Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Hafnfirðingar, bæði bæjarstjórn og íbúar bæjarins, eru orðnir afar óþolinmóðir eftir að hafnar verði framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krísuvíkurveg.
Í síðustu viku sendi bæjarstjórn Hafnarfjarðar þingmönnum og samgönguráðherra ályktun þar sem skorað er á þingmenn og samgönguráðherra að sjá til þess að framkvæmdir hefjist þegar á þessu ári og þeim verði lokið á árinu 2019.
Í ályktuninni skorar bæjarstjórnin á þingmenn, samgönguráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og vegamálastjóra að tryggja að fjármagn fáist á samgönguáætlun sem nú er unnið að, þannig að tryggt verði að framkvæmdum við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar ljúki á næstu fjórum árum.
Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að 47.300 bílar færu um Reykjanesbraut á sólarhring á þeim hluta Reykjanesbrautar sem Hafnfirðingar vildu að yrði tvöfaldaður.
Mikil mengun fylgir umferðinni
„Það liggur í augum uppi að mengunin sem fylgir slíkri umferð er mjög mikil, ekki síst þar sem vegurinn er bara ein akrein í hvora átt og þar af leiðandi eru bílarnir lengur að fara um svæðið,“ sagði Einar.Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, var í gær spurður hvort bæjaryfirvöld mættu tómlæti af hálfu þingmanna og samgönguráðherra við málaleitan sinni: „Nei, ég get kannski ekki alveg sagt það. Við fengum það í gegn að mislægu gatnamótin við Krísuvíkurveg fóru í framkvæmd í fyrra og þeim var lokið í fyrra og fyrir það erum við náttúrlega þakklát,“ sagði Haraldur.
„Það er rétt, við erum langþreytt á umferðarþunganum á Reykjanesbraut þar sem hún liggur í gegnum bæinn og ekki síður á slysahættunni og höfum þess vegna beitt okkur af krafti í þeirri von að við fáum úrlausn okkar mála,“ sagði Haraldur.
Eru í samtali við ráðuneytið
„Við erum í þessari lotu að berjast fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krísuvíkurveg. Við erum í samtali við ráðuneytið og Vegagerðina um þessi mál, þannig að ég ætla ekki að segja að við mætum tómlæti. En framkvæmdin er ekki komin af stað og við erum að berjast fyrir því núna að ákveðið fjármagn verði eyrnamerkt framkvæmdinni,“ sagði Haraldur.Haraldur sagði að fjöldi pósta hefði verið sendur á þingmenn kjördæmisins og þeim boðið á opna íbúafundi og samtalsfundi með bæjarstjórninni. Á sama tíma hefði verið fundað með yfirmönnum Vegagerðarinnar sem væru tilbúnir í framkvæmdir en vantaði fé til verkefnanna.