„Ég vonaðist eftir að við bættum meiru við okkur frá síðustu könnun. Ég hef fulla trú á því að við í Miðflokknum eigum mikið inni. Ég hef líka verið að minna fólk á að margt eigi eftir að breytast fram að kosningum, mikið flakk er á fylginu,“ segir Vigdís Hauksdóttir, sem skipar fyrsta sætið á lista Miðflokksins. Hún minnir á að skoðanakönnun er ekki úrslit kosninga. „Kjördagur og það sem kemur þá upp úr kjörkössunum skiptir mestu máli og það hefur reynst mér vel á mínum pólitíska ferli.“
Vigdís vonast til að það lifni yfir kosningabaráttunni eftir páska. Þá birti flokkarnir stefnumál sín og fólk geti farið að bera þau saman. „Skuldastaða borgarinnar og lagfæringar á rekstrinum eru aðalmál okkar,“ segir Vigdís. helgi@mbl.is