Silja Dögg Gunnarsdóttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir solrun@mbl.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

solrun@mbl.is

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum, sem miða að því að hægt verði að auka eftirlit með dæmdum barnaníðingum og skylda þá til að gangast undir áhættumat, ásamt því að styrkja stöðu Barnaverndarstofu.

„Þetta gengur í raun út á að tengja saman aðila sem hafa með þessi mál að gera og þar með tryggja eftirlit, ásamt því að flokka þennan hóp brotamanna. Það gengur út á að finna hvaða aðilar það eru sem eru líklegir til að brjóta af sér að nýju. Það eru ekki margir einstaklingar sem falla í þennan hættulegasta hóp en það er mjög mikilvægt að ná utan um hópinn og veita þessum einstaklingum aukið eftirlit,“ segir Silja Dögg í samtali við mbl.is.

Ef frumvarpið nær fram að ganga mun Barnaverndarstofa m.a. geta tilkynnt viðkomandi barnavernd ef dæmdur kynferðisbrotamaður, sem gerst hefur brotlegur gagnvart börnum og veruleg hætta er talin stafa af, flytur í umdæmið. Ef rík barnaverndarsjónarmið mæla með getur barnavernd einnig gert öðrum viðvart að fengnu samþykki Barnaverndarstofu.

Þá verður einnig hægt að gera kröfu um að viðhafðar séu ákveðnar öryggisráðstafanir eftir að einstaklingur sem brýtur kynferðislega gagnvart barni afplánar dóm sinn, ef verulegar líkur eru taldar á því, samkvæmt mati heilbrigðisstarfsmanns, að viðkomandi brjóti aftur gagnvart barni.

Eftirfarandi öryggisráðstafanir verður hægt að kveða á um í dómi: Skyldu til að sinna nauðsynlegri meðferð á vegum heilbrigðisstarfsmanna, skyldu til að mæta í skipulögð viðtöl hjá félagsþjónustu, eftirlit með netnotkun og notkun samskiptamiðla og -forrita, að einstaklingur haldi sig frá neyslu áfengis og vímuefna, eftirlit með heimili og bann við búsetu á heimili þar sem börn eru búsett eða dvelja reglulega.

Ef í ljós kemur að einstaklingur sinnir ekki fyrirmælum um öryggisráðstafanir getur það varðað allt að tveggja ára fangelsi.

Skylt að tilkynna um breyttan dvalarstað

Aðrar breytingar, sem kveðið er á um í frumvarpinu, eru m.a. þær að þegar dómar falla vegna kynferðisbrota gagnvart börnum skal ríkissaksóknari láta Barnaverndarstofu dómana í té. Þá skal Fangelsismálastofnun veita upplýsingar um upphaf og lok afplánunar, sem og skilyrði sem sett eru fyrir reynslulausn, fyrirhugaðan dvalarstað viðkomandi einstaklings, auk gagna frá heilbrigðisstarfsmönnum um einstaklinginn.