— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Plokkarar úr Alla leið, gönguhópi Ferðafélags Íslands, tíndu mikið rusl þegar þeir gengu meðfram Vesturlandsvegi við Úlfarsfell í gærkvöldi.

Plokkarar úr Alla leið, gönguhópi Ferðafélags Íslands, tíndu mikið rusl þegar þeir gengu meðfram Vesturlandsvegi við Úlfarsfell í gærkvöldi. „Plokkið er frábær þjálfun fyrir fjallgöngur,“ segir Hjalti Björnsson sem fór fyrir hópnum sem stefnir á Hvannadalshnjúk í næsta mánuði. Plokkið segir hann vera mikilvægt sjálfboðaliðastarf í umhverfismálum og þar að auki góðan félagsskap fyrir þá sem taka þátt í því.

Óhætt er að segja að um þessar mundir sé plokkæði á Íslandi. Nú eru um 3.500 manns skráðir í facebookhópinn Plokk á Íslandi þar sem finna má ýmsar reynslusögur fólks sem fyllir heilu sekkina af rusli á skömmum tíma. Í gær var send út hvatning til fólks um að láta til sín taka 22. apríl næstkomandi, sem er dagur jarðar . Er hugsunin að þann dag gangi allir plokkarar Íslands einn kílómetra og tíni upp rusl á leiðinni, svo sem plast og pappa. Sérstaklega er skorað á stjórnendur fyrirtækja að leggja lið og fá starfsfólk til að hreinsa til í nærumhverfi sínu.

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, er einn af upphafsmönnum þessarar vakningar, en fyrirmyndin er sænsk. „Undirtektirnar hafa alls staðar verið góðar og sveitarfélögin verið tilbúin að leggja lið eins og við á,“ segir Einar, sem leggur áherslu á að verkefnið sé sjálfsprottið framlag hvers og eins í þágu síns samfélags. Slíkt sé afar dýrmætt fyrir samfélagið og skapi líka gott fordæmi á tímum þegar umhverfismál og barátta gegn sóun séu ofarlega á baugi. sbs@mbl.is 4