Nýtt nám Kennslan í sjávarbyggðafræðum fer fram á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði í samstarfi við HA.
Nýtt nám Kennslan í sjávarbyggðafræðum fer fram á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði í samstarfi við HA. — Morgunblaðið/Kristinn
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Sjávarbyggðafræði heitir ný námsleið á meistarastigi, sem verður í boði fyrir nemendur á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði frá og með næsta hausti.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Sjávarbyggðafræði heitir ný námsleið á meistarastigi, sem verður í boði fyrir nemendur á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði frá og með næsta hausti. Hugmyndin er að handhafar meistaragráðu í sjávarbyggðafræðum hafi fram að færa þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við leiðandi hlutverk í svæðismiðaðri félags- og hagfræðiþróun á heimsvísu, með sérstakri áherslu á sjávarbyggðir við Norður-Atlantshaf.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra greindi frá þessu í grein í Morgunblaðinu í gær. Hún segir að fjármögnun hafi verið tryggð og gert sé ráð fyrir að 20 nemendur innritist í námið árlega.

Auglýst eftir fagstjóra

Á vef Háskólaseturs Vestfjarða kemur fram að staða fagstjóra þessarar nýju námsbrautar verði auglýst til umsóknar og er gert ráð fyrir að hann taki til starfa um mitt þetta ár 2018. Fagstjórinn hefur umsjón með meistaranáminu og leggur m.a. til ráðningu nýrra kennara, leiðbeinenda og prófdómara.

Sjávarbyggðafræði er skilgreind sem alþjóðlegt þverfaglegt nám. Reiknað er með að námsbakgrunnur nemenda verði fjölbreyttur, allt frá landfræði, hagfræði og félagsvísindum til opinberrar stjórnsýslu og fjölmiðlafræði. Meistaranámið er einnig alþjóðlegt að því leyti að nemendur koma víðsvegar að úr heiminum. Kennslan fer fram á ensku. Áhersla verður lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar.

Námsbrautin er samstarfsverkefni háskólasetursins og Háskólans á Akureyri. Þaðan útskrifast nemendur með MA-gráðu (Master of Arts).

Lilja Alfreðsdóttir segir í grein sinni að Háskólasetur Vestfjarða hafi sannað gildi sitt fyrir samfélögin á norðanverðum Vestfjörðum og hafi nemendur og kennarar auðgað samfélagið með þekkingu sinni, nærveru og rannsóknum. Yfir 100 nemendur hafa útskrifast með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun frá árinu 2008. Það sé mjög gleðilegt að hafa tryggt þennan áfanga og þar með fest Háskólasetur Vestfjarða enn betur í sessi sem öfluga menntastofnun.

Sjávarbyggðafræði
» Námið hefst í haust og kennt verður á Ísafirði.
» Er á meistarastigi.
» Nemendur útskrifast frá Háskólanum á Akureyri.
» Þverfaglegt alþjóðlegt nám, kennt á ensku.