Athafnamaður Geir Magnússon fór til Bandaríkjanna árið 1975 til að starfa fyrir dótturfélag Sambandsins, Iceland Seafood.
Athafnamaður Geir Magnússon fór til Bandaríkjanna árið 1975 til að starfa fyrir dótturfélag Sambandsins, Iceland Seafood. — Morgunblaðið/Baldur Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson Baldur@mbl.is Geir Magnússon, athafnamaður í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, býður til sölu bílaþvottastöð í heimabæ sínum, Mechanicsburg. Tekjumöguleikar eru sagðir góðir og fastakúnnar margir. Hvor þvottastöð er með fimm bása.

Viðtal

Baldur Arnarson

Baldur@mbl.is

Geir Magnússon, athafnamaður í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, býður til sölu bílaþvottastöð í heimabæ sínum, Mechanicsburg. Tekjumöguleikar eru sagðir góðir og fastakúnnar margir.

Hvor þvottastöð er með fimm bása. Á fjórum afgreiða viðskiptavinir sig sjálfir en á þeim fimmta er sjálfvirk þvottastöð. Stöðvarnar liggja vel við umferð.

Geir hóf rekstur þeirra á níunda áratug síðustu aldar. Hann hafði þá gegnt ýmsum ábyrgðarstöðum, meðal annars fyrir Coldwater Seafood, Iceland Seafood og Iceland Import Incorporation, félag Álafoss í New York. Hann fluttist til Mechanicsburg árið 1975 þegar hann var ráðinn af Sambandinu til að reka fyrirtækið Iceland Seafood, sem þá hét Iceland Products. Fyrirtækið seldi í upphafi fisk, ull og lambakjöt.

Fæddur 1933 og íhugar að minnka við sig

Geir, sem verður 85 ára í ár, rekur tvær bílaþvottastöðvar í bænum. Hann segir koma til greina að selja aðra hvora eða báðar.

„Það er hugsanlegt að ég selji jafnvel báðar stöðvarnar fyrir rétt tilboð. Hef rætt um það í nokkur ár. Ef það snjóar mikið segi ég stundum við sjálfan mig að ég þurfi að minnsta kosti að selja aðra stöðina. Svo kemur góður mánuður og aurarnir hrúgast inn. Þá finnst manni kannski óþarfi að vera að selja einmitt núna. Ég er ekki skipulagður maður. Ég er frekar eins og laus kútur í brimi. Ég berst hér og þar,“ segir Geir.

Eins og að vera mjólkurbóndi

Sólríkt var í Mechaniscburg um helgina. Snjórinn að bráðna og vor í lofti. Rykið af götunum settist á bílana.

Geir hafði því í nógu að snúast vegna stöðvanna. Setja þurfti smámynt í sjálfsala, fylla á sápukúta og hreinsa plönin. Stundum eru viðskiptavinirnir klaufar og loka sig inni á sjálfvirka básnum. Þá þarf Geir að hafa hraðar hendur. Um helgina kom slíkt tilfelli upp og hentist Geir þá upp stiga og lagaði rofa í loftinu. Hann stekkur enn upp í ruslagáma til að troða ruslið.

„Ég hef líkt þessu við að vera mjólkurbóndi. Maður þarf að fara að minnsta kosti tvisvar á dag til að athuga slöngurnar og moka skítinn eftir bílana,“ segir Geir.

Hann segir nokkra heimamenn hafa augastað á stöðvunum.

„Hér er maður sem á þrjár stöðvar og honum finnst hann geta bætt við einni í viðbót. En ég hugsa að hann bjóði aðeins hálfvirði. Það er ekki svo að ég sé kominn með þetta á söluskrá. Svo skiptir máli hvernig útborgunin er. Ég ætla ekki að bíða eftir 15 ára veðláni. Það skiptir þó í raun ekki nokkru máli, því ég á meira en nóg í mig og mína. Ég er enn að fá borgað fyrir þessa þriðju sem ég seldi,“ segir Geir sem seldi eina stöð á síðasta áratug. Var hún í nokkurri fjarlægð frá hinum tveimur.

Mun ekki kaupa Cadillac

Spurður hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur þegar hann hefur minnkað við sig skyldurnar á bílaþvottastöðvunum svarar Geir með sögu af gullfiskum.

„Hefurðu nokkurn tímann lesið um gullfiska? Hér hefurðu gullfiskabúr og hér synda gullfiskarnir í hring,“ segir Geir og teiknar fiskabúr með höndunum. „Þegar þú hellir þeim í baðkar synda þeir í hring. Eins er með mig. Þannig að ég geri ekki ráð fyrir miklum breytingum. Við erum þrælar vanans. Ég ætla ekkert að kaupa Cadillac og fara í fín föt. Ég er ákaflega ánægður með einfaldan lífsstíl, eins og þú hefur séð. Nei, ég hef engin plön. Ég myndi vera frjálsari til að fara heim til Íslands. Eftir þrjá daga er ég hins vegar kominn með heimþrá og vil fara hingað. Mínir vinir eru dauðir, eða örkumla eða gamalmenni, allir nema Jón Ólafsson lögfræðingur sem ég tala við næstum alla daga. Ég á ekki lengur heima á Íslandi. Þetta er mitt líf. Hér á ég heima,“ sagði Geir á heimili sínu í Mechanicsburg um helgina.