Helga Sigfúsdóttir fæddist 6. júlí 1936 á Grýtubakka í Höfðahverfi, S-Þingeyjarsýslu. Hún lést í Flórída 20. mars 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Erlendsdóttir frá Hnausum, A-Hún., f. 16.3. 1905, d. 20.8. 1979, og Sigfús Hermann Bjarnason frá Grýtubakka, f. 3.6. 1897, d. 23.7. 1979. Systkini Helgu eru Sigurbjörg Jóhanna, f. 12.7. 1932, Bjarni, f. 13.9. 1933, Kristján, f. 30.9. 1934, d. 12.6. 2013, Þorsteinn, f. 13.2. 1938, og Kolbrún, f. 11.12. 1939, og fósturbróðir hennar, Jóhann Haukur Jóhannsson, f. 8.6. 1929, d. 19.8. 2016.

Eiginmaður Helgu var Pálmi Jónsson, bóndi á Akri, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, f. 11.11. 1929, d. 9.10. 2017. Börn þeirra eru 1) Jón Pálmason, f. 8.7. 1957, rafmagnsverkfræðingur, kvæntur Marianne Skovsgård Nielsen, f. 31.5. 1958, félagsráðgjafa og þýðanda. Börn þeirra Niels Pálmi Skovsgård Jónsson, f. 15.2. 1988, Henrik Skovsgård Jónsson, f. 18.6. 1990, Anna Elísabet Skovsgård Jónsdóttir, f. 9.3. 1994, unnusti Sturla Lange, f. 22.4. 1994. 2) Jóhanna Erla Pálmadóttir, f. 4.8. 1958, framkvæmdastjóri og bóndi, gift Gunnari Rúnari Kristjánssyni, f. 29.8. 1957 hagfræðingi og bónda. Börn þeirra Helga Gunnarsdóttir, f. 21.1. 1983, og Pálmi Gunnarsson, f. 6.1. 1989, unnusta Þuríður Hermannsdóttir, f. 11.2. 1993. 3) Nína Margrét Pálmadóttir, f. 14.12. 1970, ferðamálafræðingur, gift Ómari Ragnarssyni, f. 3.1. 1957, yfirlækni. Börn þeirra Helga Sólveig Ómarsdóttir, f. 29.1. 2002, og María Rut Ómarsdóttir, f. 19.4. 2003. Fyrir átti Nína Margrét Ragnar Darra Guðmundsson, f. 27.6. 1993, með Guðmundi St. Ragnarssyni, f. 1.5. 1969. Fyrir átti Ómar Unni Björgu Ómarsdóttur, f. 12.8. 1984, sambýlismaður Hrafnkell Már Stefánsson, f. 25.6. 1984, og Frímann Hauk Ómarsson, f. 9.10. 1986, hann er kvæntur Tinnu Björk Gunnarsdóttur, f. 1.4. 1985.

Helga ólst upp á Grýtubakka til 12 ára aldurs er fjölskyldan flutti að Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu. Fimmtán ára flutti hún til Reykjavíkur og vann við þjónustustörf á heimilum og sextán ára hóf hún vinnu á skrifstofu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Helga stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi 1955-56. Helga og Pálmi giftust 26. október 1956 og tók hún þá við húsmóðurhlutverki á Akri. Helga starfaði lengi í Kvenfélaginu Voninni í Torfalækjarhreppi. Á árunum 1967-1991 hélt fjölskyldan einnig heimili á veturna í Reykjavík er Pálmi var á Alþingi. Sum árin vann Helga við verslunarstörf. Árið 1997 fluttu þau hjón í Blönduhlíð 19. Helga var nýflutt í Hvassaleiti 58 þegar hún lést.

Útför Helgu fer fram frá Háteigskirkju í Reykjavík í dag, 13. apríl 2018, klukkan 15.

Jarðsett verður í Þingeyraklausturskirkjugarði.

Kveðja til elskulegra foreldra okkar, með þökk fyrir allt og allt.

Með fylgir texti að laginu þeirra, Við gengum tvö.

Við gengum tvö, við gengum tvö

í rökkurró,

við leiddumst hljóð, við leiddumst hljóð

um ungan skóg.

Þú varst yndi, þú varst yndi

og ástin mín,

og stundin áfeng, stundin áfeng

eins og vín.

Við hlýddum tvö, við hlýddum tvö

í húmi ein,

er blærinn kvað, er blærinn kvað

við blöð og grein.

Ég var nóttin, ég var nóttin

þögla þín,

og þú varst eina, þú varst eina

stjarnan mín.

Á meðan norðurljósin leiftra

um bláan himininn,

þá sit ég ein og þrái

kveðjukossinn þinn.

Við hlýddum tvö, við hlýddum tvö

í húmi ein,

er blærinn kvað, er blærinn kvað

við blöð og grein.

