Gunnar Reynir Kristinsson fæddist á Hjalla við Dalvík 9. maí 1928. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 3. apríl 2018. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Kristinn Gunnlaugsson, f. 1885, d. 1940, og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, f. 1892, d. 1967. Alsystkini Gunnars eru Friðjón Kristinsson, f. 1925, d. 2001, og Elín Sóley Kristinsdóttir, f. 1931, d. 2013. Hálfsystkini samfeðra eru Gunnlaugur Tryggvi Kristinsson, f. 1916, d. 1975, Þorleifur Kristján Kristinsson, f. 1919, d. 1939, og Rósa Guðný Kristinsdóttir, f. 1920, d. 1986.

Eiginkona Gunnars er Ingibjörg Arngrímsdóttir, f. 1921, d. 2017. Foreldrar hennar voru Arngrímur Jóhannesson, f. 1886, d. 1982, og Jórunn Antonsdóttir, f. 1890, d. 1960. Börn Gunnars og Ingibjargar eru 1) Gígja, f. 1953, eiginmaður Ólafur Halldórsson, f. 1954, dóttir þeirra Þóra Sif, f. 1977, eiginmaður Lárus Arnór Guðmundsson, f. 1976, börn þeirra Freyja, f. 2005, og Arnór Bjarki, f. 2008. 2) Úlfar, f. 1956, barnsmóðir Guðrún Jóhannsdóttir, f. 1960, dóttir þeirra Guðrún Íris, f. 1981, eiginmaður Sigurður Sveinsson, f. 1979, þeirra börn Kristrún Edda, f. 2008, og Aron Breki, f. 2010. Eiginkona Vilborg Jóhannsdóttir, f. 1959, þeirra börn Sóley, f. 1993, og Gunnar, f. 1996.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 13. apríl 2018, klukkan 13.30.

Elsku besti afi hefur kvatt þennan heim og sameinast ömmu og Þóru frænku á betri stað. Mikið á ég þeim að þakka. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að eyða æskusumrum mínum hjá þeim í góðu atlæti á Dalvík. Þar var öllum stundum eytt í leik, lestur og að hjálpa til við að dytta að garðinum. Það eru ótal ævintýralegar minningar sem ylja. Afi tók alltaf virkan þátt í lífi okkar barnabarnanna. Það var alltaf skemmtilegast þegar afi var með í eltingarleik og oftar en ekki var spurt eftir bæði mér og afa til að koma út að leika. Þá fengum við afastelpurnar alltaf að gera hárgreiðslur í afa þegar amma og Þóra frænka lögðu hárið. Þolinmóðari maður var vandfundinn. Þegar ég minnist afa minnist ég ljúfmennsku, manns með stórt hjarta og óþrjótandi áhuga á öllu því sem við yngri kynslóðin tókum okkur fyrir hendur. Þú gerðir heiminn svo sannarlega að betri stað. Það er erfitt að kveðja en minning þín lifir í hjörtum okkar að eilífu. Takk fyrir allt, elsku afi.

Þóra Sif Ólafsdóttir.

Elsku afi, mikið sem ég á eftir að sakna þín. Ég er svo þakklát að eiga margar og góðar minningar um samveru okkar. Allar bílferðirnar milli Akureyrar og Dalvíkur þar sem alltaf var leikinn sami leikurinn, 5 kr. fyrir þann sem var fyrstur að sjá Dalvík. Alla leiðina talaði ég og sagði brandara til að fá þig til að gleyma keppninni. Ég vann alltaf og bílferðin varð stutt. Þegar ég var á Dalvík hjá ykkur ömmu og Þóru frænku beið ég alltaf spennt eftir því að sjá þig koma fyrir hornið á hjólinu úr vinnunni, vitandi að þú myndir vilja spila eða leika við mig. Ég man þú sagðir aldrei nei eða sagðist vera þreyttur. Þú gafst þér alltaf tíma fyrir mig og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Í seinni tíð hringdir þú alltaf á sunnudögum um kaffileytið ef ég hafði ekki hringt í þig í vikunni. Mikið þótti mér vænt um það að þú vildir fylgjast með, hvetja mig áfram og leiðbeina. Mikilvægast fannst þér að ég lærði að fara vel með peninga. Endalaus ást og þolinmæði lýsir því best hvernig ég mun alltaf muna þig og ömmu.

