Elín Inga Jónasdóttir fæddist á Helluvaði í Mývatnssveit 29. október 1934. Hún lést 18. mars 2018.
Foreldrar hennar voru Jónas Sigurgeirsson, f. 4. desember 1901, d. 18. október 1996, og Hólmfríður Ísfeldsdóttir, f. 16. júlí 1907, d. 22. ágúst 1996.
Elín Inga, sem alltaf var kölluð Inga, var gift Jóni Aðalsteini Jónssyni frá Hömrum í Reykjadal, f. 9. janúar 1925, d. 18. júní 2016. Dóttir Elínar Ingu og Reynis Jónassonar er Bryndís Arna Reynisdóttir, f. 19. september 1961. Börn Bryndísar og Guðjóns Guðlaugssonar eru Davíð Ingi, Elísabet Ýr og Reynir Már. Núverandi sambýlismaður Bryndísar er Garðar Ægisson, f. 30. ágúst 1957. Börn Garðars eru Stefán Ragnar, Ægir, Sigurður Þór, Helga Björg og Aron Freyr. Barnabörnin eru þrjú, Nadía Mist, Garðar Ingi og Alma Rós.
Synir Jóns og Elínar Ingu eru Hinrik Már, f. 29. nóvember 1967. Sambýliskona hans er Kolbrún María Sæmundsdóttir, f. 24. mars 1966. Börn Hinriks fyrir sambúð eru Hafliði, hans eiginkona er Sunna K. Jónsdóttir og eiga þau tvo syni, Elmar Nóna og Erni Mána. Rakel, hennar eiginmaður er Jón Þ. Reynisson og eiga þau synina Úlf Má og Atla Hrafn. Börn Hinriks og Kolbrúnar eru Kolbjörg Katla, hennar sambýlismaður er Daníel S. Magnússon og á Kolbjörg einn son, Hinrik Pál. Jóndís Inga og Sæþór Már. Friðrik Þór, f. 4. nóvember 1972. Sambýliskona hans er Sigríður Skarphéðinsdóttir, f. 17. desember 1970. Börn Friðriks eru Silja Rún og Sunna Sif. Inga og Nóni, en það var Jón ætíð kallaður, giftust 26. desember 1967. Þau bjuggu mestallan sinn búskap á Laugum í Reykjadal, lengst á Hólavegi 4 Hellubæ eða þangað til þau fluttust á Mýrarveg 111 á Akureyri haustið 2012.
Inga starfaði mest alla sína starfsævi sem matráðskona við Litlu-Laugaskóla. Inga var söngelsk og söng mestalla ævi í kórum af ýmsu tagi.
Útför Ingu fer fram frá Glerárkirkju í dag, 27. mars 2018, klukkan 13.30.
Að leiðarlokum er margs að minnast og margs að sakna. Mínar fyrstu minningar um hana mömmu mína eru svona brot frá þeim tíma þegar við vorum bara tvær saman. Man svo vel þegar hún breiddi yfir mig sængina á kvöldin og sagði: Ég kem svo á eftir og gái hvort þú ert sofnuð. Eða þegar við sátum suður á túni á Helluvaði og hún kenndi mér nöfnin á fjallahringnum í Mývatnssveit. Og þegar ég sat upp við altarið í Skútustaðakirkju og beið því mamma var að syngja í kórnum. Ég fékk snemma áhuga á kirkjusöng.
Þegar ég var um fimm ára kom hann Nóni inn í líf okkar mæðgna. Mikið var það erfitt fyrir litla snót sem hafði átt mömmu ein fram að þessu. Gleymi aldrei kvöldinu sem þau opinberuðu en man þó mest ljómann og brosið á andlitinu á mömmu. Þetta var nú fljótt að breytast og litla daman tók karlinn í sátt enda reyndist hann einhver besti fósturfaðir sem hægt er að hugsa sér. Hann þreyttist aldrei á að segja mér þegar hann var að kveðja okkur fyrir tæpum tveimur árum hvað honum þætti vænt um mig.
