Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað á yfirstandandi kjörtímabili í rekstri og fjármálum Hafnarfjarðarbæjar eins og síðustu ársreikningar og fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins bera með sér.
Þetta hefur gerst í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar í sveitarfélaginu sem við Sjálfstæðismenn boðuðum í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga og höfðum lagt mikla áherslu á í bæjarstjórn í áraraðir sem og að skuldir yrðu greiddar hraðar niður en gert var ráð fyrir í áætlunum. Gegndarlaus skuldasöfnun hafði komið bæjarfélaginu á ystu nöf, sem var undir sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og fjármagnskostnaður að sliga reksturinn. Auk þess að leggja áherslu á að niðurgreiða skuldir var ljóst að ýmis tækifæri til að hagræða í rekstrinum voru fyrir hendi en viljann hafði vantað.
Strax í upphafi yfirstandandi kjörtímabils var kosningaloforðið efnt. Fengnir voru utanaðkomandi aðilar til að gera úttekt á rekstri og fjármálum sveitarfélagsins og koma með tillögur til úrbóta. Umbæturnar sem síðan var ráðist í skiluðu fljótt árangri og hægt var að efla þjónustuna við bæjarbúa á ýmsum sviðum. Árangurinn má ekki síst meta í aukinni ánægju íbúa með flesta þá þjónustu sem boðið er upp á og kemur fram í árlegum þjónustukönnunum Gallup sem Hafnarfjörður tekur þátt í. Einnig eru starfsmenn bæjarins ánægðari í vinnunni en áður samkvæmt niðurstöðum kannana á meðal þeirra.
Brýnt að sýna áfram ráðdeild í fjármálunum
Nú er svo komið að rekstrarafkoma bæjarins hefur verið jákvæð síðastliðin tvö ár eftir að hafa verið neikvæð frá árinu 2008 til 2015. Verði haldið áfram á sömu braut við fjármálastjórnunina og undanfarin 3 til 4 ár ætti hagurinn að batna áfram en áætlun sem unnið er eftir gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu árin 2018 til 2021.Samhliða því að bæta rekstrarafkomuna hafa álögur á íbúa sveitarfélagsins verið lækkaðar. Útsvarsprósenta var lækkuð og er nú ekki í heimilaðri hámarksprósentu en það hefur ekki gerst áður í Hafnarfirði a.m.k. frá árinu 1998 að útsvarsprósentan hafi ekki verið í hámarki. Álagning fasteignagjalda hefur ekki verið lægri í sjö ár og tekjutengdur afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignaskatti er nú orðinn mestur hjá Hafnarfjarðarbæ, samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það er brýnt að halda þessari vegferð áfram við stjórnun fjármálanna; að sýna ráðdeild í rekstrinum, fjármagna framkvæmdir fyrir eigið fé og greiða niður skuldir. Þannig getum við haldið áfram að efla þjónustuna og lækka gjöld, hafið ný verkefni og látið bæinn okkar blómstra til framtíðar. Hafnfirðingar eiga ekkert annað skilið en að vel sé farið með fjármuni þeirra og að bærinn verði í allra fremstu röð sveitarfélaga í öllu tilliti.
Höfundur er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.