Hún er komin Vorboðinn ljúfi kom til landsins í gær og sást sá fyrsti í Flóanum. Lóan er vaðfugl og útbreiddur varpfugl um landið, einnig á hálendinu.
Hún er komin Vorboðinn ljúfi kom til landsins í gær og sást sá fyrsti í Flóanum. Lóan er vaðfugl og útbreiddur varpfugl um landið, einnig á hálendinu. — Ljósmynd/Alex Máni Guðríðarson
Fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í gær, væntanlega til að kveða burt snjóinn, og þar með er vorið komið í augum margra. Aðeins tvisvar hafa lóurnar komið seinna en núna, það var árin 1999 og 2001 en meðalkomudagur þeirra á tímabilinu 1998-2017 er 23....

Fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í gær, væntanlega til að kveða burt snjóinn, og þar með er vorið komið í augum margra.

Aðeins tvisvar hafa lóurnar komið seinna en núna, það var árin 1999 og 2001 en meðalkomudagur þeirra á tímabilinu 1998-2017 er 23. mars.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir að ástæða þessarar seinkomu lóunnar í ár geti verið að undanfarið hafi áttirnar ekki verið fuglinum hagstæðar. „Norðaustanáttin, sem verið hefur að undanförnu, blæs á móti lóunni á leið hennar frá vetrarheimkynnum. Það er ekkert vit fyrir hana að leggja af stað í mótvindi, fuglar bíða hann gjarnan af sér,“ segir Jóhann Óli.

Vetarheimkynni lóunnar eru í Vestur-Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni. Spurður hversu lengi fuglinn sé á leiðinni þaðan og hingað heim segir Jóhann Óli það ekki vitað með vissu. „Lóan er of lítil til að hægt sé að festa á hana staðsetningartæki og sendi eins og stærri fugla, en sé miðað við hversu langan tíma það tekur t.d. álftir að fljúga frá þessum slóðum má giska á að lóan sé 10-16 klukkutíma á leiðinni,“ segir Jóhann Óli.