Helgi R. Einarsson segir frá því í tölvupósti að Sverrir Thorstensen vinur hans á Akureyri hafi þá áráttu að merkja fugla. Hann er með gildrur í garðinum sínum og fangaði tugi auðnutittlinga og einn smyril.

Helgi R. Einarsson segir frá því í tölvupósti að Sverrir Thorstensen vinur hans á Akureyri hafi þá áráttu að merkja fugla. Hann er með gildrur í garðinum sínum og fangaði tugi auðnutittlinga og einn smyril. Þá varð þetta til:

Fótsnyrtingar fá

fuglar Sverri hjá.

Mælir, metur,

merkin setur

litlar lappir á.

Sverrir er góðmenni sem ekki gæti gert flugu mein, en árátta hans er að fanga fugla og merkja.

Skráir fugla af miklum móð

meira en flestir aðrir.

Sem valur fer um veiðislóð

þó vanti klær og fjaðrir.

Fyrst við erum að tala um fugla fær þessi að fylgja með – „rímið tekur völdin“:

Gamalli aliönd

engin héldu bönd.

Er frelsi hlaut

og flaug á braut

þá flaug hún upp á rönd.

Í Íslenskum þjóðsögum segir, að Kolugil heiti bær einn framarlega í Víðidal fyrir austan Víðidalsá. Þar bjó tröllkona ein, sem Kola hét og dró bærinn nafn af henni. Fyrir neðan bæinn er dimmt og djúpt gil að Víðidalsá og foss einn í gljúfrinu svo hár að enginn lax fer yfir hann og því er engin veiði framar í ánni en í kerinu undir fossinum.“ – Hallmundur Guðmundsson birtir á Boðnarmiði þessa vísu við stórfallega mynd af fossinum og Kolugili:

Kankvís þarna Kola er

komin úr ísaböndum.

Um bergið hvítu frissi fer

og fínum skessuhöndum

Sigurlín Hermannsdóttir skrifar á Leirinn að einhverra hluta vegna hafi hún farið að hugsa um hversu merkileg þau eru þessi austurevrópsku sérheiti sem eru (næstum) ekkert nema samhljóðar:

Þegar Jarmíla Brlnka frá Brno

byrjaði setningu á: „you know“,

þá vissu það flestir,

jafn vinir sem gestir

að nú stefndi í stórkostlegt trúnó.

Ónefnd kona orti:

Eg hef beðið uppdubbuð

allan þennan vetur

og beðið þess að góður guð

gefi mér hann Pétur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is