Fagur fiskur í sjó,

brettist upp á halanum

með rauða kúlu á maganum.

Vanda, banda,

gættu þinna handa.

Vingur, slingur,

vara þína fingur.

Fetta, bretta,

svo skal högg á hendi detta.

(Höfundur ók.)

Þetta kvæði mun alltaf minna mig á þig.

Takk, elsku afi, fyrir alla þá ást, væntumþykju, góðmennsku og gleði sem þú sýndir mér ávallt. Ég sakna þín og ömmu sárt en er þakklát fyrir alla samveru okkar og allt það sem þið kennduð mér.

Guðrún Íris.

Hér á að draga nökkvann í naust

nú er ég kominn af hafi.

(Einar Benediktsson)

Það eru mörg ár síðan ég kynntist Gunnari Kristinssyni stýrimanni frá Dalvík, en það var fyrir 64 árum. Þannig var að ég var að vinna við Skipasmíðastöðina Dröfn í Hafnarfirði, en þar var verið að smíða 58 tonna fiskiskip. Þar var mikið að gera, þar stóðu tveir nýir bátar tilbúnir að verða settir á flot. Fyrri báturinn sem fór á flot hlaut nafnið Víðir II og heimahöfn hans var í Garði á Suðurnesjum. Hinn báturinn hét Reykjanes og var gerður út frá Hafnarfirði. Á þessum tíma kom útgerðarmaður frá Dalvík, Aðalsteinn Loftsson, og bað um að láta smíða 58 tonna fiskibát. Þegar var hafin smíði á bátnum og þegar henni var að ljúka mættu tveir menn til viðbótar frá Dalvík sem ráðnir voru á bátinn, Kristján skipstjóri og Gunnar Kristinsson, stýrimaður. Við náðum vel saman, Gunnar og ég, og unnum við að byggja undir skipið og gekk það vel. Skipstjórinn sá um fyrirkomulag á dekki og annað sem við kom. Svo kom að því að sjósetja skipið, nafnið var málað á og þar með var Baldvin Þorvaldsson kominn á flot. Allt þetta fór fram á laugardegi og um kvöldið skyldi sigla til Dalvíkur. Þetta skip reyndist happafley og skilaði af sér góðri afkomu. Gunnar var allan tímann stýrimaður hjá þessari útgerð meðan hún starfaði. Hann var margar vertíðir fyrir sunnan og stundum þegar vel stóð á kom hann í heimsókn til okkar hjóna, og þá færandi hendi með nýjan fisk í soðið. Við höfðum oft samband í síma og spáðum í hlutina og aflabrögð.

Eitt sumarið fórum við hjónin norður og þá stóð svo á að Gunnar var heima. Það var gaman að hitta þau hjón og koma á þeirra glæsilega heimili. Þegar við kvöddum vorum við leyst út með stærðar búnt af burkna sem við settum niður þegar heim var komið og varð eitt af skrauti í okkar garði. Gunnar vin minn hitti ég stundum í Hirtshals í Danmörku. Þegar Norðursjávarsíldin var og hét, og við vorum að landa, þá var hann stýrimaður á nýja Lofti Baldvinssyni. Þegar Loftur var seldur fór Gunnar í land og þar með var hann hættur til sjós, nú þurfti hann ekki að stíga ölduna lengur.

Það er margs að minnast, eins og síðustu ferðar okkar norður. Þá voru þau hjón flutt inn á Akureyri á Melateig, þar sem vel var tekið á móti okkur. Þar bað Gunnar mig að koma með sér út í bílskúr, en þegar þangað var komið stóð þar stærðar skúta á borði með öllum seglum. Þetta módel var glæsilega vel sett saman, mér féllust hendur við að sjá hvað þetta var vel af hendi leyst og mér varð að orði að hann yrði að setja þetta í glerkassa. Eitt sinn spurði ég Gunnar hvað væri eftirminnilegast af vertíðum hans. Hann brosti, hugsaði sig um og sagði svo: „Það er kannski vertíð mín á Patreksfirði, en þá var ég stýrimaður á Lofti Baldvinssyni sem var leigður þangað frá Dalvík.“

Það er gaman að hafa lifað svo langan dag. Ég þakka samverustundirnar og votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Halldór Hjartarson.