Birgir Hallur Erlendsson fæddist á Siglufirði 12. febrúar 1928. Hann andaðist á Landakoti í Reykjavík 15. mars 2018.

Foreldrar hans voru Valgerður Guðlaug Hallsdóttir frá Fáskrúðsfirði, f. 4. september 1904, d. 6. febrúar 1982, og Erlendur Þorsteinsson frá Fáskrúðsfirði, f. 12. júní 1906, d. 10. júlí 1981.

Bróðir Birgis var Bragi Valgarður Erlendsson, raforkuverkfræðingur, f. 20. júlí 1930, d. 24. desember 1996. Hálfsystkini Birgis og Braga, samfeðra, voru Gunnar Bachmann og Helga Sigríður Bachmann, þau eru bæði látin.

Hinn 17. janúar 1952 kvæntist Birgir Sigrúnu Theódórsdóttur frá Reykjavík, f. 18. september 1932, d. 31. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Sigurlaug Sigurðardóttir, f. 8. júní 1903 í Súgandarfirði, d. 14. nóvember 1970, og Theódór Kristinn Guðmundsson, f. 25. júlí 1905 í Bolungarvík, d. 27. maí 1969.

Birgir og Sigrún eignuðust fjögur börn, þau eru 1) Arndís, f. 3. júní 1951, maki Kristján Haraldsson, f. 30. janúar 1949, börn þeirra eru a) Sigrún, f. 1973, hennar synir eru Lárus Þór og Atli Freyr. b) Brynja, f. 1975, maki Baldur Jóhannsson, f. 1974, börn þeirra eru Bjarki, Arndís og Lilja, sonur Baldurs er Sindri Már, sambýliskona Berglind Una Unnsteinsdóttir, sonur þeirra er Kormákur Atlas. c) Birgir, f. 1982, maki Kristín Erla Þórisdóttir, f. 1984, börn þeirra eru Karítas og Dagur Kári. 2) Erlendur Þorsteinn, f. 29. júní 1954. 3) Hallur, f. 10. nóvember 1957, maki Kristín Dóra Karlsdóttir, f. 30. september 1957, dætur þeirra eru a) Stella, f. 1987, maki Guðjón Örn Helgason, f. 1984, sonur þeirra er Sigurlogi Karl. b) Tinna, f. 1992, sambýlismaður Manuel Schembri, f. 1994. 4) Drengur andvana fæddur 11. desember 1966.

Birgir var uppalinn á Siglufirði á síldarárunum. Það hafði mikil áhrif á hans starfsvettvang, hann fór ungur á sjó, um 15 ára, á ýmsum bátum frá Siglufirði. Eftir gagnfræðaskóla fór hann í Skipstjóra- og stýrimannaskólann í Reykjavík. Hélt því áfram á sjó eftir nám og starfaði mest sitt líf sem stýrimaður og skipstjóri, m.a. á Jóni Gunnlaugssyni GK 444, Margréti SI 4 og síðast á Eldborgu GK 13. Eftir sjómennsku um 1980 hóf hann störf hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og gerðist fiskeftirlitsmaður á ýmsum togurum úti á sjó. Fór hann síðan alfarið í land sem eftirlitsmaður hjá frystihúsum víða um land.

Á sjómannadeginum árið 2002 var Birgi veitt viðurkenning fyrir björgunarafrek, þegar Hamar GK 32 frá Sandgerði sökk í Faxaflóa í byrjun júlí 1962 á leið til síldveiða. Afrek hans við að koma gúmmíbátnum á flot, þegar bátnum hvolfdi skyndilega, varð til þess að allir í áhöfninni björguðust.

Birgir gekk í Oddfellow-regluna í maí 1972 og var félagi í bræðrastúkunni Þorkeli Mána.

Birgir og Sigrún bjuggu fyrst í Kópavogi, í Melgerði 1 árin 1955-1966 og á Borgarholtsbraut 51 árin 1966-1983, síðan í Hafnarfirði, á Hjallabraut 86 árin 1983-2008 og að lokum á Hraunvangi 1 frá 2008.

