Vertíð Á kolmunnaveiðum á Víkingi AK 100 í færeyskri lögsögu í fyrravor.
Vertíð Á kolmunnaveiðum á Víkingi AK 100 í færeyskri lögsögu í fyrravor. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Búið er að veiða um 28.600 tonn af kolmunna í ár samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu og er þá eftir að veiða 286 þúsund tonn af aflaheimildum ársins, að meðtöldum sérstökum úthlutunum og flutningi á milli ára.

Búið er að veiða um 28.600 tonn af kolmunna í ár samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu og er þá eftir að veiða 286 þúsund tonn af aflaheimildum ársins, að meðtöldum sérstökum úthlutunum og flutningi á milli ára.

Að lokinni loðnuvertíð fóru uppsjávarskipin til veiða á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi og aflaðist ágætlega þar fram eftir mánuðinum. Undir 20. mars var kolmunninn hins vegar genginn inn í skoska lögsögu og skipin héldu heim á leið. Mörg þeirra náðu 1-2 túrum áður en kolmunninn hvarf. Aflahæst er Guðrún Þorkelsdóttir frá Eskifirði með tæplega 5.700 tonn, en skipið var ekki á loðnuveiðum í vetur.

Takmarkanir á kolmunnaveiðum við Færeyjar

Í reglugerð um kolmunnaveiðar sem gefin var út í byrjun febrúar er kveðið á um að a.m.k. 25% af kolmunnaveiði íslenskra skipa skuli fara fram í íslenskri lögsögu eða á alþjóðahafsvæði, en Ísland og Færeyjar hafa með sér samning um gagnkvæman aðgang að lögsögum til kolmunnaveiða.

Reikna má með að íslensku skipin haldi á Færeyjamið í vikunni eftir páska, en þar hefur kolmunni byrjað að veiðast nokkuð reglulega um 10. apríl. Veiðar íslenskra skipa eru takmarkaðar við 15 skip á sama tíma.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráðlagði síðastliðið haust að hámarksafli á kolmunna á þessu ári skyldi ekki vera umfram 1.387.872 tonn og var það viðmið samþykkt af öllum hlutaðeigandi strandríkjum. Reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins kveður á um að hlutur Íslands verði 293 þúsund tonn, sem nemur 21,1% af ráðlögðum heildarafla. Samkvæmt eldri kolmunnasamningi, sem ekki er lengur virkur, hafði Ísland 16,23% hlutdeild í heildaraflamarki. Aukningin í 21,1% endurspeglar vegið meðaltal á þeirri aukningu sem önnur strand- og veiðiríki hafa tekið sér í ár, sagði í frétt ráðuneytisins 1. febrúar sl. aij@mbl.is