Leikskólar 1.155 börn fædd 2013 til 2016 eru á biðlista eftir plássi.
Leikskólar 1.155 börn fædd 2013 til 2016 eru á biðlista eftir plássi. — Morgunblaðið/Hari
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.is „Þetta er grafalvarleg staða,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um stöðu á biðlistum eftir plássum á leikskólum Reykjavíkurborgar.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

thorgerdur@mbl.is

„Þetta er grafalvarleg staða,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um stöðu á biðlistum eftir plássum á leikskólum Reykjavíkurborgar.

Marta situr í skóla- og frístundaráði og fékk í fyrradag svör við fyrirspurn sinni um fjölda barna á biðlista og stöðu starfsmannamála á leikskólum borgarinnar. Í svari frá Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, kemur fram að 1.155 börn fædd á árunum 2013 til 2016, auk yngri barna með forgang, séu á biðlista eftir leikskólaplássi. Þar af eru 377 flutningsumsóknir á milli borgarrekinna leikskóla eða frá sjálfstætt starfandi leikskólum yfir á borgarrekna leikskóla. Séu börn fædd árið 2017 talin með er fjöldi barna á biðlista 1.629. Í svarinu kemur einnig fram að áætla megi að öllum börnum fæddum á árunum 2013 til 2016 verði boðin vist fyrir haustið 2018, en 1.310 börn sem eru með vistun munu hætta fyrir haustið.

Aðspurð segir Marta tölurnar koma talsvert á óvart vegna þess hve mikil fjölgunin hefur orðið. Síðast þegar óskað var eftir þessum upplýsingum, sem var einhvern tíma fyrir áramót, hafi fjöldinn verið í kringum 900.

„Það er alveg ljóst að það þarf að fara í stórátak til þess að leysa þennan vanda og það verður ekki við það unað lengur að börn bíði þetta lengi á biðlistum og að þeim fjölgi stöðugt á biðlistum eða að við stöndum frammi fyrir þessari manneklu öllu lengur.“

Í svarinu er varðar starfsmannamál á leikskólum borgarinnar kemur fram að til að bjóða börnum laus pláss vanti tæplega 40 stöðugildi, eða 39,6.

„Það þarf í rauninni að fara í einhverjar bráðaaðgerðir strax til þess að leysa þetta. Foreldrar þurfa að vera heima með börnin sín og þurfa jafnvel að sækja þau á leikskóla á vinnudegi og það gengur auðvitað ekki upp.“