Allt að smella Hörður Áskelsson stjórnaði bæði hljómsveit og kórum á æfingu í Hofi á Akureyri í gærkvöldi.
Allt að smella Hörður Áskelsson stjórnaði bæði hljómsveit og kórum á æfingu í Hofi á Akureyri í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Skapti
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Matteusarpassían er drottning passíanna.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Matteusarpassían er drottning passíanna. Það er því ekki hægt að fá stórkostlegra verk til að stjórna,“ segir Hörður Áskelsson sem stjórna mun flutningi á Matteusarpassíu Jóhanns Sebastians Bach í Hofi á Akureyri á skírdag kl. 16. Að tónleikum loknum fljúga flytjendur, sem eru um eitthundrað talsins, suður yfir heiðar og flytja verkið í Hallgrímskirkju föstudaginn langa kl. 18 og verður sá flutningur í beinni útsendingu á Rás 1.

Að sögn Harðar kom frumkvæðið að flutningnum frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, en verkefnið er unnið í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju. „Ég dáist að stórhug Þorvaldar Bjarna og þessari innrás landsbyggðarinnar inn í Reykjavík,“ segir Hörður og rifjar upp að hann hafi strax þegið boð Þorvaldar um að stjórna Matteusarpassíunni þegar sá síðarnefndi hringdi í hann. „Mér fannst að mér rynni blóðið til skyldunnar að fá að kynna þetta verk fyrir mínu heimafólki og er mjög þakklátur fyrir að mér sé treyst til þess,“ segir Hörður sem sjálfur er borinn og barnfæddur Akureyringur. „Við Inga Rós [Ingólfsdóttir], eiginkona mín, keyptum okkur hús á Akureyri fyrir nokkrum árum þar sem við dveljum oft á sumrin og var okkur afskaplega vel tekið þegar við rötuðum aftur heim,“ segir Hörður.

Með frábæra rödd

Að sögn Harðar voru þeir Þorvaldur Bjarni strax sammála um mikilvægi þess að sem flestir flytjendur væru ættaðir frá eða hefðu tengsl við Akureyri í ljósi þess að Matteusarpassía hefur aldrei verið flutt þar áður. „Mér fannst því stórkostlegt ef hægt væri að nýta alla krafta fyrir norðan sem mest,“ segir Hörður, en auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands taka þátt í flutningnum Kammerkór Norðurlands og Hymnodia. „Sem organistar Akureyrarkirkju, þau Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson, hafa æft frábærlega vel fyrir þessa tónleika undanfarna mánuði. Á tónleikunum fyrir norðan syngur Stúlknakór Akureyrarkirkju og fyrir sunnan Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju,“ segir Hörður og bendir á að barnakórarnir syngi lítið en veigamikið hlutverk í upphafs- og lokaþætti fyrri hluta verksins. Einsöngvarar eru Kristinn Sigmundsson bassi, Oddur Arnþór Jónsson barítón, Hannah Morrison sópran, Elmar Gilbertsson tenór, Hildigunnur Einarsdóttir alt og Valdemar Villadsen tenór.

„Svo skemmtilega vill til að Hannah Morrison, sem söng h-moll messu Bach í Hallgrímskirkju á síðasta ári, á rætur að rekja til Akureyrar. Hún er framúrskarandi barokksöngvari og hefur meðal annars unnið með John Eliot Gardiner og Monteverdi-kórnum. Ég vissi að hún væri hálf-íslensk þegar ég réð hana í fyrra, en hafði ekki hugmynd um að hún væri ættuð frá Akureyri,“ segir Hörður og rifjar upp að móðir Morrison, Agnes Baldursdóttir píanókennari, hafi stundað nám við Tónlistarskólann á Akureyri á sama tíma og hann. „Hildigunnur, sem syngur með Schola cantorum og söng einsöng síðast þegar við fluttum Jólaóratoríuna í Hallgrímskirkju með eftirminnilegum hætti, er dóttir Einars Kristjánssonar gítarleikara frá Akureyri,“ segir Hörður og tekur fram að tveir hljóðfæraleikarar komi sérstaklega frá útlöndum, barokksellistinn Julien Barre og gömbuleikarinn Nicholas Milne.

Samfelld snilld

Hörður hefur aðeins einu sinni áður stjórnað Matteusarpassíu, en það var á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju árið 2005. „Þetta er stórvirki, bæði vegna stærðar og ekki síður hugmyndaauðgi höfundarins sem leggur allt í þetta verk. Í raun er þetta tvöfalt umfangsmeira verk en Jóhannesarpassían. Höfundur notast við tvo kóra og tvær hljómsveitir, sem er yfirdrifin hugmynd við þær aðstæður þegar verkið var fyrst flutt, en þá voru passíur fluttar í messu á föstudaginn langa. Fyrri hlutinn var þá fluttur fyrir predikun og seinni hlutinn eftir,“ segir Hörður og áætlar að flutningurinn í heild taki hátt á þriðju klukkustund.

„Bach notar í mótettum sínum stundum tvo kóra, en það er talið vera undir áhrifum frá Heinrich Schütz, sem kynntist þessu formi hjá kennurum sínum í Feneyjum um hundrað árum fyrr. Þessi tveggja kóra stíll er því að fyrirmynd feneyjastíls Gabríeli, en í Markúsarkirkju sungust oft á tveir til fjórir kórar á svölum kirkjunnar. Matteusarpassía kallar á mikið gallerí af söngvurum,“ segir Hörður og bendir á að níu kórfélagar muni taka á sig ýmis smáhlutverk verksins.

„Bach notar kórana tvo með áhrifaríkum og dramatískum hætti til að túlka öfgafull viðbrögð lýðsins. Í aríum sínum notar Bach allar mögulegar samsetningar af hljóðfærum. Þetta er því samfelld snilld og fjölbreytni. Þegar kemur að hljóðfæraskipaninni í aríunum notar Bach stundum hljóðfæraleikara úr hljómsveit eitt og stundum tvö sem gerir þetta frekar flókið í skipulagningu,“ segir Hörður, sem æfði með kórunum um helgina og í fyrsta sinn með bæði hljómsveit og kór í gærkvöldi í Hofi.

Stór verkefni framundan

„Þetta er flóknasta æfingaferli sem ég hef þurft að skipuleggja, ekki síst í ljósi þess að æfingatíminn var takmarkaður,“ segir Hörður, sem fram að síðasta föstudegi einbeitti sér að því að æfa flutning Schola cantorum á Eddu II: Líf guðanna eftir Jóns Leifs, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands heimsfrumflutti í Hörpu.

„Það vildi svo heppilega til að kórarnir mínir í Reykjavík voru aldrei þessu vant ekki með tónleikahald um páskahátíðina og því hafði ég tök á að taka þetta verkefni að mér. Kórarnir mínir eru með þrjú verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands með stuttu millibili,“ segir Hörður og vísar þar til Eddu II sem Schola cantorum tók þátt í, sýningu á kvikmyndinni Amadeus í Hörpu 26. og 27. apríl þar sem Mótettukór Hallgrímskirkju syngur við undirleik SÍ og loks flutnings Mótettukórs Hallgrímskirkju og SÍ á sinfóníu nr. 2 eftir Mahler í Hörpu við opnun Listahátíðar í Reykjavík 1. júní undir stjórn Osmo Vänskä. Þess má að lokum geta að miðar á Matteusarpassíu eru seldir á tix.is. Aðeins eru örfáir lausir miðar í Hofi.