— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Toys 'R‘ Us afréð að óska eftir slitameðferð vildu margir skrifa endalok fyrirtækisins á óheilindi sjóða sem sérhæfa sig í skuldsettum yfirtökum.

Þegar Toys 'R‘ Us afréð að óska eftir slitameðferð vildu margir skrifa endalok fyrirtækisins á óheilindi sjóða sem sérhæfa sig í skuldsettum yfirtökum. Það ríkir ekki alveg sama tilfinningasemin í kringum vandamál byssuframleiðandans Remington, þar sem framtakssjóðir koma líka við sögu. Vaxandi ólgu gætir í samfélaginu yfir því hvað bandarísk lög setja byssueign litlar skorður. Slík siðferðisleg sjónarmið gætu leitt til þess að fjármálafyrirtækin á Wall Street verði tregari til að útvega þessum umdeilda iðnaði fjármagnið sem hann telur sig þurfa.

Árið 2016, þegar búist var við að Hillary Clinton myndi vinna forsetakosningarnar, rokseldust byssur vegna ótta fólks við að ríkisstjórn hennar myndi skerða aðgengi að skotvopnum. Hillary tapaði hins vegar. Fyrir vikið dróst byssusala skarplega saman árið 2017. Umsóknum um leyfi til að stunda skotvopnakaup og -sölu fækkaði um nærri 10%, rétt eftir að Remington hafði aukið hjá sér framleiðsluna. Árið 2017 drógust tekjur fyrirtækisins saman um þriðjung og rekstrarhagnaður minnkaði um tvo þriðju. Efnahagsreikningurinn tók að svigna undan nærri eins milljarðs dala skuldum.

Remington hefur nú samið um skuldbreytingu sem mun lækka skuldirnar um 775 milljónir dala. Kröfuhafar fjármagna skuldbreytinguna í skiptum fyrir allt hlutaféð í endurskipulögðum rekstri Remington. Fjárfestingarsjóðurinn Cerberus Capital, fyrrverandi eigandi Remington, mun sitja uppi með báðar hendur tómar.

Fyrirtækið leitaði líka tilboða hjá öðrum bönkum og vogunarsjóðum, en hafði ekki erindi sem erfiði. Ráðgjafar Remington á fjármálamarkaði segja að í ljósi nýlegra fjöldamorða og andrúmsloftsins í samfélaginu hafi mátt greina efasemdir um að rétt væri að leggja skotvopnaframleiðanda lið. Bankar sem þegar eru lánardrottnar Remington, eins og JPMorgan, átta sig á því að til að hámarka virði fjárfestingar þeirra verður að ráðast í uppstokkun.

Citigroup tilkynnti í síðustu viku að viðskiptavinum bankans á sviði skotvopnaframleiðslu yrðu settar ákveðnar skorður. Einnig hefur verið þrýst á BlackRock að hlutast til um stefnu byssuframleiðanda sem fyrirtækið á hlut í. Eins öfugsnúið og það er, þá kom kippur í sölu á skotvopnum um leið og það fór að þykja líklegra að settar yrðu strangari reglur um byssueign. Þetta er hægt að staðfesta með tölum sem sýna hve margar sakaskrár hafa verið pantaðar vegna skotvopnakaupa á þessu ári. Fyrst mun reyna á siðferðisstyrk fjármálafyrirtækjanna á Wall Street þegar kemur að því að snúa baki við byssuframleiðendum þegar ljósin fara að slokkna.