*ÍR-ingar hafa tryggt sér liðsstyrk vegna fjarveru Ryans Taylors í fyrstu tveimur leikjunum í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta.
Borche Ilievski , þjálfari ÍR, staðfesti við karfan.is eftir sigurinn á Stjörnunni í fyrrakvöld að félagið myndi endurheimta Hjalta Friðriksson fyrir næsta einvígi. Hjalti kemur til landsins fimmtudaginn. Hjalti er stór og stæðilegur framherji sem lék 15 leiki með ÍR á síðustu leiktíð og skoraði þá 7,5 stig að meðaltali í leik, og tók 5,1 frákast.
* Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafnaði í 76.-80. sæti á Kia Classic mótinu í golfi sem fram fór í Carlsbad í Kaliforníu um helgina. Hún fékk fyrir árangur sinn 3.215 Bandaríkjadali, jafnvirði um 320.000 króna.
Ólafía lék hringina fjóra samtals á 2 höggum yfir pari en hún átti slæman lokahring og lék hann á 6 höggum yfir pari.
Sigurvegari varð Eun-Hee Ji frá Suður-Kóreu sem fékk 270.000 dali í sinn hlut, eða um 27 milljónir króna. Ekki nóg með það heldur tryggði Ji sér tvo bíla frá aðalstyrktaraðila þessa LPGA-móts, Kia.
Ji tryggði sér fyrst bíl með því að ná holu í höggi á 14. braut, þar sem hún tók fram 7-járn og sló boltann 151 metra. Hún fagnaði því vel en fékk svo annan bíl fyrir sigurinn í mótinu. Hún lék samtals á 16 höggum undir pari
*Kolbeinn Sigþórsson , Hörður Björgvin Magnússon og Jón Daði Böðvarsson verða fjarri góðu gamni þegar Ísland mætir Perú í vináttuleik í Bandaríkjunum í nótt.
Frá þessu var greint á vefnum fótbolti.net í gær en leikmennirnir þrír glíma allir við meiðsli og voru ekki með í tapleiknum gegn Mexíkó um nýliðna helgi. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður heldur ekki með en hann átti aðeins að vera með í leiknum á móti Mexíkó þar sem hann spilaði fyrri hálfleikinn. Þá fóru Albert Guðmundsson og Samúel Kári Friðjónsson til N-Írlands þar sem spiluðu með U21 árs landsliðinu í gær en báðir komu þeir við sögu í leiknum við Mexíkó.