Geðheilsa Þunglyndi, kvíði og aðrir sálrænir kvillar leggjast þungt á marga einstaklinga. Fé til málaflokksins er samfélagslega arðbært.
Geðheilsa Þunglyndi, kvíði og aðrir sálrænir kvillar leggjast þungt á marga einstaklinga. Fé til málaflokksins er samfélagslega arðbært. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Því miður er talsvert um að kostnaður einstaklinga við að leita sér hjálpar sé of hár.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Því miður er talsvert um að kostnaður einstaklinga við að leita sér hjálpar sé of hár. Þá skiptir sköpum hvort viðkomandi á bakland sem getur komið til hjálpar eða ekki,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Morgunblaðið leitaði viðbragða samtakanna við viðtali í blaðinu í gær þar sem móðir lýsti þrautagöngu dóttur sinnar í geðheilbrigðiskerfinu. Hún hefur sjálf þurft að bera mikinn kostnað vegna veikinda dóttur sinnar. Fram kom að kostnaður við þjónustu sálfræðings, læknishjálp og lyf hafi á síðasta ári slagað hátt upp í eina milljón króna. Móðirin, sem er geðhjúkrunarfræðingur að mennt og hefur starfað innan kerfisins, segir að ef hún tæki saman kostnað við alla þá heilbrigðisþjónustu við dótturina sem hún hefur greitt úr eigin vasa á undanförnum 11 árum, og það vinnutap sem hún hefur orðið fyrir, myndi upphæðin líklega hlaupa á tugum milljóna.

Anna segir að þjónusta geðlækna sé niðurgreidd en kostnaðarhluti fólks með geðraskanir hafi hækkað um 30% að meðaltali með nýlegum breytingum á lögum um sjúkratryggingar. Sálfræðiþjónusta sé aftur á móti ekki niðurgreidd, en hver tími hjá sálfræðingi kostar að meðaltali á bilinu 12 til 15 þúsund krónur. Það er fljótt að verða há upphæð ef viðtölin eru mörg og á löngu tímabili.

„Þegar fólk sem er kannski aðeins með 250 þúsund krónur í örorkubætur fyrir skatt þarf að leita oft til sálfræðings duga bæturnar einfaldlega ekki fyrir þessari þjónustu,“ segir Anna. „Nú eru að vísu komnir sálfræðingar á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu en þeir sinna fyrst og fremst börnum. Svo þyrfti að hafa svipað kerfi með sálfræðingana og er gagnvart þjónustu sjúkraþjálfara, en þjónusta þeirra er niðurgreidd komi menn með tilvísun frá lækni.“

Samkvæmt gildandi stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum átti aðgengi fólks að sálfræðingum á heilsugæslustöðum að vera orðið 50% í lok árs 2017. „En nú þegar komið er fram á vor 2018 er aðeins einn sálfræðingur fyrir fullorðna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Anna.

Hún segir að aðgengið að sálfræðingum eigi að vera orðið 90% í árslok 2019. „Með tilvísun til þess skorum við á stjórnvöld að spýta í lófana og sjá til þess að þetta verði að veruleika,“ segir hún. Geðhjálp hafi nýlega kannað framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar. „Við sjáum ekki betur en að aðeins sé búið að ýta úr vör um helmingi þeirra verkefna sem eiga að vera komin af stað.“

Anna Gunnhildur segir að eins og dæmið í Morgunblaðsgreininni sýni geti ráðið úrslitum fyrir sjúkling að hafa sterkt bakland varðandi aðgang að þjónustu. „Jafnvel þótt fyrir hendi séu reglur og ferlar, mat og viðmið og annað slíkt, þá skiptir máli að ýtt sé á viðeigandi aðila til að sjúklingurinn fái þjónustuna. Baklandið, hvort sem það eru ættingjar eða vinir, getur verið sterkur þrýstihópur fyrir viðkomandi og oft haft breiða sýn á hvað er í boði. Stuðningurinn getur ráðið miklu um bata sem menn fá og líka tækifæri viðkomandi í lífinu, svo sem varðandi virkni og búsetu.“

„Það er staðreynd að fólk sem ekki hefur sterkt bakland stendur hallari fæti en aðrir þegar það glímir við geðheilbrigðiskerfið,“ segir Anna. Hún bendir jafnframt á að sterkt bakland geti þó líka hjálpað þeim sem eru án þess með því að vekja athygli á því hvar þjónustu vanti og með því að þrýsta á kerfið að gera úrbætur sem allir muni njóta þó vissulega eigi aðgengi allra að vera jafnt.

Þegar spurt er hvort fólk sem á erfitt með að borga fyrir sálfræðiþjónustu geti látið niðurgreidda geðlæknisþjónustu nægja segir Anna að vandinn sé að mikill skortur sé á geðlæknum en nóg framboð af sálfræðingum. Sums staðar, eins og til dæmis á Vestfjörðum, er enginn geðlæknir starfandi. Meðferðaúrræðin geta líka verið ólík og mismunandi hvað hentar.

„Við erum sífellt að þrýsta á stjórnvöld í þessum efnum,“ segir Anna. „En því miður virðist ekki nægjanlegt fé hafa verið eyrnamerkt geðheilbrigðisáætluninni og annarri geðheilbrigðisþjónustu. Hins vegar hefur það sannað sig í svipuðum samfélögum og okkar erlendis að fjármagn í þennan málaflokk hefur ekki aðeins skipt sköpum fyrir viðkomandi einstaklinga, heldur er það samfélagslega arðbært að veita sálfræðiþjónustu gegn lágri eða engri greiðslu. Það kemur m.a. í veg fyrir að vandamál og veikindi vindi upp á sig og skilar sér því fljótt til samfélagsins.“