[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vigdís Guðlaug Sigvaldadóttir fæddist að Ausu í Andakíl 13.4. 1933 og ólst þar upp. Hún hlaut barnaskólamenntun í farskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1950.

Vigdís Guðlaug Sigvaldadóttir fæddist að Ausu í Andakíl 13.4. 1933 og ólst þar upp. Hún hlaut barnaskólamenntun í farskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1950.

Vigdís sinnti bústörfum í foreldrahúsum til tvítugsaldurs en starfaði næstu átta árin m.a. við skólann í Bifröst og Veitingaskálann við Hvítárbrú. Hún hóf búskap að Brennistöðum í Flókadal með Árna, manni sínum, vorið 1961, og ári síðar stofnuðu þau nýbýli á Brennistöðum og reistu nýtt íbúðarhús á jörðinni. Í fimm ár bjuggu þau félagsbúi með tengdaforeldrum Vigdísar sem þá brugðu búi sökum aldurs.

Árið 1971 komu fyrstu fósturbörnin til dvalar á Brennistöðum. Fjöldi barna sem dvöldu yfir sumartímann skiptir hundruðum og rúmlega 30 börn dvöldu þar einnig yfir veturinn og sóttu grunnskóla frá Brennistöðum.

Brennistaðir voru með fyrstu ferðaþjónustubæjum á Vesturlandi. Ferðaþjónusta hefur verið starfrækt þar samfellt frá 1970 og ennþá er Vigdís liðtæk að aðstoða dóttur sína við að sinna ferðamönnum.

Vigdís hefur ávallt haft mikinn áhuga á sauðfjárrækt. Áður fyrr, þegar erfiðara reyndist að ná í dýralækna, var hún einatt beðin um aðstoð í burðarhjálp á næstu bæjum og jafnvel að búa um beinbrot.

Þegar fór að hægjast um og auðveldara var að fá afleysingu á búið gátu Árni og Vigdís notið þess að ferðast á hverju sumri. Þau fóru víða um Ameríku, Kanada, Kína, Indland, Egyptaland, Tyrkland og um Evrópu þvera og endilanga.

Vigdís og Árni hættu búskap árið 2000 og dóttir þeirra og tengdasonur tóku við. En Vigdís býr enn á heimili sínu að Brennistöðum.

Fjölskylda

Vigdís giftist 31.12. 1961, Árna Theódórssyni, f. 11.1. 1929, d. 4.4. 2010, smið og bónda á Brennistöðum. Hann var sonur Theódórs N. Sigurgeirssonar, bónda þar, og Þóru Árnadóttur húsfreyju.

Sonur Vigdísar er 1) Steindór Rafn Theódórsson, f. 28.7. 1953, húsasmiður, í sambúð með Brynju Bjarnadóttur stuðningsfulltrúa, búsett í Reykjavík og eiga þau tvö börn saman auk fóstursonar en fyrir átti Steindór eina dóttur og Brynja átti fyrir tvö börn.

Börn Vigdísar og Árna eru 2) Bjarni, f. 29.4. 1961, byggingatæknifræðingur í Reykjavík, kvæntur Emilíu Sigurðardóttur kennara og eiga þau tvær dætur og einn son; 3) Sigvaldi, f. 1.2. 1963, vélaverkfræðingur í Reykajvík, kvæntur Nichadu Tanuttunya en Sigvaldi á tvær dætur úr fyrra sambandi og eldri dóttir hans, Vigdís á fjögur börn; 4) Steinunn, f. 9.4. 1965, organisti og tónmenntakennari í Borgarnesi og á hún einn son og tvær dætur, en Árni, sonur Steinunnar, á þrjá syni; 5) Þóra, f. 21.5. 1967, líffræðingur og kennari í MB, búsett á Brennistöðum, gift Hafsteini Ó. Þórissyni og eiga þau saman tvo syni en Hafsteinn á eina dóttur úr fyrra hjónabandi.

Fósturbörn Vigdísar eru: 6) Kristín Birgisdóttir, f. 1.4 1960, garðyrkjufræðingur, gift Heiðari Sigurðssyni feldskera og eiga þau tvær dætur og einn son, en Heiðar á son úr fyrra sambandi; 7) Sigurbjörn Birgisson, f. 8.2. 1962, læknir í Abu Dhabi og á hann einn son og eina dóttur; og 8) Kjartan Örn Einarsson, f. 2.4. 1978, búsettur í Reykjavík, í sambúð með Huldu Magnúsdóttur og eiga þau eina dóttur auk þess sem Kjartan á þrjú börn úr fyrra sambandi og Hulda á dóttur úr fyrra sambandi.

Systkini Vigdísar voru: Benedikt, f. 18.4. 1925, d. 10.10 1997, lengi skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni; Jón, f. 25.9. 1927, d. 4. 9 2000, bóndi á Ausu; og Margrét Geppert, f. 25.12. 1930, d. 24. 6 2015 menntaskólakennari í Kanada.

Foreldrar Vigdísar voru Sigvaldi Jónsson, f. 22.8. 1892, d. 22.10. 1970, bóndi í Ausu í Andakíl, og Steinunn Benediktsdóttir, f. 21.4. 1892, d. 25.11. 1959, kennari og húsfreyja.