Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Gríðarleg fjölgun ferðamanna síðasta áratuginn veldur því að gistiþjónusta veltir jafnmiklum fjárhæðum í landinu og allur veitingageirinn. Það er gjörbreyting frá því sem áður var.

Á einum áratug hefur hótelgeirinn náð veitingageiranum að stærð en árið 2008 var fyrrnefnda sviðið aðeins hálfdrættingur, mælt í veltu, á við veitingageirann. Þetta sýna nýjar tölur Hagstofu Íslands yfir veltu mismunandi atvinnugreina hérlendis.

Í fyrra nam velta gististaða 94,3 milljörðum króna og jókst um tæp 11% frá fyrra ári. Í fyrra velti veitingasala og þjónusta henni tengd 94,6 milljörðum og óx hún um tæp 8% frá fyrra ári.

Veltutölurnar, sem eru á verðlagi hvers árs fyrir sig, sýna að frá árinu 2008 hefur veltan í hótelgeiranum margfaldast því umrætt ár var veltan 18,8 milljarðar. Athygli vekur að veitingasalan, sem nú er jafnumfangsmikil hótelgeiranum velti árið 2008 einum 37,4 milljörðum króna. Því er ljóst að veltan í gistþjónustunni hefur aukist talsvert meira en hjá veitingageiranum.

Þróun sem ætti í raun ekki að koma á óvart

ViðskiptaMogginn bar umræddar tölur Hagstofunnar m.a. undir Stefán Brodda Guðjónsson, forstöðumann greiningardeildar Arion banka. Hann segir tölurnar ekki koma sérstaklega á óvart.

„Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum eins og allir vita. Þeir nýta gistiþjónustuna hlutfallslega meira miðað við Íslendingana en þegar kemur að veitingaþjónustunni. Þess vegna er ekki óeðlilegt að aukningin sé með þessum hætti.“

Vilborg Helga Júlíusdóttir, hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, tekur í svipaðan streng.

„Það geta verið margar skýringar á því af hverju veltan í rekstri gististaða eykst meira en í veitingarekstri. Þróunin getur hafa verið sú að hótelin séu í meira mæli að reka veitingar í eigin nafni en það er líka algengt að annar rekstraraðili sjái um veitingaþáttinn. Neysla erlendra ferðamanna í matvöruverslunum hefur aukist mikið samhliða vaxandi eftirspurn erlendra ferðamanna eftir heimagistingu svo sem Airbnb – þeir elda sjálfir.“

Stefán Broddi segir það athyglis-vert þegar litið er yfir mikla veltuaukningu, bæði hjá hótelum og veitingastöðum, að nemum í námsgreinum tengdum þessum geirum fjölgar miklu minna en sem nemur þörf í greinunum. „Nú þegar hægir á vextinum þurfum við að leggja áherslu á verðmætasköpunina og að afkoman verði sem mest og best. Til þess þurfum við vel menntað og skapandi fólk sem gerir sér veitingamennsku, þjónustu og framreiðslu að ævistarfi. Þarna virðist a.m.k. vera mikil tækifæri til staðar.“