Ferming Fjölskylda Önnu Maríu Hedman í fermingarveislu dótturinnar.
Ferming Fjölskylda Önnu Maríu Hedman í fermingarveislu dótturinnar.
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Ættingjar mínir voru alveg orðlausir þegar þeir komu í fermingarveislu dóttur minnar,“ segir Anna María Hedman, sænsk kona sem búsett hefur verið á Íslandi undanfarin 18 ár, um muninn á íslenskum og sænskum fermingarveislum. Hún segir að líkja megi íslenskum fermingarveislum við lítil brúðkaup í Svíþjóð. „Munurinn á veislunum hér á Íslandi og svo í Svíþjóð er svakalega mikill. Það var t.d. áhugavert að sjá, að þegar ég bauð ættingjum mínum frá Svíþjóð í veisluna fannst þeim það litlu skipta hvort þeir mættu eða ekki. Sumir létu okkur ekki einu sinni vita að þeir myndu ekki mæta,“ segir Anna María sem fannst kostulegt að sjá svipinn á andlitum ættingja sinna þegar þeir gerðu sér grein fyrir stærð veislunnar.

„Við undirbúning veislunnar sagði ég við mömmu að ég hefði örlitlar áhyggjur af því að ekki yrði nægur matur á boðstólum. Mamma trúði varla sínum eigin augum þegar hún kom í veisluna og sá veitingarnar, enda margfalt meira en Svíar myndu nokkurn tímann bjóða upp á,“ segir Anna María.

Þrátt fyrir lágstemmdari veislur segir Anna María að meira sé lagt upp úr undirbúningi fermingarinnar í Svíþjóð. Þar séu fermingarbörn oft send í sex til átta vikna sumarbúðir þar sem þau fá fræðslu.

Íslenskar fermingar hátíðlegri

„Menningin er allt önnur í Svíþjóð. Þar fara börnin yfirleitt í sumarbúðir að eigin vali, en þau geta valið um ýmiskonar námskeið eftir áhugasviði. Með í för er síðan prestur sem fræðir börnin meðan á dvölinni stendur,“ segir Anna Björk og bætir við að gaman sé að rifja upp eigin fermingu og bera saman við dóttur hennar.

„Fermingin mín var miklu minni í sniðum. Athöfnin er alltaf mjög svipuð og hefur lítið breyst, en að henni lokinni var haldið heim á leið. Þar var engin veisla heldur borðaði ég góðan mat ásamt mínum allra nánustu. Það var allt og sumt,“ segir Anna María sem telur íslensku siðina talsvert hátíðlegri. „Íslendingar gera svo miklu meira úr þessu. Það gerir þetta miklu hátíðlegra og um leið eru krakkarnir spenntari fyrir því að fermast. Þetta hefur auðvitað sína kosti og galla en á heildina litið finnst mér þetta mjög jákvætt,“ segir Anna María.