Þjálfarinn Heimir Hallgrímsson stýrir fjórtánda besta liði Evrópu.
Þjálfarinn Heimir Hallgrímsson stýrir fjórtánda besta liði Evrópu. — AFP
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Karlalandslið Íslands í knattspyrnu féll niður um fjögur sæti á heimslista FIFA fyrir aprílmánuð sem birtur var í gærmorgun.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu féll niður um fjögur sæti á heimslista FIFA fyrir aprílmánuð sem birtur var í gærmorgun. Ósigrarnir gegn Mexíkó og Perú í vináttulandsleikjunum í Bandaríkjunum í lok mars þýddu að liðið seig úr 18. sætinu, sinni bestu stöðu frá upphafi, og niður í 22. sætið.

Um leið seig Ísland niður í 14. sætið innan Evrópu, niður fyrir Holland og Wales, en var áður í 12. sæti álfunnar.

Íslenska landsliðið var alls ekki það eina sem fékk slæm úrslit vináttulandsleikja í bakið. Ítalir hrundu niður um sex sæti og eru nú í 20. sæti heimslistans. Þeir hafa ekki unnið neinn af fjórum síðustu landsleikjum sínum og aðeins náð að skora eitt mark. Þetta er versta staða ítalska landsliðsins frá upphafi en það hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari, síðast árið 2006.

Pólverjar duttu niður um fjögur sæti, úr sjötta í tíunda, og sama er að segja um Svía sem fylgdu Íslendingum eins og skugginn og duttu úr 19. sæti niður í 23. sæti.

Hástökkvararnir á efri hluta listans eru hinsvegar Túnisbúar sem eru nú komnir í 14. sæti, efstir Afríkuþjóða, en þeir voru í 23. sæti í mars. Túnis er fjórtán sætum fyrir ofan næstu Afríkuþjóð sem er Senegal.

Þýskaland og Brasilía eru áfram í tveimur efstu sætunum. Belgar klifra úr fimmta í þriðja sæti en Portúgalar og Argentínumenn síga niður í fjórða og fimmta sæti.

Sviss, Frakkland, Spánn og Síle koma í næstu sætum á eftir, síðan Pólland, Perú, Danmörk, England, Túnis, Mexíkó, Kólumbía, Úrúgvæ, Króatía, Holland, Ítalía, Wales og Ísland. Lið Króata er þriðji mótherji Íslands á HM í Rússlandi í sumar.

Nígería og Noregur klifra

Nígeríumenn, aðrir mótherjar Íslendinga á HM í sumar, fara upp um fimm sæti og eru nú í 47. sæti listans. Þeir eru í sjötta sæti af Afríkuþjóðum á listanum.

Norðmenn, undir stjórn Lars Lagerbäck, sem eru næstu andstæðingar Íslands 2. júní, fara upp um heil átta sæti og eru nú í 49. sætinu, sinni bestu stöðu í langan tíma.

Ganabúar, sem koma á Laugardalsvöll 7. júní, tveimur dögum áður en Ísland fer á HM, fara upp um tvö sæti og eru í 51. sætinu á listanum.

Finnar klifra upp um fimm sæti og eru í 63. sæti og Færeyingar fara líka upp á við, um þrjú sæti, og eru í 94. sæti en alls eru 211 þjóðir á heimslista FIFA í karlaflokki.

Mæta þremur af þeim bestu

Íslenska landsliðið mun á þessu ári spila fimm leiki gegn þremur þjóðum sem nú eru í efstu sex sætunum á listanum.

Ísland mætir Argentínu í fyrsta leiknum á HM 16. júní og er síðan í riðli með Belgíu og Sviss í Þjóðadeild UEFA, en riðlakeppni hennar er leikin í haust. Ísland mætir þá báðum liðunum tvisvar, Sviss á útivelli og Belgíu heima í september, Sviss heima í október og Belgíu á útivelli í nóvember.