Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. Katla er ein frægasta eldstöð á Íslandi og alræmd fyrir hinar miklu hamfarir í kjölfar eldgosanna.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. Katla er ein frægasta eldstöð á Íslandi og alræmd fyrir hinar miklu hamfarir í kjölfar eldgosanna. — Morgunblaðið/RAX
Katla er eldstöð undir Mýrdalsjökli sem nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Ástæður þess eru meðal annars jökulhlaupin sem oft fylgja Kötlugosum og nálægð hennar við byggð.

Katla er eldstöð undir Mýrdalsjökli sem nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Ástæður þess eru meðal annars jökulhlaupin sem oft fylgja Kötlugosum og nálægð hennar við byggð. Menn eru búnir að bíða þess nokkuð lengi að eldfjallið bæri á sér, en eitt hundrað ár eru frá síðasta Kötlugosi.

Í hádeginu á morgun, miðvikudaginn 28. mars, kl. 12.15-12.50, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur frá Kötlu og duttlungum hennar í húsakynnum Náttúrufræðistofu Kópavogs, Hamraborg 6a. Erindið er í dagskrárröðinni Menning á miðvikudögum á vegum Menningarhúsanna í Kópavogi og er styrkt af nefnd um fullveldisafmæli Íslands.

Kötlugos hafa að meðaltali orðið á fimmtíu ára fresti og hafa 16 eldgos verið skráð í eldstöðinni frá því menn settust að á Íslandi en þau eru þó líkast til fleiri eða að minnsta kosti 20 talsins

Við eldgos undir jöklinum bráðnar mikill ís á skömmum tíma og fylgja gosunum jökulhlaup sem sum hver hafa verið gríðarmikil. Jökulhlaupin ryðjast til sjávar með tilheyrandi sand- og jakaburði. Í aldanna rás hafa jökulhlaupin lagt byggðir í auðn, auk þess að mynda mikil sandflæmi umhverfis Kötlu og færa út strandlengju landsins. Gjóska úr Kötlu hefur lagst yfir stóra hluta landsins og jafnvel borist til annarra landa. Þá hafa Kötlugosum fylgt mikill ljósagangur og skruggur.