Eins og það hafi gerst í gær þegar hún vakti mig um miðja nótt, sat hjá mér á rúmstokknum og sagði mér að nú væri hún að fara á spítalann til að eiga litla barnið, kvaddi og laumaði að mér lítilli dúkku. Mikið var ég glöð með þessa litlu dúkku sem hún hafði verið búin að kaupa til að hafa við höndina þegar þar að kæmi. Það eru svona minningar sem koma upp í hugann þessa síðustu daga. Og þær mun ég geyma, elsku mamma mín.
Það voru ekki auðveldar vikur þegar hún varð að liggja á Húsavíkurspítala í tvo mánuði áður en hún átti Frissa bróður. Ég hlakkaði til sunnudaganna alla vikuna en þá fengum við að heimsækja hana. Ef mig hefði grunað þá hversu oft ég átti eftir að heimsækja hana á sjúkrahús um ævina. Já lífshlaupið hennar mömmu minnar var ekkert venjulegt. En hún var hörkutól og marga baráttuna sigraði hún og stóð alltaf upp aftur. Eins og dóttir mín sagði þegar hún þurfti að kveðja ömmu veika á spítalnum fyrir tæpum tveimur vikum áður en hún lagði af stað í langferð: „Amma er ekkert að fara núna, ég er búin að kveðja hana svo oft og held að ég sjái hana ekki aftur, en hún tekur alltaf brosandi á móti mér þegar ég kem heim.“
En nú var kallið komið, að þessu sinni var hún tilbúin að fara til Nóna síns, Buggu, ömmu og afa og allra hinna. Og nú er dansað og sungið í Paradís.
Að ferðalokum finn ég þig
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.
(Jón Sigurðsson)
Elsku mamma mín, ég er svo þakklát fyrir síðustu vikur sem við áttum saman, þú varst orðin svo sátt í Hlíð og nú leið þér vel. Nú var allt í einu orðið svo stutt í fallega brosið þitt. Áttir greinilega að fá góðan tíma áður en kallið kæmi.
Ég mun geyma í hjarta mér hljóðu fallegu stundina þegar þú kvaddir þangað til við sjáumst næst.
„Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.“
(Guðmundur G. Halldórsson)
Sofðu rótt, þín,
Bryndís Arna.
Það styrkti lítið hjarta sem var að fóta sig í samfélaginu að hafa þig og afa alltaf í eldhúsinu í barnaskólanum. Ég var upptekin af því að reyna að vera sjálfstæð og sterk, en einn daginn reyndi heldur betur á, þegar mér tókst að slasa mig lítillega í fótbolta uppi á túni. Ég harkaði auðvitað af mér þarna innan um strákana, en þegar frímínúturnar voru að klárast, laumaðist ég inn um bakdyrnar á skólanum – og læddist skælandi upp í eldhús. Þú þurrkaðir hendurnar í svuntuna þína, hraðaðir þér til mín og leyfðir mér að gráta í fanginu á þér á meðan afi sótti plástur á sárið mitt. Þú leyfðir mér síðast að gráta í fanginu á þér fyrir rúmu ári, þegar ég átti aðra ömmu sem var veik. Þrátt fyrir það að þér liði ekki vel sjálfri, þá fannstu að litla stelpan var aftur komin – eins og forðum inn af fótboltavellinum – og bauðst mér faðminn.
Ég sat við rúmið þitt og ætlaði að kveðja þig. Einhvern veginn fannst mér eins og ég væri að kveðja meira en bara þig og þína persónu. Þetta voru einhver þáttaskil – sem mér líkaði miður. Ég var að kveðja tilvist þína, tilvist sem leyfir mér að vera barn. Allar minningarnar um hlýjan og notalegan stað hjá ömmu og afa færðust fjær og mér fannst eins og þær ætluðu að þykjast vera af öðrum heimi. Sennilega var sorgin yfir því að fylgjast með þér veikri að hafa áhrif á mig, ég veit að ég mun alltaf geta notið þess að hugsa til baka. Takk fyrir að búa svo um fyrir mig og okkur öll, að hjá ykkur áttum við þennan verðmæta stað, sem ég mun alltaf sakna með kökk í hálsi.
Takk fyrir allt, elsku amma mín.
Þín
Rakel.