Ég var nóttin, ég var nóttin

þögla þín,

og þú varst eina, þú varst eina

stjarnan mín.

(Valdimar Hólm Hallstað)

Hvíl í friði.

Jón, Jóhanna Erla og Nína Margrét.

Hún Helga tengdamóðir mín er látin. Andlát hennar bar að með mjög skjótum hætti. Við áttum samleið um alllangt skeið því ég kom ungur inn í fjölskylduna. Glaðværð einkenndi lund hennar. Það sem einkenndi hana umfram margt annað var að ef hægt var að gera hlutina núna þá skyldu þeir gerðir. Henni var illa við allt slór og aldrei sá ég hana ganga upp tröppurnar úr kjallaranum á Akri heldur hljóp hún alltaf.

Helga var, eins og bræður hennar Kristján og Þorsteinn, fljót að tengja fólk við ættir. Þegar hún hitti fólk sem hún þekkti ekki fyrir leið ekki langur tími þar til hún var búin að tengja það við fólk sem hún þekkti.

Helgu þótti gaman að halda veislur því hún var mikil félagsvera. Einu áhyggjur hennar þegar hún var að undirbúa þær var að ekki væri nóg fyrir alla. Þegar dóttir okkar Jóhönnu fermdist kom Helga að undirbúningi að sjálfsögðu. Kvöldið fyrir ferminguna fórum við að skoða salinn sem veislan var haldin í. Ég held að það hafi verið veisluborðið sem gerði það að verkum að Helga var viss um að kökurnar myndu klárast og sumir fengju ekki nægju sína. Þegar heim var komið var hún komin með smjörstykki á loft til að baka en mér tókst að afvopna hana. Hún var þó ekki rónni fyrr en veislan var afstaðinn.

Helga gat verið fljót að svara þegar svo bar við. Í fimmtugsafmæli Pálma minntist aðalræðumaður ekkert á Helgu. Hann kom svo til hennar og baðst afsökunar. Helga tók þessu vel en bætti við að hann skyldi halda henni ræðu þegar hún yrði fimmtug og ekki minnast á Pálma. Ræðumaður sagði: „Það verður erfitt.“ Hann stóð þó við það og minntist ekkert á Pálma í ræðunni.

Helga reyndist mér og fjölskyldu minni einstaklega vel. Hún var óþreytandi að koma og aðstoða okkur þegar mikið lá við, hvort sem var hér á landi eða í Danmörku. Er ég ævinlega þakklátur fyrir það.

Ég votta hinum fjölskyldumeðlimum mína dýpstu samúð.

Gunnar Rúnar Kristjánsson.

Elskuleg tengdamóðir mín er látin. Hún varð bráðkvödd í byrjun ferðalags okkar fjölskyldunnar með henni og systur hennar, Kolbrúnar, til Flórída. Mikil tilhlökkun var fyrir ferðinni og Helga að ná sér vel á strik eftir andlát eiginmanns síns í október síðastliðnum, Hún hafði nýlega flutt í nýja íbúð og hafði komið sér þar vel fyrir, allt mjög smekklegt og hlýlegt hjá henni, eins og hennar var von og vísa. Þá var hún nýlega búin að fá sér nýjan bíl og farin að keyra aftur. Lýsir þetta dugnaði hennar, konu á níræðisaldri.

Margar ferðirnar fórum við fjölskyldan með Helgu og Pálma, bæði innanlands og utan. Síðasta sumar fór Helga m.a. í útilegur með okkur bæði í Húsafell og á Flúðir og gisti hjá okkur í hjólhýsinu. Nokkrum sinnum komu Helga og Kolbrún systir hennar með okkur til Spánar, stundum aðrir fjölskyldumeðlimir með, og var alltaf jafngaman í þeim ferðum, miklar veislur og ánægjulegar samverustundir. Sama á við um ferð sem við fórum með Helgu og Pálma um Mið-Evrópu fyrir allmörgum árum og einnig ferð til Grenada. Hafði Helga mjög gaman af öllum þessum ferðalögum og naut þess að vera með fjölskyldunni. Samband Helgu og systkina hennar var alla tíð mjög náið og hittust þau oft og voru í miklu sambandi. Sama á við stóran hluta barna þeirra systkina. Helga var alla tíð mjög natin við dætur okkar og fylgdist vel með þeirra lífi. Gistum við oft hjá þeim Pálma í Blönduhlíðinni, þegar við vorum í bænum, og áttum góðar stundir saman.

