fyrr um daginn og var sérstaklega ætluð vinum og bekkjarfélögum barnanna sem leika í myndinni. Þetta var mikil bíóupplifun og vitaskuld kjöraðstæður til að horfa á slíka mynd, umkringd 200 fjörugum krökkum.

Gunnar Helgason, höfundur bókarinnar sem myndin byggist á, steig á svið á undan myndinni og fagnaðarlætin létu ekki á sér standa, Gunnar er svo sannarlega stórstjarna meðal barnanna. Hann brýndi fyrir áhorfendum að á þessari sýningu ætti enginn að vera stilltur og prúður líkt og vaninn er í bíó og hvatti alla til að klappa og fagna þegar við átti og sömuleiðis að púa þegar eitthvað fór miður. Áhorfendur tóku þessi tilmæli til sín og það var mikið klappað, hrópað, púað og „húh!“-að.

Víti í Vestmannaeyjum hefst á því að fótboltaliðið Fálkar er á leið til Eyja á pollamót. Aðalhetjan, Jón Jónsson, vaknar upp af dularfullum draumi um borð í Herjólfi. Hann er ringlaður eftir drauminn, sem er ekkert til að bæta sjóveikina sem hann þjáist af. Brátt koma Fálkar þó í eyjuna, magi Jóns róast og það er mikil eftirvænting í loftinu. Fyrsti leikurinn sem Fálkar spila er á móti heimamönnum í ÍBV. Rétt áður en leikurinn hefst lendir Jón upp á kant við ÍBV-leikmanninn Ívar, sem er algjör fantur. ÍBV-liðar reynast Fálkum harðir andstæðingar en þeir gera sitt besta. Það fer þó ekki betur en svo að á ögurstundu slasast Skúli, lykilmaður í liði Fálka. Skúli reynist vera brákaður og getur ekki spilað með á mótinu, sem er reiðarslag fyrir liðið þar sem Skúli er ekki einungis þeirra besti maður, heldur líka móralskur leiðtogi og stuðbolti. Þjálfari Fálka stappar þó í þá stálinu og strákarnir halda áfram með Skúla á hliðarlínunni.

Eftir því sem á líður kynnast Fálkar hinum krökkunum á mótinu. Ein þeirra er Rósa, eitilharður leikmaður Fylkis, og hún slæst oft í hópinn með Jóni og félögum. Einnig komumst við í frekari kynni við fantinn Ívar og kemur á daginn að fólskulegt háttalag hans á sér að hluta til skýringar í erfiðum aðstæðum heima fyrir. Faðir Ívars, sem er jafnframt þjálfari ÍBV, er ekki allur þar sem hann er séður. Eftir því sem ógnin af föður Ívars fer stigmagnandi þurfa krakkarnir að taka á honum stóra sínum til að sigra þennan andstæðing.

Sagan er skemmtileg og stígandin er góð. Fótboltasenurnar spegla þemun sem birtast í heildarmyndinni, það gengur á ýmsu á vellinum jafnt og í lífinu sjálfu. Krakkarnir verða að „tækla“ stór mál á borð við missi, þunglyndi og ofbeldi og læra að þegar upp er staðið eru vinátta og samstaða mikilvægari en sigrar og markatölur.

Víti í Vestmannaeyjum er litrík, kvikmyndatakan er flott og mikið um falleg könnunarskot í landslagi Vestmannaeyja. Tölvutæknibrellur eru ríkulega notaðar sem skilar sér í nokkrum þrælflottum atriðum en öðrum miður góðum. Eðli málsins samkvæmt er mikið af fótboltaatriðum og þau eru vel úr garði gerð, þar sem dramatískum hægmyndum er blandað við örar og æsilegar klippingar. Það má velta því fyrir sér hvort þeim sem hafa lítið vit á fótbolta kunni að leiðast þessar senur. Fæstum ætti þó að leiðast þar sem það er brugðið á ýmis ráð til að gera ariðin spennandi og aðgengileg fyrir alla, þ.ám. að láta Gunna Helga vera þul eða „íþróttfréttamann“ sem lætur gamminn geisa í orkumiklum og oft sprenghlægilegum leiklýsingum.

Ungi leikhópurinn stendur sig vel miðað við aldur og fyrri störf. Róbert er skemmtilegur í hlutverki hins orðheppna sprelligosa Skúla og Lúkas nær að gera hinum viðkvæma og réttsýna Jóni góð skil. Ísey og Viktor eru líka stórfín í sínum hlutverkum. Fullorðnu leikararnir skila líka sínu, sérstaklega er Sigurður Sigurjónsson eftirminnilegur.

Gunnar Helgason hefur látið þess getið að hann hafi skrifað bókina til að bregðast við minnkandi læsi ungra stráka. Strákar eru því vitanlega í forgrunni og það hefði auðvitað ekki verið ónýtt að sjá fleiri stelpur en þarna eru nú samt fjölbreyttar og skemmtilegar kvenpersónur og myndin er síður en svo bara strákamynd.

Það er verðugt verkefni að búa til sögur fyrir íslenska stráka sem endurspegla þeirra veruleika en það sem er jafnvel enn mikilvægara eru skilaboðin sem sagan sendir til þessa hóps. Skilaboðin felast í því að sýna fram á hversu skaðleg eitruð karlmennska (e. toxic masculinity) getur verið, jafnt innan vallar sem utan. Hópíþróttastarfsemi fyrir börn á Íslandi hefur stundum verið gagnrýnd fyrir óhóflega kappsemi og harðneskju og það er því fótboltakrökkum mikilvægt að gera sér grein fyrir að ofurkarlmennska og tilfinningakuldi getur eitrað út frá sér. Það er allt í lagi að gráta þegar manni líður illa og það er allt í lagi að leita sér hjálpar þegar maður þarf á henni að halda, hvort sem maður er barn eða fullorðinn.

Víti í Vestmanneyjum er hádramatískt og fjörugt ævintýri, sem inniheldur góða blöndu af tárum, brosum og takkaskóm, og ég tel að jafnt börn sem fullorðnir geti haft gaman af.

Brynja Hjálmsdóttir

Höf.: Brynja Hjálmsdóttir