Sameinað sílikon Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík verður ekki opnuð að nýju fyrr en tryggt er að verksmiðjan uppfylli lög og reglur.
Sameinað sílikon Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík verður ekki opnuð að nýju fyrr en tryggt er að verksmiðjan uppfylli lög og reglur. — Morgunblaðið/Rax
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Umhverfis- og auðlindaráðherra skilaði skýrslu til Alþingis um aðdraganda og útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðjunnar Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík í gær. Í skýrslunni kemur m.a.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Umhverfis- og auðlindaráðherra skilaði skýrslu til Alþingis um aðdraganda og útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðjunnar Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík í gær. Í skýrslunni kemur m.a. fram að ef eigi að vera áframhaldandi starfsemi í verksmiðjunni í Helguvík þurfi rekstraraðilar að uppfylla kröfur laga og reglugerða um starfsemina. Í því sambandi þurfi að ljúka endanlegum úrbótum í tengslum við mannvirkjagerðina og skipulag. Þá hafi Umhverfisstofnun tilkynnt rekstraraðila um endurskoðun á starfsleyfi verksmiðjunnar m.a. vegna nauðsynlegrar uppfærslu í ljósi breytinga á lögum.

Í skýrslunni segir ráðuneytið að það sé ljóst að rekstraraðili Sameinaðs sílikons hf. uppfyllti ekki tilteknar kröfur í lögum og reglugerðum auk þeirra krafna sem settar voru fram af stjórnvöldum. Þá hafi útgefið byggingarleyfi og mannvirkjagerð hvorki verið í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né gildandi skipulag. Ráðuneytið tekur einnig fram að Umhverfisstofnun hafi aldrei haft jafnumfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri og reynslan af því víðtæka eftirliti sem haft var með starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík hafi þegar verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi á öðrum stöðum, s.s. með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.

„Ljóst er að málefni Sameinaðs sílikons hf. eiga sér engin fordæmi hérlendis. Mikilvægt er að læra af þeirri reynslu sem hér hefur skapast,“ segir í niðurlagi skýrslunnar.

Önnur skýrsla á leiðinni

Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt og gerð annarrar skýrslu um málefni Sameinaðs sílikons, þar sem könnuð verður á heildstæðan hátt aðkoma og eftirlit stjórnvalda með uppbyggingu og rekstri verksmiðjunnar í Helguvík. Ríkisendurskoðun er jafnframt að skoða það sem snýr að ívilnunum stjórnvalda til starfsemi af þessu tagi. Ráðuneytið tekur þá fram að þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar liggi fyrir muni ráðuneytið taka til skoðunar tilmæli stofnunarinnar til ráðuneytisins og stofnana þess sem þar kunna að koma fram.