Kjaramál Verðandi hjúkrunarfræðingar krefjast hærri grunnlauna.
Kjaramál Verðandi hjúkrunarfræðingar krefjast hærri grunnlauna. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landspítali getur ekki samið um laun hjúkrunarfræðinga og annarra stétta en hefur svigrúm til að ráðstafa fjármunum í verkefni sem snúa að starfsmönnum sem starfa í framlínu spítalans og vinna vaktavinnu.

Landspítali getur ekki samið um laun hjúkrunarfræðinga og annarra stétta en hefur svigrúm til að ráðstafa fjármunum í verkefni sem snúa að starfsmönnum sem starfa í framlínu spítalans og vinna vaktavinnu. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins en hjúkrunarfræðinemar á lokaári hafa tilkynnt að þeir hyggist ekki sækja um á spítalanum verði grunnlaun þeirra ekki hækkuð upp í 450 þúsund krónur. Grunnlaun hjúkrunarfræðinga eru frá 1. júní á þessu ári 395.991 kr. samkvæmt gerðardómi sem er nú í gildi.

Hjúkrunarfræðinemar áttu fund með Páli og stjórnendum Landspítala á þriðjudag þar sem kom fram að Landspítali hefði ekki umboð til að breyta grunnlaunum vegna gildandi gerðardóms. Páll segir hins vegar að spítalinn hafi ráðist í verkefni sem snúa að hærri grunnröðun í launatöflu tengt breyttum vinnutíma og vinnuskipulagi, sérstökum álagsauka fyrir utan dagvinnutíma og sérstakri umbun fyrir helgarvinnu á sumrin.

„Hjúkrunarfræðingur sem hagar sinni vinnu þannig að hann taki þátt í öllum þessum verkefnum fær hærri laun en markmið nemanna kveður á um og auk þess er greitt kjarasamningsbundið vaktaálag fyrir vinnu utan dagvinnutíma,“ segir Páll.

Hann segir skort á hjúkrunarfræðingum þegar mjög alvarlegan á Landspítala og mikilvægi þess að hjúkrunarfræðinemarnir komi til starfa á spítalanum að lokinni útskrift sé því óumdeilt. „Að þessi hópur starfi ekki á Landspítala mun auka vandann enn frekar,“ segir Páll en í dag starfa tæplega þúsund hjúkrunarfræðingar í vaktavinnu á Landspítalanum og skrifuðu 96 undir yfirlýsingu nemenda til stjórnendanna. ash@mbl.is