Sterk Lovísa Thompson skoraði 14 mörk í leikjunum þremur.
Sterk Lovísa Thompson skoraði 14 mörk í leikjunum þremur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri náði athyglisverðum árangri um síðustu helgi. Liðið vann sér inn keppnisrétt í lokakeppni HM í Ungverjalandi í júní á næsta ári.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri náði athyglisverðum árangri um síðustu helgi. Liðið vann sér inn keppnisrétt í lokakeppni HM í Ungverjalandi í júní á næsta ári.

Fá fordæmi eru fyrir slíkum árangri í íslenskum yngri landsliðum kvenna í handbolta. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst er þetta í fjórða skipti sem eitthvert yngri landsliða kvenna kemst á stórmót í handboltanum. Gerðist það síðast fyrir áratug eða svo.

Í liðinu eru leikmenn sem handboltaunnendur kannast við úr Olís-deildinni og þar má nefna þær Andreu Jacobsen úr Fjölni, Söndru Erlingsdóttur úr ÍBV, Berta Rut Harðardóttir úr Haukum og Lovísu Thompson úr Gróttu. „Fyrst þegar við heyrðum að aðeins kæmist eitt lið áfram úr riðlinum þá var maður ekki viss um hvort það væri raunhæft. En þegar Eyjaálfa hætti við þátttöku og ljóst varð að okkar riðill fékk þeirra sæti og þá urðu væntingarnar meiri hjá okkur. Mikil uppbygging hefur átt sér stað varðandi okkar lið. Við byrjuðum illa fyrir nokkrum árum þegar við urðum fyrsta íslenska landsliðið til að tapa fyrir Færeyjum í mótsleik. Eftir þriggja ára uppbyggingu erum við komnar með sæti á HM sem segir mikið um hversu langt við höfum náð á stuttum tíma,“ sagði Lovísa í samtali við Morgunblaðið og þegar upp var staðið fannst henni frammistaða liðsins vera mjög góð.

Jafn leikur gegn Þjóðverjum

Ísland vann örugga sigra á Litháen og Makedóníu. Handboltinn nýtur vinsælda í Makedóníu og Litháar eiga mjög frambærilegar handboltakonur eins og glögglega hefur sést í Olís-deildinni. Slíkir sigrar lofa því mjög góðu en það sem mesta athygli vakti var hnífjafn leikur á milli Þýskalands og Íslands. Þótt hann tapaðist bendir frammistaðan til þess að íslenska liðið sé býsna sterkt því þýsku kvennalandsliðin hafa verið í fremstu röð. Stefán Arnarson, sem stýrði liðinu ásamt Hrafnhildi Skúladóttur, hafði orð á þessu í Morgunblaðinu á mánudaginn.

„Þýskaland er með eitt af fimm bestu liðum heims í þessum aldursflokki og sá leikur var bara stöngin út. Það sýnir hvað við erum með efnilegt lið. Leikurinn ætti að vera vítamín fyrir þessar stelpur til að gera betur,“ sagði Stefán og Lovísa tók í sama streng.

„Já, það var mjög sterkt og kom okkur á vissan hátt á óvart hversu vel við stóðum í þeim. Stebbi og Hrabba höfðu lagt áherslu á okkar leik og minna um andstæðinginn. Þau hafa skipt sköpum varðandi sjálfstraust leikmanna og við hefðum vel getað unnið Þjóðverja. Smávægilegur klaufaskapur undir lok leiksins kom í veg fyrir það. Sá leikur sýnir hversu öflugar við erum,“ benti Lovísa á.

Líkamlegir burðir til staðar

Axel Stefánsson, þjálfari A-landsliðs kvenna, hefur lagt áherslu á að bæta þurfi líkamlegt atgervi íslenskra handboltakvenna til þess að landsliðin geti komist í fremstu röð. Morgunblaðið hafði samband við Axel eftir þessi tíðindi og hann sagði mjög jákvæð teikn vera á lofti varðandi U-20 ára liðið.

„Þetta er frábær árangur. Við vitum að í þessu liði eru margir góðir leikmenn og til dæmis tvær sem spilað hafa A-landsleiki. Þessar stelpur hafa æft gríðarlega og ég sá leikinn gegn Þjóðverjum á netinu. Þar sá ég að þær eru komnar með þá líkamlegu burði sem til þarf og voru ekki síðri en þær þýsku hvað það varðar. Er það eitthvað sem yljar mínum hjartarótum,“ sagði Axel og bætti við. „Mér finnst ótrúlega flott að sjá hversu vel þessar stelpur eru þjálfaðar og þá standast þær bestu liðunum snúning. Þýskaland hefur gert það gott í þessum aldurslokki. Þeirra lið hefur verið mjög sterkt. Okkar stelpur fá ómetanlega reynslu við það að keppa á lokamóti og það mun nýtast okkur í framtíðinni,“ sagði Axel Stefánsson.