Borgarstjórn Kosið er í hverfisráð í borgarstjórn, pólitískri kosningu.
Borgarstjórn Kosið er í hverfisráð í borgarstjórn, pólitískri kosningu. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Hverfisráð Reykjavíkurborgar eru tíu talsins og kosta borgina um 38,7 milljónir króna á ári. Kosið er í ráðin af borgarstjórn, til fjögurra ára í senn.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Hverfisráð Reykjavíkurborgar eru tíu talsins og kosta borgina um 38,7 milljónir króna á ári. Kosið er í ráðin af borgarstjórn, til fjögurra ára í senn. Samkvæmt núverandi skipan á Samfylkingin formenn í fimm hverfisráðum, Björt framtíð á tvo formenn, VG á einnig tvo formenn og Píratar eiga einn.

Björn Gíslason, formaður Fylkis í Árbænum og 8. maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, gerir hverfisráðin að umræðuefni í grein sem hann skrifaði og birtist í nýjustu tölublöðum af Árbæjarblaðinu og Grafarvogsblaðinu. Í grein Björns kemur fram að formenn hverfisráða fái um 105 þúsund krónur á mánuði fyrir einn fund í mánuði og aðrir í hverfisráðum, fjórir stjórnarmenn í hverju, fái helming þeirrar upphæðar. Þannig er árskostnaður Reykjavíkurborgar við rekstur á hverfisráðum um 38,7 milljónir króna.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir m.a. um hverfisráð: „Hlutverk þeirra er að stuðla að hvers konar samstarfi innan hverfis, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið þeirra. Þá geta hverfisráð gert tillögur um samræmingu á þjónustu borgarstofnana í einstökum hverfum.

Hverfisráð eru vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda, og eru virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna. Þannig eru hverfisráð ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og eiga að stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum.“

Notuð sem pólitísk skiptimynt

Björn segir m.a. í grein sinni: „Óánægju hefur gætt í hverfisráðum í ljósi þess hversu litla tengingu þau hafa inn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og eru aðallega umsagnaraðilar um ýmis mál en fá samt litlu ráðið...

Sá háttur hefur verið hafður á að kosið er í hverfisráðin í Ráðhúsinu, í stað þess að íbúar í hverfinu fái sjálfir að kjósa sína fulltrúa í ráðin.“

Og síðar segir Björn: „Hverfisráðin eiga ekki að vera notuð sem pólitísk skiptimynt fyrir gæðinga stjórnmálaflokkanna. Borgarbúar yrðu eflaust hissa ef þeir vissu hverjar launagreiðslur fyrir formennsku og setu í hverfisráðunum eru – sem eru tíu talsins – og hversu oft þau funda í hverjum mánuði. Almennum launamanni þætti það dágóð laun að fá 104.846 kr. fyrir einn fund í mánuði.“

Ekki náðist í S. Björn Blöndal, formann borgarráðs, í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.