Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, sextán aðildarríkjum Evrópusambandsins og fleiri löndum ákváðu í gær að vísa tugum rússneskra stjórnarerindreka úr landi vegna tilraunar til að ráða fyrrverandi rússneskan njósnara af dögum í Bretlandi. Brottvísanirnar eru álitnar mikill sigur fyrir stjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og benda til þess að afstaða Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til stjórnvalda í Kreml hafi harðnað verulega, að sögn stjórnmálaskýrenda.

Ráðamennirnir í Rússlandi neituðu enn ásökun breskra stjórnvalda um að þeir hefðu staðið fyrir tilraun til að myrða Sergej Skripal, fyrrverandi rússneskan njósnara sem var á mála hjá bresku leyniþjónustunni. Rússar sögðust ætla að svara þessum „óvinsamlegu aðgerðum“.

„Svara notkun Rússa á efnavopni“

Stjórn Bandaríkjanna vísaði alls 60 meintum njósnurum Rússa úr landi, tæpri viku eftir að Trump hafði virt ráð sérfræðinga sinna að vettugi og óskað Vladimír Pútín Rússlandsforseta til hamingju með endurkjörið í umdeildum kosningum. Þetta eru mestu brottvísanir rússneskra eða sovéskra stjórnarerindreka í sögu Bandaríkjanna. Áður hafði stjórn Trumps vísað 35 rússneskum stjórnarerindrekum úr landi vegna tilrauna Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember 2016.

Bandarískir embættismenn sögðu að 48 brottræku leyniþjónustumannanna væru við sendiráð og ræðismannsskrifstofur en tólf skráðir sem stjórnarerindrekar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, fagnaði ákvörðun stjórnarinnar og sagði að Rússar hefðu notað höfuðstöðvar samtakanna sem „griðastað fyrir hættulega starfsemi innan landamæra Bandaríkjanna“. Embættismennirnir sögðu að skrifstofu aðalræðismanns Rússlands í Seattle yrði einnig lokað.

Sextán aðildarlönd Evrópusambandsins ákváðu að vísa alls 33 rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Á meðal þeirra eru öll norrænu ríkin í Evrópusambandinu, Danmörk, Finnland og Svíþjóð. Stjórnvöld í Úkraínu vísuðu þrettán Rússum úr landi, Kanada fjórum, Albanía tveimur og Noregur einum.

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna sögðu í vikunni sem leið að mjög líklegt væri að rússnesk stjórnvöld hefðu staðið fyrir tilrauninni til að myrða Skripal með taugaeitri, fyrstu árásinni með efnavopni í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. Talsmaður Trumps, Sarah Sanders, sagði í gær að með þessum brottvísunum væru Bandaríkin og samstarfslönd þeirra að „svara notkun Rússa á efnavopni á bresku landsvæði“.

May sagði að með því að sýna Bretum samstöðu með brottvísunum rússneskra stjórnarerindreka væru samstarfsríkin að senda Rússum sterk skilaboð. „Við fögnum aðgerðum bandamanna okkar í dag, þær sýna skýrt að við stöndum öll þétt saman og sendum Rússum mjög sterk skilaboð um að þeir geti ekki haldið áfram að virða alþjóðalög að vettugi,“ sagði forsætisráðherrann. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, lýsti aðgerðunum sem mestu fjölþjóðlegu brottvísunum rússneskra leyniþjónustumanna í sögunni.