Helga var mikil handavinnukona, eins og móðir hennar var, og alveg síðan ég kynntist henni fyrst sat hún oft á sama stað í stofunni og prjónaði lopapeysur sem hún seldi. Dætur hennar hafa báðar erft þennan handavinnuáhuga og prjóna mikið. Helga var einnig afbragðskokkur og töfraði fram veislur, oft með undraskömmum fyrirvara, en alltaf voru þær jafn myndarlegar hjá henni og vel veitt. Helga var alltaf vel tilhöfð og máluð og í fallegum fötum, allt í stíl. Mikil heimskona, var mikið fyrir að vera í höfuðborginni en minna fyrir að vera í sveitinni.

Helga var lítið fyrir að kvarta og vildi láta lítið fyrir sér hafa en þeim mun duglegri að hugsa um aðra. Hún var dugleg að rækta sambönd við fjölskyldu og vinkonur. Helga var mjög fljót að aðlagast aðstæðum og alltaf tilbúin í alla hluti strax, alltaf til í ævintýri, ekkert að vandræðast með hlutina.

Að lokum fæ ég seint fullþakkað þær móttökur sem ég fékk þegar ég kom inn í fjölskylduna, Helga og Pálmi tóku mér eins og ég væri sonur þeirra og fann ég aldrei annað en mikla hlýju í minn garð frá þeim.

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Þinn tengdasonur,

Ómar Ragnarsson.

Þá ertu farin til afa, elsku amma, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann fór héðan. Þú vildir nú auðvitað aldrei láta bíða eftir þér en þó var þetta nú fullsnemmt. Maður trúir því þó að Sumarlandið sé hlýtt og bjart og það lýsir akkúrat þínum heimavelli, sumarið var þinn tími.

Ég man reyndar ekkert eftir okkar fyrstu kynnum, á fæðingardeildinni í Kaupmannahöfn, þó þú hafir sagt mér margoft frá því. Seinna meir sköpuðust fjölmargar minningar, Þórsmerkurferðir, ættarmót, utanlandsferðir og auðvitað allar stundirnar sem við áttum saman heima á Akri.

Það er skrýtið að hugsa til þess að um daginn vorum við að spjalla saman og þú spurðir hvort þú mættir koma og hitta mig á Kringlukránni. Þar var ég við hátíðarkvöldverð með kórfélögum mínum úr Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, það hefði nú verið meiri veislan. Því miður komstu ekki, enda kannski var þetta meira í gríni en alvöru. En aðeins tveimur dögum síðar varstu farin.

Svona er víst þetta líf og erfitt að semja við þann sem því stjórnar. En þá er líklega best að lifa því meðan maður er til fullnustu og ég tel að þú hafir gert það, þrátt fyrir að hafa sleppt Kringlukránni þetta kvöldið.

Skilaðu kveðju til afa.

Pálmi Gunnarsson.

Elsku amma mín.

Það er svo skrítið að þú sért farin frá okkur, ég er alltaf á leiðinni að hringja í þig eða kíkja til þín. Það var einhvern veginn alltaf þannig að þú gast komið mér í gott skap. Þú hafðir svo góð ráð að gefa og svo glaða lund að það var smitandi. Þegar ég fæddist voruð þið á leiðinni út að ferðast, til Kanaríeyja ef ég man söguna rétt, en þó að það værir orðið mjög stutt í flugið náðuð þið að koma og segja hæ við ömmu- og afastelpuna ykkar. Þið afi ferðuðust mikið um allan heim en hvar sem þið voruð þá munduð þið alltaf eftir því að hringja á afmælisdögunum og það gladdi mig mjög. Ferðalögin ykkar og sögurnar af þeim kveiktu í mér ferðaþrá sem hefur leitt til margra ævintýra og ég er hvergi nærri hætt. Á þínum seinni árum þurftirðu stundum meiri hjálp en áður og ég unni því að tækla þau verkefni með þér og þú gast oft hjálpað mér í mínum verkefnum. Ég á eftir að sakna þess að koma til þín í kaffi og sitja hjá þér og spjalla um lífið og tilveruna. Ég er svo ótrúlega þakklát að hafa fengið að kynnast þér og ég hef fengið ómetanlega mikið af minningum og visku að gjöf frá þér sem ég mun geyma í hjarta mínu að eilífu. Nú ertu hjá afa, ég sé ykkur fyrir mér, svo hraust og glöð í sumarlandinu. Þar til við sjáumst aftur.

Ástarkveðja,

Anna.

Elsku amma, nú ertu farin frá okkur og kemur ekki aftur úr þessu fríi. Nú vona ég að afi dragi þig með í gönguferðir á hverjum degi hvar sem þið eruð stödd. Sárt þykir mér að geta það ekki sjálfur. Sárar þykir mér að engin verða Skype-símtölin. Öll þau ár sem ég hef búið í Noregi hefur þú reglulega hringt og við spjallað um hitt og þetta. Lífið og tilveruna. Tæknin getur ekki brúað þetta nýja bil. Við verðum því að reiða okkur á aðrar leiðir. Það reddast eins og tæknilærdómurinn, alltaf var ég stoltur af þrjóskunni í garð tækninnar. Skyldleikinn leynir sér ekki þar.

