Heilsuspillandi Mikil skoteldaþoka lagðist yfir öll hverfi borgarinnar.
Heilsuspillandi Mikil skoteldaþoka lagðist yfir öll hverfi borgarinnar. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni og er mengun sem þessi ekki ásættanleg.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni og er mengun sem þessi ekki ásættanleg. Það á ekki að vera svo að þeir sem eru viðkvæmastir fyrir þurfi að halda sig innandyra þegar mengunartoppar eins og þessir myndast,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra við Morgunblaðið og vísar til þeirrar miklu loftmengunar sem myndaðist á höfuðborgarsvæðinu um síðastliðin áramót.

Niðurstöður rannsókna sýna m.a. að svifryk mældist afar hátt um áramótin og var stór hluti þess mjög fínn, það var málmríkt, kolefnisríkt, brennisteinsríkt og klórríkt. Slík mengun er sögð afar varasöm fólki.

Guðmundur Ingi segir brýnt að skoða málið nánar og verður það verkefni nýs aðgerðahóps í loftgæðamálum. „Búið er að óska eftir tilnefningum í aðgerðahópinn sem á að fylgja eftir gildandi loftgæðaáætlun. Ég mun beina því til hópsins að leggja áherslu á að fylgja eftir aðgerðum er varða svifryk og svifryksmengun til samræmis við hana, enda aðkallandi,“ segir hann og heldur áfram: „Að mínu mati þurfum við að skoða það sérstaklega hvort við eigum líka að taka mið af mengunartoppum eins og meðaltölum yfir tiltekinn tíma þegar við setjum viðmið varðandi loftgæði.“

Ekki gert á kostnað loftgæða

Spurður hvort taka þurfi til aðgerða sem miða að því að draga úr áhrifum skotelda á loftgæði kveður Guðmundur Ingi já við.

„Við verðum vitanlega að bregðast við. Það er ljóst að stór hluti tekna björgunarsveita kemur frá sölu skotelda. Einn angi viðbragðsins verður að taka mið af því að björgunarsveitirnar geti áfram fjármagnað sína mikilvægu og ósérhlífnu vinnu án þess þó að það verði á kostnað loftgæða,“ segir hann.

Jón Svanberg Hjartarson er framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann segir niðurstöður rannsókna á svifryki vegna skotelda um síðastliðin áramót hafa verið sendar framleiðendum skotelda í Kína. „Um leið og við sáum þessa skýrslu sendum við upplýsingar úr henni til framleiðenda okkar. Við munum hitta þá úti í Kína um miðjan apríl næstkomandi og þá verða þessi mál eflaust til umræðu,“ segir Jón Svanberg. „Hvort við fáum á þeim fundi einhverjar hugmyndir eða leiðbeiningar um hvernig hægt sé að minnka mengun veit ég ekki.“

Þá segir hann björgunarsveitir vera „stöðugt á tánum“ þegar kemur að nýjum fjármögnunarleiðum. „Ég sé þó ekkert í hendi sem gæti leyst flugeldasölu af hólmi. Þetta eru það miklir hagsmunir. Í dag yrði það ekki leyst öðruvísi en með aukinni aðkomu ríkisins í formi fjármagns.“