[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Ísland tapaði öðrum vináttuleik sínum á fjórum dögum er það mætti Perú á Red Bull-vellinum í Harrison í New Jersey í fyrrinótt.

Fótbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Ísland tapaði öðrum vináttuleik sínum á fjórum dögum er það mætti Perú á Red Bull-vellinum í Harrison í New Jersey í fyrrinótt. Eftir ágætan fyrri hálfleik voru Perúmenn mun betri í síðari hálfleik og tryggðu sér verðskuldaðan 3:1-sigur.

Það tók Perú aðeins þrjár mínútur að komast yfir, en þá skallaði Renato Tapia boltann í netið af stuttu færi eftir sofandahátt í vörn íslenska liðsins. Á 22. mínútu jafnaði Jón Guðni Fjóluson með föstum skalla eftir fallega hornspyrnu Birkis Bjarnasonar. Fyrsta landsliðsmark Jóns Guðna.

Eftir það fengu Perúmenn nokkur hálffæri en Frederik Schram stóð sig vel í markinu og bjargaði oftar en einu sinni með góðum úthlaupum. Björn Bergmann Sigurðarson fékk besta færi Íslands fyrir hálfleik, en skallinn hans eftir fyrirgjöf Ara Freys Skúlasonar var yfir markið. Staðan í leikhléi var því 1:1.

Yfirburðir Perúmanna

Sagan var hins vegar önnur í seinni hálfleik og komst íslenska liðið lítið inn í leikinn á móti góðum Perúmönnum. Perú var miklum mun meira með boltann og spilaði honum vel á milli sín. Raúl Ruidíaz nýtti sér það á 58. mínútu er hann skoraði úr þröngu færi eftir skalla Jeffersons Farfáns. Perú hélt yfirburðum sínum áfram og bætti Farfán sjálfur við marki á 75. mínútu og þar við sat.

Í heild var leikurinn slakur af hálfu íslenska landsliðsins, ekki síst síðari hálfleikur þegar leikmenn voru oft eins og áhorfendur fremur en þátttakendur í leiknum gegn liprum Perúmönnum.

Breiddin í hópnum er lítil

Af leikjunum tveimur í Bandaríkjaferðinni að dæma má íslenska landsliðið vart við miklum afföllum hjá sínum sterkustu mönnum þegar röðin kemur að heimsmeistaramótinu í Rússlandi í júní. Næstbestu leikmennirnir sem Heimir Hallgrímsson hefur úr að spila standa þeim bestu ekki á sporði. Varnarleikurinn var brothættur og sóknarleikurinn oft ekki nógu beittur.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari var vonsvikinn eftir viðureignina við Perú, líkt og eftir leikinn við Mexíkó áaðfaranótt laugardagsins. Hann sagði í samtali við fjölmiðla eftir leikinn að síðari hálfleikurinn gegn Perú hefði valdið sér vonbrigðum. Skyldi engan undra. Heimir og Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari hafa um margt að hugsa næstu vikurnar áður en þeir velja HM-hópinn.

Vafalaust hefur ferðin til Bandaríkjanna veitt þeim svör við einhverjum spurningum en einnig vakið athygli þeirra á ýmsu sem betur má fara. Minnt skal hins vegar á, til þess að gæta einhverrar sanngirni, að vináttuleikir íslenska landsliðsins í aðdraganda EM í Frakklandi ýttu svo sem heldur ekki undir mikla bjartsýni. Mestu máli skiptir hverjir skipa liðið og hvernig það leikur þegar á hólminn er komið í nágrenni Kremlarmúra upp úr miðjum júní.