Á meðan ég hef þig hér amma; mér gengur vel, draumurinn lifir, sólin skín lengur á himni og ég kem brátt heim til Íslands. Já, heim í kaffi, spjall og spil. Heim í fjölskyldufaðminn sem þú áttir stóran hlut í að skapa með ást, umhyggju og óþreyttu eyra.

Takk fyrir allt, amma mín.

Þinn

Niels Pálmi.

Elsku amma okkar, fráfall þitt er svo óraunverulegt. Við vitum að nú ertu komin aftur til afa, en það verður skrítið að fara ekki í heimsókn til þín, útlandaferðir, útilegu, út að borða, leikhús og margt fleira með þér. Við munum sakna þess að geta ekki hringt í þig, til þess að tala um daginn eða segja frá einkunnum. Þú varst alltaf svo hlý og góð við okkur og vildir alltaf hafa okkur hjá þér. Alltaf þegar við komum til þín vildir þú bjóða okkur upp á eitthvað og þá sérstaklega mjólkurglas. Við áttum margar góðar stundir saman í Hveragerði þegar að þú komst og varst hjá okkur á meðan foreldrar okkar voru erlendis, það var alltaf svo notalegt og gaman hjá okkur, þú dekraðir endalaust við okkur. Við munum alltaf muna eftir að þegar við kvöddum þig í síðasta skiptið sögðum við „sjáumst í Miami“ sem þér fannst svo fyndið en sú varð raunin ekki. Þú kenndir okkur margt í gegnum tíðina. Þú varst okkar helsta fyrirmynd og lífið verður tómlegt án þín. Guð geymi þig, elsku amma.

Þín ömmubörn

Helga Sólveig og María Rut.

Elsku amma mín. Það er erfitt að kveðja þig. Þegar ég var lítill strákur þá lastu sögur fyrir mig fyrir svefninn sem ég man ennþá vel eftir. Þú varst alltaf svo hlý og góð við mig og talaðir bara fallega til mín. Mér þykir bæði skrýtið og erfitt að þú sért farin og ég geti ekki hitt þig og knúsað þig. Það var svo gott að hitta þig og afa, sérstaklega á Akri en líka í Reykjavík. Jólabrauðið þitt var það besta í heimi. Þegar afi dó þá sástu sorgina í augunum mínum og þú huggaðir mig. Og núna ertu með afa aftur. Þið eruð bæði englar uppi á himnum. Ég sakna ykkar beggja en ég veit samt að þið afi passið upp á mig. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og með mér, elsku góða amma mín. Þinn

Ragnar Darri.

Þú ert yndið mitt yngsta og besta,

þú ert ástarhnossið mitt nýtt,

þú ert sólrún á suðurhæðum,

þú ert sumarblómið mitt frítt,

þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,

þú ert löngunar minnar hlín.

Þú ert allt sem ég áður þráði,

þú ert ósk – þú ert óskin mín.

(Guðmundur Björnsson)

Þetta söng amma fyrir okkur barnabörnin þegar við vorum lítil. Með þessum söng kom hún því til skila strax að við vorum hvert og eitt ósk sem hún hafði þráð alla ævi. Eftir að við urðum eldri var amma dugleg að segja okkur það og sýna á margan hátt hvað hún elskaði okkur barnabörnin mikið. Það er dýrmætt að vita og finna svona sterkt alla ævi hversu mikilvægur og elskaður maður er og því eigum við barnabörnin hennar henni mikið að þakka.

Amma fór í Kvennaskóla og lærði þau fræði sem þar voru kennd. Á þeim árum áttu ungar konur ekki eins auðvelt með að komast í nám og nú, en það var augljóst að ef amma hefði verið ung í dag hefði menntaganga hennar verið lengri. Henni var mikið í mun að afkomendur hennar gengju menntaveginn og hún fagnaði hverjum áfanga sem við tókum. Ég berst við mikinn prófskrekk og þegar ég var í framhaldsskóla áttaði ég mig fljótt á því að besta ráðið við prófstressinu var að hringja í ömmu og fá hana til þess að tala í mann kjarkinn rétt áður en gengið var til prófs.

Ég var svo lánsöm á unglingsárum mínum að fá þann heiður að vera aðstoðarráðskona ömmu á Akri í sauðburði. Amma notaði ekki uppskriftir við matseldina og það geri ég ekki heldur. Afi vildi á endanum meina að það hefði ekki skipt máli hvor okkar væri í eldhúsinu, hann fengi alltaf jafn góðan mat. Ég met það mikils að hafa átt þennan tíma með ömmu því undir handleiðslu hennar lærði ég margt sem engin matreiðslubók getur kennt.

