Vinsæll Sagnaheimur J.R.R. Tolkiens nýtur sífelldra vinsælda.
Vinsæll Sagnaheimur J.R.R. Tolkiens nýtur sífelldra vinsælda.
Fyrsta saga J.R.R. Tolkiens (1892-1973) um hobbitana og heim þeirra, saga sem aldrei hefur birst í heild á prenti, er væntanleg í verslanir í sumarlok.

Fyrsta saga J.R.R. Tolkiens (1892-1973) um hobbitana og heim þeirra, saga sem aldrei hefur birst í heild á prenti, er væntanleg í verslanir í sumarlok.

Samkvæmt fréttavef BBC er heiti sögunnar Fall Gondolin og lýsti Tolkien henni á sínum tíma sem fyrstu raunverulegu sögunni sem hann hefði skrifað um þann viðamikla heim sem hann átti eftir að fjalla um í Hobbitanum og Hringadróttinssögu en hann gaf hana engu að síður ekki út.

Í sögunni segir af borg álfa sem myrkrahöfðinginn Morgoth réðist á. Mun hún fylla upp í ýmsar eyður varðandi forsögu atburða sem síðar greinir frá í Hringadróttinssögu .

Tolkien byrjaði að skrifa söguna árið 1917, þegar hann var að jafna sig eftir að hafa barist í fyrri heimsstyrjöldinni og áður en hann hófst handa við hinar frægari sögur sínar sem halda áfram að hafa áhrif á og hrífa unnendur þeirra út um heimsbyggðina.

Haft er eftir talsmanni Tolkien Society-samtakanna að margir dyggir unnendur heims Tolkiens líti á Fall Gondolin sem „hinn helga bikar texta Tolkiens.“ Þetta verður önnur sagan sem Christopher, sonur höfundarins, ritstýrir útgáfu á en í fyrra kom út í ritstjórn Christophers, sem er 93 ára gamall, sagan Beren og Luthien . Þá lýsti hann yfir að það yrði það síðasta sem kæmi út af sínum útgáfum af textum föðurins – en það hefur augsýnilega breyst.

Meðan J.R.R. Tolkien lifði lýsti hann Christopher sem sínum helsta gagnrýnanda og samstarfsmanni og hefur hann eytt starfsævinni í að vinna með óútgefin skrif föður síns. Hefur hann til að mynda gengið frá handriti sagnanna The Silmarillion og The Children of Hurin og gefið út. Talsmaður Tolkien Society gladdist mjög yfir fréttunum af væntanlegri útgáfu. „Við höfum ekki þorað að láta okkur dreyma um að sjá þessa sögu gefna út,“ segir hann.