Dugnaðarfólk Hjalti Björnsson plokkari og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands lætur ekki sitt eftir liggja, hann fór með plokkarahóp við Vesturlandsveg til að fjarlægja rusl, sem nóg er af.
Dugnaðarfólk Hjalti Björnsson plokkari og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands lætur ekki sitt eftir liggja, hann fór með plokkarahóp við Vesturlandsveg til að fjarlægja rusl, sem nóg er af.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Hve mikið af rusli liggur á víðavangi er beinlínis ótrúlegt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hve mikið af rusli liggur á víðavangi er beinlínis ótrúlegt. Á þessum stuttu spottum við Vesturlandsveginn sem plokkarahópurinn minn hefur tekið að undanförnu erum við eftir tveggja til þriggja tíma rölt komin með 20-30 stóra poka af rusli. Sveitarfélögin virðast ekki hafa bolmagn til að sinna þessu mikilvæga verkefni og því er þetta sjálfboðaliðastarf nauðsynlegt,“ segir Hjalti Björnsson, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands.

Apríl er besti mánuðurinn

Félagar í Alla leið , sem er einn fjölmargra hópa sem starfa innan FÍ, tóku í gærkvöldi til óspilltra málanna og tíndu rusl við Vesturlandsveg. Þeir byrjuðu neðan við verslun Bauhaus þar sem þeim var skipt í tvo hópa og fór hvor í sína áttina og tíndi kynstrin öll af rusli. „Apríl er besti mánuðurinn í svona verkefni; tímabilið frá því snjóa leysir uns fer að grænka. Núna sést beint ofan í svörðinn þar sem er plast, pappír og ýmis efni fleiri. Þegar komið er fram í júní og gróður kominn á legg er miklu erfiðara að plokka ruslið upp,“ segir Hjalti.

Í hópnum Alla leið er vant göngufólk sem er í góðri þjálfun, fer í fjallgöngur reglulega yfir veturinn með það að markmiði að ganga á Hvannadalshnjúk eða eitthvert af öðrum hæstu fjöllum landsins að vori. „Plokkið er frábær þjálfun fyrir fjallgöngur, sex kílómetra plokkganga er 500 hnébeygjur sem gera fólki gott,“ segir Hjalti um þetta framtak plokkaranna í Alla leið sem nú eru búnir að tína rusl við nánast allan Vesturlandsveginn milli Elliðaáa og Leirvogsár ofan við Mosfellsbæ.

Allir í Öskjuhlíð

Þá stefnir Alla leið að því að gera enn betur á degi jarðar 22. apríl en þá á að plokka Öskjuhlíðina – og er víst af nægu að taka. Í gær var svo á Facebook gefin út tilkynning undir hausnum Dagur jarðar / Earth Day . Þar er fólk hvatt til þess að plokka einn kílómetra hinn 22. apríl að eigin vali á milli klukkan 9 og 21. Það þýðir að á þeim degi yrði 3.500 kílómetra strengur hreinsaður ef allir plokkarar létu til skarar skríða og hreinsuðu einn kílómetra hver.