Ég vissi ekki hvernig ég átti að byrja Vísnahornið á skírdegi, sem „kenndur er við stofnun heilagrar kvöldmáltíðar“ eins og segir í „Íslenskri orðabók“. Ég kaus að fletta upp í Skáldu Jóhannesar úr Kötlum. 29.

Ég vissi ekki hvernig ég átti að byrja Vísnahornið á skírdegi, sem „kenndur er við stofnun heilagrar kvöldmáltíðar“ eins og segir í „Íslenskri orðabók“. Ég kaus að fletta upp í Skáldu Jóhannesar úr Kötlum. 29. apríl 1866 fæddist Emil Petersen og við hann stendur þetta vel kveðna erindi eftir hann:

Hátt í lofti leika

loðin þokuflögð,

flaksa, riðlast, reika

römm við stormabrögð,

ólmast, elta, flýja

- en þótt leikur gráni

skýst á milli skýja

skjannafölur máni.

Þessu erindi læt ég fylgja eina af spakmælavísum Jóns á Arnarvatni þótt skyldleiki sé enginn, hvorki að efni né formi:

Orðin eru fyrst á ferð

fram til allra gerða,

en séð hef eg ástaraugnagerð

orðunum fyrri verða.

Ég hef alltaf haft gaman af þessari limru Kristjáns Karlssonar:

Sól skín um borð og bekki

bjartari en ég þekki.

Annars er myrkur

manninum styrkur

meðan hann lagast ekki.

Kristján og Jóhann S. Hannesson skiptust á limrum fyrir vestan svo að ég tek hér eina eftir Jóhann sem ég varð að lesa tvisvar og með sérstökum áherslum og þögnum til að njóta hennar:

Það er rétt gott að segja alltaf satt,

en satt best, þá finnst mér það pjatt

ef satt, rétt og gott

eru úr sitt hverjum pott

að setja þau undir einn hatt.

Munnmælin lýsa skilnaði Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu svo, að honum hafi farist illa við hana og drengskaparlaust. Rósa sendi Natan mikið ljóðabréf og er sagt að Natan hafi kveðið eftir að hafa lesið það:

Allt er þetta amorslega kveðið.

Það hefur ruglað seljan seims,

sárkvalin af girndum heims.

Af einhverjum ástæðum kom Æri-Tobbi upp í hugann:

Hér getur enginn komist í kör fyrir kæsisdöllum.

Þambara vambara þeysingssköllum,

Þórarinn bóndi á Hvítárvöllum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is