Karl Gauti Hjaltason
Karl Gauti Hjaltason
Eftir Karl Gauta Hjaltason: "Úr skólakerfinu kemur stór hluti pilta ólæs, þriðjungur drengja les sér ekki til gagns og þrefalt fleiri drengir en stúlkur fara ólæsir út úr því."

Allir vita um hverja er verið að tala þegar við rætt er um „strákana okkar“. Í þessari grein ætla ég þó ekki að tala um fótbolta- eða handboltastjörnurnar okkar, heldur allt aðra stráka, stráka í vanda.

Nokkuð hefur verið um það rætt hversu drengir eiga erfitt uppdráttar í skólakerfinu, hvar allir eiga helst að sitja kyrrir. Strákar eru órólegir og láta þar stundum illa að stjórn. Kennarinn er kona og drengurinn sér varla nokkurn tíma karl fyrr en hann fær góða-nótt-koss frá föður sínum um kvöldið. Þeir eru greindir með ofvirkni og brest á athygli. 12% drengja á aldrinum 5-9 ára eru á einhvers konar hegðunarlyfjum og eru þeir helmingi fleiri á þessum lyfjum en stúlkur. Hefur engum dottið í hug að einmitt svoleiðis eigi þeir hugsanlega helst að sér að vera? Náttúran útbjó þá einmitt þannig til að mannskepnan hefði meiri möguleika, þegar lífsbaráttan var öðruvísi og harðari en í dag. Þarf ekki að fara að koma á móts við þarfir þeirra, sem eru oft ólíkar þörfum stúlkna? Hugur og hönd! Er ekki nauðsynlegt að blanda þessu örlítið meira saman? Þarf ekki að leggja meiri rækt við höndina líka?

Margir strákar vilja gera og græja, eins og sagt er, keppa og kljást, rannsaka og uppgötva. Sumar stúlkur eru þannig líka. Er ekki einmitt tími til að tengja?

Úr skólakerfinu kemur stór hluti pilta ólæs, þriðjungur drengja les sér ekki til gagns og þrefalt fleiri drengir en stúlkur fara ólæsir út úr því. Fleiri drengir ljúka ekki framhaldsskólanámi, færri fara í háskóla en stúlkur. Þeir finna sig ekki.

Við tekur alls kyns óæskileg hegðun; áhættuhegðun, afbrot, vímuefni, iðjuleysi, þunglyndi, atvinnuleysi og alls kyns óhamingja. Fleiri ungir menn falla fyrir eigin hendi en ungar konur og er sjálfsmorðstíðni ungra manna verulegt áhyggjuefni. Það er hæst á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum. Hvað er til ráða? Þurfum við ekki að fara að taka eitthvað til bragðs?

Undanfarna mánuði hefur risið hér stórkostleg umræðubylgja og er enn í hávegum og kennd við #metoo, þar sem kastljósinu er beint að því sem allt of margar konur mega þola. Nú vil ég vil ræða þennan vanda í svolitlu samhengi við þá byltingu, ef svo má kalla. Ég legg til að við beinum kastljósinu einnig að ungum mönnum. Ræðum málið og finnum einhver úrræði. Hér þarf stórátak.

Styðjum ekki bara „strákana okkar“ heldur líka aðra stráka, stráka í vanda.

Höfundur er þingmaður fyrir Flokk fólksins.

Höf.: Karl Gauta Hjaltason