Fyrirtæki sem bæði framleiða og dreifa efni til afþreyingar hafa komist í yfirburðastöðu gagnvart neytendum á undanförnum árum. Þetta hefur kallað á sameiningu fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækja um allan heim, meðal annars á Íslandi.

Um þessar mundir standa yfir réttarhöld í Bandaríkjunum vegna samruna stórfyrirtækjanna AT&T og Time Warner. Málið hefur vakið heimsathygli enda kristallast í því spurningar um tækniþróun, völd og áhrif auk hefðbundinna álitaefna um samkeppni og markaðsaðstæður. Fjölmiðlar vestanhafs hafa haft uppi stór orð um dómsmálið og sagt hefur verið að það kunni að ráða úrslitum um framtíð sjónvarpsins.

AT&T er stærsta fjarskiptafyrirtæki í heiminum og rekur sögu sína aftur til sjálfs Alexanders Graham Bell. Fyrirtækið hefur afar sterka stöðu í Bandaríkjunum, m.a. með gervihnattaþjónustunni DirectTV sem dreifir sjónvarpsefni inn á milljónir heimila. Time Warner er sömuleiðis risi á sínu sviði. Fyrirtækið er þriðja stærsta afþreyingarfyrirtæki í heimi og undir það heyra meðal annars HBO, Warner Brothers og Turner. Time Warner framleiðir og sýnir vinsæla sjónvarpsþætti og kvikmyndir og heldur úti stórum sjónvarpsstöðvum á borð við CNN. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið þó mátt þola síharðnandi samkeppni frá stafrænum miðlum á borð við Amazon, Google, Netflix og Facebook.

Í október 2016 tilkynnti AT&T að félagið hygðist kaupa Time Warner á 85 milljarða bandaríkjadala. Um lóðréttan samruna yrði að ræða þar sem fyrirtæki sem dreifir sjónvarpsefni sameinast fyrirtæki sem framleiðir sjónvarpsefni. Stjórn og hluthafar Time Warner samþykktu tilboð AT&T og er yfirtökunni ætlað að ganga í gegn nú í sumar. Kaup AT&T eru þó háð samþykki bandarískra samkeppnisyfirvalda sem hafa formlega hafnað samrunanum. Til þess að stöðva ferlið endanlega þurfa stjórnvöld nú að sanna fyrir dómi að samruninn muni skaða neytendur.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna höfðaði því mál gegn AT&T, DirectTV og Time Warner fyrir alríkisundirrétti í Washington D.C. Stjórnvöld telja að samruninn brjóti í bága við bandarísk samkeppnislög. Í stuttu máli telja stjórnvöld að sameinað fyrirtæki muni hafa of sterka stöðu á sjónvarpsmarkaði og það muni leiða til verðhækkana. Helsta málsástæða stjórnvalda er að AT&T muni selja efnið frá Time Warner á hærra verði til annarra dreifikerfa eða jafnvel útiloka þau frá því að dreifa vinsælu efni frá Time Warner.

Málsvörn AT&T snýst hins vegar um að kaupin á Time Warner séu nauðsynleg til þess að halda í við Netflix, Amazon og Google. AT&T og Time Warner hafna því alfarið að sameining muni leiða til verðhækkana fyrir neytendur heldur segja að þvert á móti muni hún tryggja virka samkeppni við hin nýju fyrirtæki, sem bæði framleiða og dreifa sjónvarpsefni og öðru afþreyingarefni.

Það er margt sem gerir dómsmálið athyglisvert. Til dæmis er óalgengt að lóðréttir samrunar endi fyrir dómstólum í Bandaríkjunum með þessum hætti enda eiga AT&T og Time Warner ekki í beinni samkeppni. Þá hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, talað opinberlega gegn samrunanum en hann er þekktur fyrir andúð sína á Time Warner, sérstaklega CNN. Þessu hafa forsvarsmenn AT&T og Time Warner haldið á lofti og telja þeir að afstöðu yfirvalda megi rekja til óeðlilegra afskipta forsetans. Dómari málsins hefur hins vegar útilokað slíkar ásakanir frá réttarhöldunum og lagt fyrir lögmenn stefndu að halda sig við lögfræðilega röksemdafærslu.

Síðast en ekki síst þá endurspeglar málið breyttar markaðsaðstæður líkt og AT&T og Time Warner benda réttilega á. Fyrirtæki sem bæði framleiða og dreifa efni til afþreyingar hafa komist í yfirburðastöðu gagnvart neytendum á undanförnum árum. Þetta hefur kallað á sameiningu fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækja um allan heim, meðal annars á Íslandi. Ef samruninn fær að ganga í gegn er líklegt að önnur sögufræg afþreyingarfyrirtæki á borð við Disney feti svipaða slóð. Ef samrunanum verður hafnað kann það hins vegar að styrkja stöðu Amazon, Google og Netflix enn frekar. Tíminn mun þó aðeins leiða í ljós hvor niðurstaðan er raunverulega betri fyrir neytendur.