Snjall Albert Guðmundsson (10) er fyrirliði U21 árs landsliðs í knattspyrnu.
Snjall Albert Guðmundsson (10) er fyrirliði U21 árs landsliðs í knattspyrnu. — Morgunblaðið/Golli
Íslenska U21 árs landslið karla í knattspyrnu tapaði tveimur dýrmætum stigum í undankeppni Evrópumótsins í gærkvöld þegar það gerði markalaust jafntefli við Norður-Írland á The Showgrounds í Sligo.

Íslenska U21 árs landslið karla í knattspyrnu tapaði tveimur dýrmætum stigum í undankeppni Evrópumótsins í gærkvöld þegar það gerði markalaust jafntefli við Norður-Írland á The Showgrounds í Sligo.

N-Írar höfðu undirtökin í leiknum og áttu 21 marktilraun á móti aðeins 4 frá Íslendingum og þeir fengu 12 hornspyrnur á móti einni frá íslenska liðinu.

„Þetta var leikur sem við hefðum alveg getað unnið. N-Írarnir voru meira með boltann en við fengum hættulegri færi í leiknum,“ sagði Tómas Ingi Tómasson, aðstoðarþjálfari íslenska U-21 árs liðsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Við áttum nokkrar mjög góðar skyndisóknir og opin færi sem við náðum að skapa okkur og hefðum átt að nýta eitthvað af þeim. En svona heilt yfir þá held að ég verði að segja að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða,“ sagði Tómas Ingi.

Íslendingar eru áfram í fjórða sæti riðilsins eftir þessi úrslit. Spánverjar eru með 15 stig í efsta sæti en þeir hafa unnið alla sína fimm leiki. N-Írar eru með 11 stig eftir sjö leiki, Slóvakar eru með 9 stig eftir sex leiki, Íslendingar 8 stig eftir sex leiki, Albanar eru með 6 stig eftir sex leiki og Eistar reka lestina með 1 stig.

Næsti leikur Íslendinga í riðlinum er heimaleikur á móti Eistum 6. september.