Það er ekki margt sem ég veit í þessum heimi en ég veit samt að þú elskar mig og ég veit að þú veist að ég elska þig. Skilyrðislausa ástin sem þú veittir mér er mér ómetanleg.
Ég hugsa oft um öll skiptin sem ég var hjá þér og afa á Laugum. Við spiluðum oft og aldrei mun ég gleyma skiptunum sem þú hjálpaðir mér að vinna, við munum aldrei viðurkenna að við höfðum svindlað þetta var aðeins samvinna sem enginn vissi af nema við tvær. Við tvær á móti heiminum. Ég og þú, amma, ég og þú.
Ég er þakklát fyrir að hafa átt ömmu sem var líka ein af mínum bestu vinkonum. Ég gat talað og talað við þig og alltaf skildir þú allt. Þú hlustaðir á allt mitt gelgjudrama en dæmdir mig aldrei. Ég er stolt af að hafa getað kallað þig ömmu.
Þú hefur kennt mér svo margt sem ég er svo þakklát fyrir. Til dæmis að aldrei gefast upp sama hvað á bjátar. Þú hefur kennt mér að það styttir alltaf upp, sama hversu erfitt allt er þá er ljós í enda gangsins. Þú gekkst í gegnum hluti sem margir geta einfaldlega ekki ímyndað sér. Með afa þér við hlið gastu gert allt sem þú ætlaðir þér. Þú og afi, amma, þú og afi. Ég á erfitt með að nefna betra dúó en ykkur.
Amma mín, elsku amma mín. Dansaðu við afa og hafðu gaman. Ekki gleyma mér samt, því ég veit að ég mun ekki gleyma þér. Ég veit að við munum hittast aftur, bara aðeins lengri tími í það en ég bjóst við. Ég ætla fyrst að sigra heiminn, amma.
Ég elska þig alltaf. Þín
Sunna.
Vona að þú hafir það gott þarna uppi með afa. Þú skilar kveðju til hans, ömmu Ellýjar og afa Skarphéðins frá mér.
Elska þig, elsku amma, og vonandi hefur þú það gott núna.
Silja Rún.
Ég á svo rosalega erfitt með að sætta mig við að þú sért farin frá okkur, það gerðist svo ótrúlega snöggt, eina stundina erum við saman að gera neglurnar þínar fínar fyrir þorrablót og þá næstu er mér sagt að þú eigir bara nokkra daga eftir.
Ég var svo viss um þegar ég kvaddi þig á sjúkrahúsinu áður en ég fór að þú ættir eftir að jafna þig, eins og svo oft áður, því þú varst svo mikið hörkutól. En í þetta skiptið var þinn tími kominn og ég veit hvað þér líður vel í paradísarlandi þar sem Nóni afi hefur tekið þér fagnandi opnum örmum.
Núna er ég svo ótrúlega langt í burtu og verð að kveðja þig á minn eigin hátt, en ég veit að þú hefðir ekki viljað neitt annað fyrir mig, því seinustu samskipti sem við áttum voru þannig að þú varst að hvetja mig áfram, þrátt fyrir veikindi þín.
Ég á erfitt með að hleypa fólki nálægt mér og er náin mjög fáum, en þér tókst einhvern veginn svo oft að brjótast inn fyrir brynjuna mína og vita hvernig mér leið, ég þurfti ekki einu sinni að tjá það með orðum.
Eins og þegar ég var unglingur og missti heittelskaða kisuna mína hana Jennu, ég mun aldrei gleyma hvernig þú lást uppi í rúmi hjá mér og grést með mér, þegar enginn annar mátti það. Eða þegar þú vissir bara með því að horfa á mig hvað mér leið illa í hjartanu stundum. Þú varst ótrúleg á þennan hátt. Ég veit ekki hvernig þú fórst að þessu.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa búið heima á Akureyri í vetur, því ég fékk að eyða svo miklum tíma með þér og ég vissi þá hvað þessar minningar yrðu mér dýrmætar, ég vissi samt ekki að það yrði svona fljótt.
