Grandagarður 16 Matarmarkaðurinn og veitingastaðirnir verða í 500 fermetra húsnæði á 1. hæðinni. Svæðið á Granda breytist því enn á næstunni.
Grandagarður 16 Matarmarkaðurinn og veitingastaðirnir verða í 500 fermetra húsnæði á 1. hæðinni. Svæðið á Granda breytist því enn á næstunni. — Morgunblaðið/Ómar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Á undanförnum árum hafa veitingahús verið að hasla sér völl á Grandanum í Örfirisey.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á undanförnum árum hafa veitingahús verið að hasla sér völl á Grandanum í Örfirisey. Þar er nú þegar að finna mörg og fjölbreytt veitingahús og nú liggja fyrir hjá borgaryfirvöldum beiðnir um 11 nýja veitingastaði á Grandanum.

Á síðasta fundi í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar lá fyrir erindi frá Faxaflóahöfnum sf., eiganda Grandagarðs 16. Í húsinu hefur Sjávarklasinn verið til húsa undanfarin ár. Faxaflóahafnir sækja um leyfi til þess að í húsinu verði starfræktur matarmarkaður og níu veitingastaðir á hluta fyrstu hæðar. Stefnt er að matarmarkaði í anda þeirrar starfsemi sem nú fer fram á Hlemmi.

Að erlendri fyrirmynd

Fram hefur komið í samtali við Þór Sigfússon, stjórnarformann Sjávarklasans, að í Mathöllinni á Granda verði básar og vagnar með nýstárlegum göturéttum „sem innihalda það besta sem miðin og landið gefa af sér“. Fyrirmyndin sé m.a. sótt til Copenhagen Street Food og Vippa í Osló í Noregi.

Þessu tengt sótti „Rabbabarinn minn“ um leyfi til áfengisveitinga til klukkan 24 alla daga í Grandagarði 16 en umsögnin var neikvæð.

Kría hjól ehf., Grandagarði 5, sækir um leyfi til að innrétta veitingastað fyrir 80 gesti á fyrstu og annarri hæð og koma fyrir flóttastiga á norðurhlið húss á lóð nr. 7 við Grandagarð. Í næstu húsum eru fyrir tvö veitingahús, Sjávarbarinn og Flatey pizza.

Fyrirtækið Hífandi ehf., Eyjarslóð, sækir um leyfi til að innrétta veitingastað fyrir 50 gesti á annarri hæð í sama húsi. Í húsinu eru m.a. fyrirtækin Sæbjörg og Sjófiskur með starfsemi og áður var dagsetur Hjálpræðisherins á fyrstu hæð.

Í næsta nágrenni, Eyjarslóð 5, er bjórgarðurinn Ægisgarður. Afgreiðslu allra þessara erinda var frestað í umhverfis- og skipulagsráði.

Vilja breyta Nettóverslun

Loks er þess að geta að fyrir nefndina hefur verið lagt erindi frá Samkaupum í Njarðvík. Sótt er um leyfi til að breyta verslun Nettó á Fiskislóð 3. Áformað er að skipta verslunarrýminu og innrétta apótek, koma fyrir nýjum inngangi á suðvesturhlið og nýrri hurð á suðurhlið fyrir starfsfólk og vörumóttöku. Afgreiðslu þessa erindis var sömuleiðis frestað.