Sendiherra Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, að loknum fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í utanríkisráðuneytinu.
Sendiherra Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, að loknum fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í utanríkisráðuneytinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda gagnvart Rússlandi munu ekki hafa áhrif á samstarf ríkjanna á fjölþjóðavettvangi, en ríkisstjórnin samþykkti í gær að taka þátt í samstilltum aðgerðum gegn Rússum vegna Salsbury-málsins svonefnda.

Ákveðið var að rússneskir stjórnarerindrekar yrðu ekki sendir úr landi líkt og aðrar þjóðir hafa ákveðið, heldur yrði tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum frestað um óákveðinn tíma.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að aðgerðirnar hafi ekki önnur áhrif á samskipti ríkjanna og að samstarf við Rússa á öðrum sviðum verði óbreytt.

Íslensk stjórnvöld telja að Rússar verði að koma að borðinu við rannsókn Salsbury-málsins, en að mati ríkisstjórnarinnar hafa skýringar þeirra og viðbrögð við árásinni verið ótraustvekjandi og ófullnægjandi.

Sigur May og harðnandi afstaða Trumps

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, sextán aðildarríkjum Evrópusambandsins og öðrum löndum vísuðu í gær tugum rússneskra stjórnarerindreka úr landi vegna málsins. Um er að ræða rúmlega 110 Rússa, þar af 60 í Bandaríkjunum. Hin Norðurlöndin vísa öll einum erindreka úr landi, að undanskilinni Danmörku þar sem tveir erindrekar verða sendir úr landi. Rússar neita því enn að þeir hafi haft aðkomu að árásinni.

Hinar samstilltu aðgerðir eru taldar mikill sigur fyrir Theresu May, forsætisráðherra Breta, og til marks um harðari afstöðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Rússlands.