Annað sem ég nam við pilsfaldinn hjá ömmu í bernsku var ættfræðiáhuginn. Amma var ættfróð og kunni vel sínar ættir og annarra fram og aftur. Þetta vakti fljótlega áhuga minn. Þegar ég varð aðeins eldri gat ég því tekið fullan þátt í þessum samtölum. Hún var þó mun betri í þeim fræðum en ég.

Ömmu fannst að allt ætti að gerast strax, ef hægt var, að bíða með eitthvað átti ekki við hana. Hún gerði allt hratt og örugglega og við hin áttum erfitt með að standast henni snúning.

Amma var létt og kát og henni þótti best að hafa okkur, fólkið sitt, í kringum sig. Við vorum eins oft saman og hægt var og núna þakkar maður fyrir hverra stund og hverja minningu. Það var alltaf gaman að heimsækja þau ömmu og afa, þau voru höfðingjar heim að sækja og félagsskapurinn góður.

Núna er amma komin til afa í sumarlandið. Þar sitja þau væntanlega með kaffibolla, hún með ömmukaffi og hann með afakaffi. Í sumarlandinu er núna framreiddur dýrindis matur og lopapeysur prjónaðar í stórum stíl. Elsku besta amma mín, takk fyrir allt það dýrmæta sem þú veittir mér og allt það sem þú kenndir mér í gegnum lífið. Þú sagðir oft að þú værir svo heppin með barnabörn en ég held að við höfum ekkert verið minna heppin með ömmu. Guð blessi þig, elsku besta amma mín, minning þín lifir á meðal okkar allra.

Þín lambadrottning

Helga Gunnarsdóttir.

Sé ég fjöld af förnum dögum,

finn mér skylt að þakka að nýju

góðhug þinn og alúð alla,

endalausa tryggð og hlýju.

(Guðmundur Böðvarsson)

Sex ára gutti var ég sendur norður að Akri til Helgu móðursystur minnar og ömmu og afa sem þangað höfðu flutt frá Breiðavaði. Ég var fljótur að sætta mig við aðstæðurnar og varð innan skamms eins og eitt af börnunum hennar Helgu. Þannig reyndist hún mér alla tíð sem besta móðir og dvaldi ég fjölmörg sumur hjá þeim Pálma uppfrá því. Systkinin Jón, Jóhanna og seinna Nína litla tóku mér einnig vel og í minningunni eru allir dagar baðaðir sólskini, kryddaðir nýbökuðum kleinum og ilmandi töðu.

Matartímarnir voru skemmtilegir og oft margir í mat. Helga og amma stóðu vaktina í eldhúsinu, steikjandi silunginn, smyrjandi og bakandi. Alltaf var nóg að borða og gott með kaffinu. Sérstaklega minnist ég þess þegar vakað var um nætur í kringum sauðburðinn hvað það var gott að koma inn og fá hressinguna. Atlætið var allt upp á það besta og vel hugsað um okkur. Enginn gekk um gólfin á Akri í götóttum hosum og var manni snarlega kippt upp á stól og stoppað í gatið, þurfti ekki að fara úr sokknum.

Ég fékk að atast í útiverkunum með fullorðna fólkinu löngu áður en ég gat gert eitthvað af viti en þannig lærði ég smátt og smátt hvað sveitalífið snerist um. Það voru sannarlega forréttindi að fá að kynnast stórfjölskyldunni svona náið, vera á heimilinu með afa og ömmu og þessu góða frændfólki. Ég bý að því alla tíð og veit að það styrkti ræturnar og jarðsambandið.

Helga frænka mín var afskaplega glaðleg og góð og sýndi alla tíð einlægan áhuga á velferð minni og verkefnum. Hún og mamma voru mjög nánar og töluðust við á hverjum degi. Það verður því vandfyllt skarðið sem hún skilur eftir sig en allar góðu og glöðu minningarnar lifa með okkur.

Það er einungis hálft ár síðan við kvöddum Pálma en mér segir svo hugur að hann hafi ekki getað beðið lengur eftir Helgu sinni og því kallað hana til sín yfir í sólarlandið. Samtaka eins og í jarðlífinu munu þau vaka yfir sínu fólki. Það er mikil gæfa systkinanna frá Akri að hafa átt þessa góðu foreldra og ég er þess fullviss að þau Jón, Jóhanna og Nína Margrét ávaxta vel arfleifðina og deila góðum minningum með afkomendum sínum um ókomna framtíð.

Þórir Björn Ríkarðsson.

