Æfing Ólafía Þórunn Kristinsdóttir púttar á einum af völlunum í Rancho Mirage í gær.
Æfing Ólafía Þórunn Kristinsdóttir púttar á einum af völlunum í Rancho Mirage í gær. — Ljósmynd/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Fyrsta risamót ársins í golfinu hefst í Kaliforníuríki í dag þegar kylfingar verða ræstir út á ANA Inspiration-mótinu.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fyrsta risamót ársins í golfinu hefst í Kaliforníuríki í dag þegar kylfingar verða ræstir út á ANA Inspiration-mótinu. Þar eigum við Íslendingar fulltrúa en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er þar með keppnisrétt vegna síns góða árangurs á LPGA-mótaröðinni 2017 þegar hún varð á meðal 75 efstu á stigalista LPGA. Ólafía varð í fyrra fyrsti Íslendingurinn til að komast á risamót þegar hún lék á KPMG-mótinu í Chicago og bætti tveimur við, Opna breska meistaramótinu og Evian-mótinu í Frakklandi, en í hinu síðarnefnda komst hún í gegnum niðurskurðinn. Þá keppti Valdís Þóra Jónsdóttir á Opna bandaríska meistaramótinu.

Risamótin eru fimm talsins hjá konunum en öllu þekktara er að hafa þau fjögur eins og hjá körlunum í golfinu og báðum kynjum í tennis. Risamótin hafa ákveðna sérstöðu því þar er meira í húfi. Ekki er einungis hærra verðlaunafé í boði heldur gefur góður árangur á risamótunum ýmiss konar keppnisrétt. Fyrir vikið mæta allir bestu kylfingar heims sem eiga þess kost.

Kylfingur sem fagnar sigri á risamóti þarf ekki að hafa áhyggjur af keppnisrétti á bestu mótaröðunum næstu árin á eftir. Fyrir utan hið áþreifanlega eru fleiri atriði sem skipta máli en eru ekki eins áþreifanleg. Þegar bestu kylfingar á hverjum tíma, eða bestu kylfingar sögunnar, eru bornir saman er iðulega notast við frammistöðu þeirra á risamótum.

Er í fyrsta ráshópi

Ólafía kemur ekki til með að sofa út í dag því hún er í fyrsta ráshópi í mótinu. Hún þarf að vera mætt á teig klukkan sjö að staðartíma og fer af stað klukkan 7:10. Hún fer því væntanlega á fætur klukkan fjögur eða fimm um nóttina til að ná eðlilegum undirbúningi fyrir hringinn. Fyrir lesendur sem vilja fylgjast með Ólafíu í beinni textalýsingu á mbl.is í dag þá fer hún af stað klukkan 14:10 að íslenskum tíma.

Tveir kylfingar eru saman í ráshópi í mótinu líkt og stundum tíðkast á risamótum. Með Ólafíu verður hin bandaríska Cindy LaCrosse. Hún er þrítug og hefur best náð 26. sæti í ANA-mótinu. La Crosse var nokkuð framarlega á heimsvísu fyrir nokkrum árum og hefur safnað saman yfir 50 milljónum króna í verðlaunafé á ferlinum.

Þekkir völlinn

Mótinu var komið á fót árið 1972 en hét þá öðru nafni. Árið 1983 öðlaðist það þann sess að verða eitt af risamótunum. Heildarverðlaunafé er tæplega 300 milljónir króna. Mótið fer fram hjá Mission Hills-klúbbnum í Rancho Mirage sem er lítill bær á Palm Springs-svæðinu sem er þekkt í Kaliforníu þegar kemur að ýmiss konar útivist. Svæðið er einnig þekkt fyrir þá staðreynd að þrír Bandaríkjaforsetar kusu að setjast þar að er þeir létu af embætti: Dwight Eisenhower, Gerald Ford og Ronald Reagan.

Á Mission Hills-svæðinu eru þrír golfvellir en keppt verður á Dinah Shore-vellinum. Þar hefur Ólafía keppt áður og á þaðan fínar minningar. Þegar hún komst í gegnum 1. stig úrtökumótanna fyrir LPGA-mótaröðina árið 2016 var leikið á tveimur völlum á Mission Hills og var Dinah Shore annar þeirra. Ólafía lék þá tvo hringi af fjórum á vellinum en hún var á samtals sjö undir pari í því móti og komst áfram. Hófst þá vegferðin inn á LPGA þar sem hún er með keppnisrétt í dag.

Þar sem komið er að mánaðamótum mars/apríl má búast við að heitt sé í veðri í þessum heimshluta. Gera má ráð fyrir því að hitinn verði yfir 30 stig meðan á mótinu stendur, í það minnsta þegar sólin skín. En snemma morguns er vitaskuld svalara eins og þegar Ólafía fer af stað í dag. Þar sem Ólafía hefur spilað golf úti um allan heim er hún orðin ýmsu vön og ætti hitinn ekki að hafa of mikil áhrif á hana.

Fer rólega af stað á árinu

Ólafía hefur ekki leikið sérlega vel á þessu ári á heildina litið en hefur svo sem ekki spilað á nema fjórum mótum á LPGA til þessa. Í síðasta móti í síðustu viku átti hún þó góða spretti og komst í gegnum niðurskurðinn en spilamennskan var nokkuð misjöfn.

Þriðji hringurinn var mjög góður hjá Ólafíu síðasta laugardag en þá var hún á 68 höggum sem var fjögur högg undir pari vallarins. Lokahringinn á sunnudaginn lék hún hins vegar á 78 höggum og fékk aðeins einn fugl. Spurning hvort það hafi áhrif á sjálfstraustið hjá henni í dag.