Berlín. AFP. | Frakkinn Thomas Cazeneuve fagnaði ákaft með varnargóminn í munninum og ógleði í maganum eftir að hafa mátað andstæðing sinn í óvenjulegri íþrótt, skákhnefaleikum.
Cazeneuve fór með sigur af hólmi í einvígi gegn Úkraínumanni í Berlín, höfuðborg skákhnefaleikanna. Íþróttin varð til fyrir sextán árum þegar Iepe Rubingh, 43 ára Hollendingur, ákvað að fylgja eftir hugmynd sem hann fékk að láni úr myndasögunni Froid Équateur eftir franska listamanninn og rithöfundinn Enki Bilal. Rubingh stefnir nú að því að skákhnefaleikar verði viðurkenndir sem ólympíuíþrótt.
Reglurnar í skákhnefaleikum eru einfaldar. Einvígið hefst með þriggja mínútna lotu í skák á taflborði í hnefaleikahringnum. Henni fylgir þriggja mínútna hnefaleikalota og þannig koll af kolli. Loturnar í einvíginu eru alls ellefu – sex í skák og fimm í hnefaleikum. Til að sigra þarf annaðhvort að rota eða máta andstæðinginn. Keppendur eru þó dæmdir úr leik ef þeir brjóta hnefaleikareglurnar eða falla á tíma í skákinni. Rubingh segir að taflmennskan ráði úrslitum í 60% einvígjanna en hnefarnir í 40%.
Iðkuð í ellefu löndum
Skákhnefaleikar voru álitnir forvitnilegt uppátæki í fyrstu frekar en raunveruleg íþrótt en skákhnefaleikamönnunum hefur fjölgað á síðustu árum. Margir þeirra höfðu teflt í mörg ár þegar þeir ákváðu að bæta hnefaleikunum við. Þeirra á meðal er Alina Rath, 29 ára þýsk kona, sem hafði verið í skákfélagi í 20 ár þegar hún byrjaði að æfa hnefaleika í ágúst síðastliðnum. Hún hafði þá æft blandaðar bardagaíþróttir í fimm ár. „Skákhnefaleikar kveða niður klisjuna um hörkutólið sem kunni bara að berja á fábjánum,“ segir hún. Hún segist vera meiri „Kasparov en Tyson“.Alþjóðaskákhnefaleikasambandið var stofnað í Berlín árið 2004. Um 3.500 manns eru nú fullgildir félagar í skákhnefaleikasamböndum sem hafa verið stofnuð í ellefu löndum, meðal annars Bretlandi, Íran og Rússlandi.
Sýningareinvígi hafa verið skipulögð reglulega. „Markmið okkar í ár er að stofna atvinnumannadeild í íþróttinni með stuðningi fjárfesta og bakhjarla,“ segir Rubingh. Hann kveðst beita sér fyrir því að keppt verði í skákhnefaleikum á Ólympíuleikunum í Frakklandi árið 2024. Hann stefnir einnig að því að skipuleggja hörkuspennandi einvígi árlega milli manna og róbóta í samvinnu við vélmennaframleiðendur þegar fram líða stundir.