Það varð brátt um hana Helgu mína. En það er gjarnan þannig með hjón sem eru náin og hafa átt langan tíma saman, að skammt er milli andláts þeirra. Aðeins fáeinir mánuðir. Þetta skilur okkur sem eftir sitja í miklu tómarúmi.

Það var eftirvænting og spenna í systkinabarnahópnum þegar fréttist að Pálmi frændi væri kominn með kærustu. Svo kom hann með hana og við fengum að hitta Helgu Sigfúsdóttur. Með henni kom ferskur og fallegur andblær á heimilið, hún var bráðfalleg og alltaf glöð og kát. Ég fékk að kynnast Helgu betur þegar ég var unglingur í sveit hjá þeim Pálma á Akri. Það var skemmtilegur og eftirminnilegur tími. Þarna vorum við, þrjár Nínur á unglingsaldri, hver á sínu árinu. Það vafðist ekkert fyrir Helgu þrátt fyrir ungan aldur, að halda okkur öllum við efnið þannig að verkin urðu skemmtileg og unnin af miklum fúsleika. Það var mikið skrafað og hlegið og hún var vinur okkar en samt alltaf húsmóðirin.

Seinna eftir að þau Pálmi voru flutt til Reykjavíkur kom ég oftar við hjá þeim, sérstaklega síðustu árin. Það var notalegt að koma til þeirra og alltaf hlýlega tekið á móti mér. Við Helga sátum gjarnan með handavinnuna okkar og spjölluðum. Hún vildi alltaf vita hvað væri í pokanum hjá mér í það og það skiptið, þannig að það var eins gott að þar væri eitthvað áhugavert.

Eftir andlát Pálma flutti hún sig um set og það var gott að finna hve vel hún kunni við sig á nýja staðnum. Hún var ekkert af baki dottin, fór allra sinna ferða, keyrði enn bíl og lærði á nýjar græjur eins og henni einni var lagið. Hún átti líka góð börn og barnabörn sem studdu hana á alla lund.

Ég kom síðast til Helgu í vikunni áður en þau fóru utan. Það var góð kvöldstund sem við áttum þá. Eftir standa eingöngu góðar minningar um góða vinkonu.

Kæru Jón, Jóhanna, Nína Margrét og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur.

Jónína Eggertsdóttir.

Kynni okkar Helgu hófust þegar ég, átta ára stelpuskott, kom í sveitina til ömmu og afa og þau Pálmi móðurbróðir minn höfðu nýhafið búskap á Akri. Í fyrstu voru þau í félagsbúskap með ömmu og afa en fljótlega varð Helga húsmóðirin á bænum og þau Pálmi tóku við búinu. Það tókst strax góður vinskapur með okkur Helgu og í þau rúmlega 60 ár sem við höfum þekkst hefur aldrei skugga borið þar á. Það var mikil gæfa fyrir mig að fá að dvelja mörg, góð sumur á Akri undir handleiðslu þeirra Helgu og Pálma. Helga var myndarleg húsmóðir, hress og glaðlynd og kenndi okkur krökkunum vel til verka. Hún hafði okkur með í öllum helstu verkum innanhúss og kunni að treysta og hrósa ef vel var gert.

Helga var alla tíð mikil hannyrðakona og þegar frítími gafst frá sveitastörfum hvatti hún okkur stelpurnar, sem oftast vorum 2 til 3, til að stunda hannyrðir og kenndi okkur prjón, hekl eða útsaum. Þá sat hún með okkur með sínar hannyrðir og þetta voru dýrmætar stundir.

Eftir að sveitadvöl minni hjá Helgu og Pálma lauk kom ég hvert sumar í heimsókn að Akri og börn mín nutu þess einnig að koma þar. Á unglingsárum voru þau bæði þar í sveit um tíma.

Síðar fluttu þau Helga og Pálmi til Reykjavíkur og alltaf var gott að koma til þeirra og þau sýndu mikla ræktarsemi og vináttu við mig og mína fjölskyldu. Það var líka gott að leita til þeirra ef eitthvað bjátaði á.

Þau Pálmi voru ákaflega samrýnd en eftir að Helga varð ekkja í október sl. sýndi hún mikinn dugnað og lét engan bilbug á sér finna. Hún flutti sig um set og var hamingjusöm með nýju, fallegu íbúðina sína. Sagði að sér liði vel þar. Síðast hittumst við fyrir rúmum mánuði. Þá komu þær Theodóra frænka mín í heimsókn. Helga var kát og hress og við áttum frábæran dag saman. Ekki óraði mig fyrir að þetta yrði okkar síðasti vinafundur en það er gott að minnast þessa dags.

Ég er þess fullviss að Pálmi frændi muni taka vel á móti Helgu sinni, en minningin um yndislega konu lifir. Við Tómas sendum Jóni, Jóhönnu, Nínu Margréti og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Með hlýrri þökk,

Nína Valgerður.