Mér fannst svo gaman að pússa neglurnar þínar og lakka því ég sá hvað þú ljómaðir á þessum litlu stundum okkar. Eins og þegar við spjölluðum um ferðaplönin mín og þú hálfhristir hausinn í undrun yfir því, hvaðan ég fengi þessa ævintýraþrá, samt vildirðu alltaf heyra meira.
Allra helst mun ég muna stundirnar sem við sátum öll að spjalla og þú og afi kepptust við að segja sömu söguna á sama tíma, mér fannst það alltaf jafn krúttlegt því ég vildi alltaf einbeita mér að því að hlusta jafnt á ykkur bæði.
Ég er svo þakklát fyrir þig, elsku amma, þú kenndir mér svo ótal margt og ég er svo þakklát fyrir stuðninginn sem ég fékk frá þér.
Þín dótturdóttir,
Elísabet Ýr.
Móðurfjölskylda mín hefur ávallt verið samheldin og skipulagt ýmsar fjölskylduuppákomur. Þar var Inga ávallt fremst meðal jafningja. Átti þetta jafnt við um hinar árlegu vor- og jólahreingerningar á Helluvaði, heimili afa og ömmu, og fjölskylduferðir sem farnar voru mörg ár á meðan heilsa afa og ömmu leyfði. Þar ber líklega hæst framlag Ingu í undirbúningi sameiginlegra kvöldverða stórfjölskyldunnar í eldhúsi Gamla-Húss, eða hennar þátt í ríkulegu nesti á ferðalögum, þar sem upp úr nestistöskum komu fínustu kræsingar og jafnvel tertur sem hefðu sómt sér vel á hvaða veisluborði sem væri. Nú á seinni árum hefur fjölskyldan komið saman á sumrin á ættar- eða fjölskyldumótum á Helluvaði eða Kálfaströnd, ættaróðali ömmu. Þá skemmtu sér saman ungir sem aldnir, þar á meðal Inga, í þessu fagra umhverfi Mývatnssveitar.
Ég á líka margar góðar minningar frá tímanum þegar ég átti heima á Laugum. Á sjöunda áratugnum var Inga matráðskona við héraðsskólann þar. Við börnin á staðnum fórum í feluleiki í búrum og öðrum vistarverum eldhússins en þar voru frábærir felustaðir svo sem inni í skápum og innan um risastóra potta. Kassinn með Frón-kremkexinu í búrinu hafði líka alltaf mikið aðdráttarafl, eftir fjöruga leiki laumuðust litlar hendur ofan í kassann og nældu sér í nokkrar kökur. Sláturgerðin á haustin var alltaf mikill viðburður en þá komu myndarhúsmæður úr sveitinni til að aðstoða við sláturgerð, undir styrkri stjórn Ingu og Þuru vinkonu hennar, sem starfaði einnig sem matráðskona á Laugum. Ég fékk þá að fylgja mömmu sem einnig tók þátt í sláturgerðinni.
Þegar Ingu er minnst má ekki gleyma frábærum hæfileikum hennar á sviði saumaskapar. Þar ber að nefna alla fallegu jólakjólana okkar systra sem Inga hannaði, sneið og aðstoðaði mömmu við að sauma.
Árið 2012 glímdi Inga við erfið veikindi og dvaldi rúmlega tvo mánuði á Landspítalanum. Ég heimsótti Ingu oft og við áttum margar góðar stundir saman þegar hún var það frísk að hún gat rabbað við mig um landsins gagn og nauðsynjar. Seinna þegar börnin hennar þurftu reglulega að fylgja henni hingað suður vegna læknisheimsókna gladdi það mig alltaf ef ég gat aðstoðað þau systkinin.
Ég skrapp til Akureyrar nú í byrjun mars en þá var Inga enn ótrúlega hress. Hún kom í matarboð í Einilund til foreldra minna og naut þess að gæða sér á þorramat með nánustu ættingjum. Einnig heimsótti ég hana í fallega herbergið hennar á Dvalarheimilinu Hlíð.
Minningar um Ingu munu lifa lengi í huga mér og annarra sem hana þekktu. Einstakrar konu er sárt saknað.
Elsku Bryndís, Hinrik, Friðrik og fjölskyldur, ég og fjölskylda mín vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Elín Gunnhildur Guðmundsdóttir (Ella Gunna).