[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Samkvæmt nýrri úttekt Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina í Háskóla Íslands voru heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins á árunum 2015-2016 um 3,5 milljarðar króna, auk 2,8 milljarða í afleiddar gjaldeyristekjur til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins. Flutningur lifandi tónlistar stóð fyrir tæplega 60% af þessum tekjum en hljóðrituð tónlist og höfundarréttur fyrir um 20% hvort.

Rannsóknin er gerð að undirlagi Samtóns, Útón og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, þar sem markmiðið var að rannsaka hagrænt umhverfi tónlistar á Íslandi.

Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útón, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, segir í samtali við Morgunblaðið að könnunin gefi góða vísbendingu um styrk greinarinnar, einkum hvað varðar tónleikahald og -hátíðir á Íslandi. Enn vanti betri gögn um útflutning íslenskrar tónlistar til að ná heildstæðri niðurstöðu þar um. „Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er sagt að vinna eigi að betri hagvísum fyrir skapandi greinar. Með þessari könnun stígum við fyrsta skrefið, og við ætlumst til að Rannsóknarmiðstöð skapandi greina fái umboð frá stjórnvöldum, eða hreinlega að Hagstofan taki við boltanum í framhaldinu,“ segir Sigtryggur.

Of góð í að flytja út listamenn

Hann segir að afleiddar tekjur, tekjur af hótelgistingu, flugmiðum, bjórsölu o.fl., séu varlega áætlaðar í rannsókninni, en þær sýni glögglega þau miklu hagrænu áhrif sem tónlistarstarfsemin hafi hér á landi. „Við viljum að ríkið styðji við tónlistarhátíðir, eins og Reykjavíkurborg gerir með sínum hátíðarsjóði. Sá stuðningur kæmi margfaldur til baka í afleiddum tekjum.“

Sigtryggur segir að könnunin eigi einnig að benda fólki á að það sé eftir miklu að slægjast ef íslenskir tónlistarmenn sem ná langt erlendis geri frekar út frá Íslandi en útlöndum. „Við teljum að nú sé einstakt tækifæri fyrir athafnafólk með áhuga á tónlist til að stofna tónlistarforlög að erlendri fyrirmynd hér á landi. Þetta eru fyrirtæki sem annast allt í senn alþjóðlega markaðssetningu, dreifingu, sölu, höfundarréttarmál og bókanir. Vandinn síðustu ár hefur verið að við höfum verið að flytja „hráefnið“, tónlistarmennina, óunnið úr landi. Við erum eiginlega orðin of góð í því. Til framtíðar þarf að sjá betri uppbyggingu á litlum fyrirtækjum hér í þessum geira. Þar eru mikil sóknarfæri.“

Sigtryggur segir að gjarnan sé talað fjálglega um mikilvægi listarinnar fyrir menninguna í landinu en ekki um raunverulega tekjuöflunarmöguleika greinarinnar. „Listirnar eru mikilvæg starfsgrein.“

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru tónlistarmenn að stærstum hluta karlmenn, en 70% svarenda voru karlkyns og 30% kvenkyns.

Tónlistariðnaðurinn
» 1.292 tónleikar voru haldnir erlendis árið 2017.
» Heildartekjur vegna tónleikahalds erlendis voru 90-227 milljónir króna.
» Einungis þriðjungur tónlistarmanna hefur yfir 40% tekna af eigin tónlistarstarfsemi.
» Helmingur þess hóps hefur fullar tekjur af tónlist.
» Tónleikahald skilar 75% þeirra sem hafa tónlist að atvinnu mestum tekjum.