Skömmu áður en Helga lagði upp í sína síðustu ferð hringdum við í hana frá Kanaríeyjum til að óska henni góðrar ferðar til Flórída. Helga hlakkaði til þessa ferðalags og þess góða félagsskapar sem hún myndi njóta. Við sögðum að hún hefði gott af því að slaka á í góðu umhverfi eftir allan þann eril sem hefði fylgt sjúkdómslegu og fráfalli Pálma heitins og íbúðaskiptanna. Einnig töldum við að gott umhverfi myndi bæta heilsufar hennar en Helga hafði átt við nokkra vanheilsu að etja undanfarin misseri. Þá svaraði Helga „þið haldið það“. Þetta sagði Helga gjarnan þegar hún hafði efasemdir um framsettar fullyrðingar. Það hefur hvarflað að okkur að hún hafi fundið á sér að þetta yrði ekki gæfuför.

Það eru aðeins liðnir um fimm mánuðir frá því að Pálmi lést eftir langa sjúkdómslegu. Álagið á Helgu var mjög mikið og daglegar heimsóknir reyndu án efa mjög á hana.

Hjónaband Helgu og Pálma einkenndist af ástúð og væntumþykju. Þau voru afar samrýnd og samtaka í sínum búskap, hvort sem það var á Akri eða á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau bjuggu vegna setu Pálma á Alþingi. Álag á Helgu var mikið vegna þingmennsku Pálma og þá sérstaklega þegar Pálmi gegndi embætti landbúnaðarráðherra. Gestrisni og umhyggja einkenndi ávallt viðmót Helgu og Pálma.

Kynni okkar og Helgu hófust um aldamótin þegar við hjónin vorum samferða í flugi til Kanaríeyja. Upp frá því spratt náin og góð vinátta og áttum við tíðar samverustundir. Þegar dvalið var á Kanaríeyjum var nánast daglega farið í gönguferð á ströndinni og áttum við hjónin þá gjarnan stefnumót við Helgu og Pálma við ákveðna sandöldu sem við gáfum sameiginlega nafnið Arnarhóll. Þar var mikið spjallað um landsins gagn og nauðsynjar.

Helga var ávallt hress í viðmóti. Hún hafði mjög ákveðnar skoðanir á þjóðfélagsmálum og studdi Pálma einarðlega þegar gaf á bátinn og þá ekki síst á meðan Pálmi gegndi ráðherradómi. Okkur er minnisstæð mynd frá þeim tíma af landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem Pálmi og Friðjón Þórðarson stóðu og klöppuðu fyrir ræðu Geirs Hallgrímssonar en Helga Sigfúsdóttir sat sem fastast og var augljóslega ekki ánægð með ræðu flokksformannsins. Ástæðan fyrir þessari afstöðu Pálma og Friðjóns var án efa sú að þeir vildu báðir tryggja að tímabundinn ágreiningur myndi ekki kljúfa flokkinn enda gekk það eftir.

Við hjónin erum þakklát fyrir þær samverustundir sem við áttum með Helgu og þá vináttu og væntumþykju sem hún sýndi okkur. Við sendum okkar einlægustu samúðarkveðjur til Jóns, Jóhönnu Erlu og Nínu Margrétar og fjölskyldna þeirra.

Blessuð sé minning Helgu Sigfúsdóttur.

Ragnheiður

Þorgeirsdóttir,

Örn Marinósson.

Það er fallegt að líta heim að Akri. Fjallahringurinn er fríður. Vatnið er spegilslétt. Í bænum er glatt á hjalla og gestum tekið fagnandi.

Þessi mynd stendur ljóslifandi þegar Helga hefur nú kvatt skyndilega. Að henni er mikil sjónarsviptir. Minningar frá æsku birtast. Alltaf var gleðiefni þegar beygt var heim að Akri á leið úr kaupstað og eins var tilhlökkunin mikil þegar von var á frændfólkinu frá Akri í heimsókn. Jólaboðin á Akri eru sveipuð ævintýraljóma. Síðar urðu samfundir fleiri fyrir sunnan. Gestrisnin var söm við sig. Helga og Pálmi voru höfðingjar heim að sækja.

Helga var stórglæsileg kona, myndarleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og fór létt með öll samskipti. Hún naut sín vel í krefjandi verkefnum, hress og hispurslaus, stelpuleg í fasi. Einnig kunni hún vel þá list að gleðjast í góðra vina hópi. Helga kom til dyranna eins og hún var klædd og sagði óhikað sinn hug. Í seinni tíð áttum við okkar góðu stundir. Þessar stundir eru mér mjög dýrmætar og er ég þakklát Helgu fyrir vináttu hennar og trúnaðartraust.

