Japönsk áhrif Willem-Alexander Hollandskonugur og sendiherra Japans í Hollandi voru heiðursgestir við opnun sýningarinnar Van Gogh & Japan í Van Gogh-safninu í Amsterdam. Japönsk áhrif sjást í fjölda verka.
Japönsk áhrif Willem-Alexander Hollandskonugur og sendiherra Japans í Hollandi voru heiðursgestir við opnun sýningarinnar Van Gogh & Japan í Van Gogh-safninu í Amsterdam. Japönsk áhrif sjást í fjölda verka. — AFP
Á viðamikilli sýningu sem opnuð hefur verið í Van Gogh-safninu í Amsterdam er sjónum beint að því hvað japanskar tréristur höfðu mikil áhrif á listsköpun Vincents Van Gogh (1853-1890).

Á viðamikilli sýningu sem opnuð hefur verið í Van Gogh-safninu í Amsterdam er sjónum beint að því hvað japanskar tréristur höfðu mikil áhrif á listsköpun Vincents Van Gogh (1853-1890). Eins og fræðimenn benda á þá kom listamaðurinn aldrei til Japan en hafði landið sífellt fyrir augum síðustu árin sem hann lifði, er hann skapaði sín þekktustu málverk í formi japanskra grafíkverka.

Litríkar japanskar tréristur á handgerðan pappír, svokölluð „Ukiyo-e“ prent, nutu mikilla vinsælda í Evrópu á seinni hluta 19. aldar og höfðu áhrif á marga listamenn, til að mynda marga þá þekktustu í hópi impressjónistanna.

Van Gogh sá slík prent í fyrsta skipti árið 1885 og hreifst af; í bréfi lýsti hann þeim sem stórkostlegum og undarlegum í senn.

Elstu verkin á sýningunni í Amsterdam eru frá árinu 1886. Þá flutti hann til Theos bróður síns í París og komst að því að þýskur listmunasali átti fullt háaloft af japönskum tréristum. Van Gogh keypti af honum 660 ólík prent fyrir slikk. Fljótlega hélt hann á þeim sýningu og vildi hagnast á sölunni en fáir keyptu og þá hélt hann staflanum hjá sér; hann festi sumar á veggina þar sem hann bjó og leitaði óspart í myndirnar, að hugmyndum og áhrifum. Um 500 prentanna gengu til fjölskyldu listamannsins er hann lést af völdum voðaskots árið 1890 og eru þau nú varðveitt í Van Gogh-safninu.

Á sýningunni í Amsterdam kemur glögglega í ljós hvernig áhrif frá japönsku grafíkverkunum seytluðu smám saman inn í málverk Van Gogh, form, skreyti og litir. „Það er erfitt að ímynda sér hvernig list hans hefði þróast án þessarar áhrifa,“ segir einn sýningarstjóranna í samtali við The New York Times og bætir við að japanski myndheimurinn hafi hjálpað listamanninum við að finna þann einstaka stíl sinn sem fólk nú dáir.

Sýningin er afar umfangsmikil og á henni eru tugir málverka þar sem vel má sjá Japansáhrifin. Þá eru sýndar um 50 grafíkmyndanna sem Van Gogh nýtti sér við sköpunina.