Útför Birgis fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 27. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku pabbi minn, komið er að kveðjustund og leiðir okkar skilja að sinni.

Með miklum söknuði hugsa ég til þín nú en er samt svo óendanlega þakklát fyrir samveru okkar í gegnum lífið.

Í gegnum tíðina man ég þig alltaf vera að fara á sjóinn eða að vera að koma af sjónum enda varst þú sjómaður alla tíð. Þú lærðir til skipstjórnar- og stýrimannsréttinda og varðst svo sannarlega farsæll skipstjóri á hinum ýmsu skipum. Þú lentir í miklum sjávarháska er bátur þinn sökk mjög skyndilega hér í Faxaflóa 1962 en varðst þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga áhöfn þinni frá sjóskaða er þú kafaðir eftir björgunarbátnum og komst allri áhöfninni um borð en það var ekkert afrek eins og þú sagðir, það hefðu allir gert þetta í þessum sporum. En í dag, svo mörgum árum seinna, sé ég hve mikið afrek þetta var og lýsir þér svo vel, að hugsa fyrst um aðra og síðan sjálfan þig.

Mörg ferðalögin fórum við saman bæði innan- og utanlands og þá sérstaklega til Spánar í sælureitinn ykkar mömmu þar sem þið nutuð ykkar best í sólinni og með okkur börnunum þínum og þá ekki síst barnabörnunum, en þú varðst þeim einstaklega góður og umhyggjusamur afi. Einnig var alltaf yndislegt að skjótast í Skrúð í Vaðnesið og eiga þar góðar stundir, hvort sem það var yfir nótt eða í skamman tíma.

Þessa góðu minningar ylja mér nú og mun ég geyma þær í hjarta mínu.

Þú áttir góða ævi með mömmu þér við hlið og eins og sönn sjómannskona stóð hún við hlið þér í blíðu og stríðu. Eftir andlát hennar fyrir þremur árum fannst þér eins og það vantaði alltaf eitthvað eins og þú sagðir svo oft.

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

Ef minning geymir ást og yl

hún yfir sorgum gnæfir

því alltaf verða tónar til

sem tíminn ekki svæfir.

(K.H.)

Elsku pabbi, ég þakka þér öll árin sem við áttum saman, væntumþykju þína og umhyggju fyrir mér og fjölskyldu minni.

Ég minnist þín veifandi til okkar úr brúnni á skipi þínu skælbrosandi, brosi sem alltaf lýsti allt upp í kringum sig eins og sólin.

Megi englarnir umvefja þig og Guð þig geyma,

Þín dóttir

Arndís.

Í dag kveðjum við elsku afa okkar sem var svo hlýr og góður.

Alltaf tók hann á móti okkur með bros á vör og þótti honum sérstaklega gaman að fá okkur og barnabarnabörnin í heimsókn. Við minnumst hans öll með gleði í hjarta og erum þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með honum bæði hér heima, þá sérstaklega í sumarbústaðnum, og erlendis.

Þó að afi hafi verið orðinn fullorðinn hafði hann nú mikinn áhuga á að fylgja nýjustu tækni og var það ekki ósjaldan sem við systkinin aðstoðuðum hann við hin ýmsu tæknimál, svo sem að stilla símann, tölvuna og fjarstýringuna, og oft var mikið hlegið á þeim stundum.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Blessuð sé minning afa sem okkur þótti svo vænt um.

Hvíldu í friði, elsku afi,

Sigrún, Brynja og Birgir.

HINSTA KVEÐJA

Elsku langafi,
ég horfi í himininn
sé stjörnu skína,
það er stjarnan þín.
Ég hugsa
til þín
man brosið þitt
hlátur
og allt það góða
sem þú gafst.
Og þegar sólin
kemur upp
vaxa blóm
af tárum okkar
kærleiksblóm.
(S.Ó.)

Þín langafabörn,
Lárus Þór, Atli Freyr, Bjarki, Arndís, Lilja,
Karítas og Dagur Kári.