Vart er hægt að minnast Helgu án þess að nefna Pálma um leið. Þau voru eins og samofin, einstaklega samhent, geislandi af gleði og ást.

Guð blessi minningu Helgu og Pálma á Akri.

Theodóra Reynisdóttir.

Þegar ég var með syni mínum, Ragnari Darra, á hlaðinu á Akri að kveðja Pálma Jónsson hinstu kveðju í október í fyrra ásamt eftirlifandi konu hans, Helgu Sigfúsdóttur, og öðrum fjölskyldumeðlimum og nánum vinum Pálma hefði mér ekki komið til hugar að kveðja Helgu hinstu kveðju innan við hálfu ári síðar. Samrýndari hjónum en Helgu og Pálma hef ég ekki kynnst og það var lán og heiður fyrir mig sem ungan mann að kynnast þeim og þeirra fólki þegar ég var heimagangur hjá þeim á Akri og í Bólstaðarhlíðinni um nokkurra ára skeið. Og nú eru þau saman í draumalandinu alveg eins og þau fylgdust svo náið og vel að í lifandi lífi alla tíð, allt frá því að ungur og kappsamur Pálmi náði ástum Helgu þegar hún var nemandi í Kvennaskólanum á Blönduósi. Ég man þá sögu. Það var ekki skrýtið að bóndasonurinn frá Akri félli fyrir Helgu Sigfúsdóttur. Hún var bæði glæsileg og falleg kona og áfram alla tíð. En hennar innri manneskja var enn fallegri. Hún var bæði ljúf og góð kona en hún hafði einnig að bera ríka réttlætiskennd, hugrekki og skap sem hún þó beitti á réttan hátt. Þá var hún mikill persónuleiki og sterk kona, ekki síst fyrir sig og sína og hún var mikill styrkur fyrir mann sinn alla tíð. Styrkur hennar og réttlætiskennd var að mínu mati lýsandi á umtöluðum landsfundi Sjálfstæðisflokksins á níunda áratug síðustu aldar. Hún þorði. Þá var hún mjög skemmtileg, glaðværð og mikill húmoristi með smitandi hlátur.

Mér þótti afar vænt um Helgu Sigfúsdóttur. Þegar ég bjó á heimilum þeirra hjóna var hún mér alla tíð góð. Fyrir það færi ég henni hjartans þakkir og minning um góða konu og eftirminnilega lifir. Ég trúi því sama og sonur minn að nú haldist þau Pálmi og Helga saman hönd í hönd sem englar á himnum sem vaka yfir sínum nánustu.

Helga var ættrækin og mjög tengd öllu sínu fólki. Fráfall Helgu var sviplegt og söknuðurinn er sárastur fyrir hennar nánustu.

Elsku Jón, Jóhanna, Nína, makar og barnabörn. Ég bið Guð að styrkja ykkur í sorginni. Guð blessi minningu Helgu Sigfúsdóttur.

Guðmundur St.

Ragnarsson.

Fjölskylda mín öll átti því láni að fagna að kynnast mjög náið Akurshjónunum Pálma Jónssyni, fyrrverandi ráðherra, og Helgu Sigfúsdóttur konu hans. Hvort tveggja var, að móðurbræður mínir tveir kvæntust systrum þeirra, hvors um sig og einnig, að faðir minn gerðist á seinni árum sínum vetrarmaður á Akursbúinu. Við þau samskipti varð sérstakur og einlægur vinskapur milli þessara hjóna, foreldra minna og Akurshjóna. Vinátta og virðing einkenndi öll samskipti og umtal þeirra pabba og Pálma, hvors um hinn. Þeir dáðu hvor annan, ekki fyrir vegtyllur eða veiðikænsku, heldur fyrir bergtrausta persónuleika og orðheldni hvor annars í einu og öllu.

Ég kynntist þeim hjónum því betur sem árin liðu, bæði á árum mínum fyrir norðan og við ýmis tækifæri hér í Reykjavík og jafnvel á ferðum utanlands. Pálmi var holdgervingur tryggðar og trausts. Glaðsinna í vinahópi og áheyrilegur sögumaður. Hafði fallegt málfar og talaði vel um náungann. Helga var skemmtilega hláturmild og bæri það við að alvara einkenndi samræður eða aðstæður var gjarnan mjög stutt í að hún gæti séð gamanið í efninu. Hún hafði líka smitandi hlátur og hvellan svo iðulega endaði hennar hópur í háværum hlátrasköllum. Þá leið henni og öllum í návist hennar vel. Hennar frásagnir voru flestar í þessum anda.

Ég votta afkomendum þeirra mína dýpstu hluttekningu og veit að fallegar minningar barna og barnabarna munu einkenna friðhelga minningu um samhenta og trausta foreldra og ömmu og afa.

Jón Karl Einarsson.