Myndlistarmiðstöð AðalheiðurValgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir munu stýra sumarsýningu Skaftfells á Seyðisfirði, með verkum fimm listamanna.
Myndlistarmiðstöð AðalheiðurValgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir munu stýra sumarsýningu Skaftfells á Seyðisfirði, með verkum fimm listamanna. — Morgunblaðið/Einar Falur
Fyrir sumarsýningu Skaftfells á Seyðisfirði í ár var tekið upp á þeirri nýbreytni að auglýsa eftir tillögum að sýningu.

Fyrir sumarsýningu Skaftfells á Seyðisfirði í ár var tekið upp á þeirri nýbreytni að auglýsa eftir tillögum að sýningu. Bárust rúmlega 30 umsóknir og valdi fagráð Skaftfells tillöguna K a p a l, en að henni standa Aðalheiður Valgeirsdóttir, myndlistarmaður, listfræðingur og sýningarstjóri, og Aldís Arnardóttir, listfræðingur og sýningarstjóri.

Sýningin verður opnuð 16. júní og þá verður jafnframt haldið upp á 20 ára starfsafmæli Skaftfells. Á henni verður varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja hugleiðingu um kapalinn – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði. Á sýningunni verða ný og eldri verk eftir fimm íslenska listamenn, þau Sigurð Guðjónsson, Tuma Magnússon, Unnar Örn Auðarson, Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur.

Sýningin verður unnin í samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands, sem er til langs tíma samstarfsaðili Skaftfells.

Í tilkynningu um valið segir að tillaga Aðalheiðar og Aldísar snerti á mörgum flötum sem hafa verið til tals í Skaftfelli. Samtímamyndlist er í fyrirrúmi og inntak sýningarinnar tengist bæði sögu bæjarins og beintengingu við meginlandið. Auk þess á heimalistamaður, Tumi, verk á sýningunni, ásamt listamönnum sem hafa ekki áður sýnt í Skaftfelli. Þá verða listaverk unnin á staðnum í samstarfi við Tækniminjasafnið.