Bill Murray Leikarinn kemur fram með tónlistarmönnum í Hörpu.
Bill Murray Leikarinn kemur fram með tónlistarmönnum í Hörpu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heildardagskrá Listahátíðar í Reykjavík hefur verið kynnt og er boðið upp á fjölbreytilega dagskrá sýninga og allrahanda verka listamanna og hópa í hinum ýmsu listgreinum, á hátíðinni sem aftur er orðin tvíæringur og stendur fyrri hluta júnímánaðar.

Heildardagskrá Listahátíðar í Reykjavík hefur verið kynnt og er boðið upp á fjölbreytilega dagskrá sýninga og allrahanda verka listamanna og hópa í hinum ýmsu listgreinum, á hátíðinni sem aftur er orðin tvíæringur og stendur fyrri hluta júnímánaðar.

Áður höfðu verið kynntir nokkir viðamestu viðburðir Listahátíðar í ár. Þar ber hvað hæst sýninguna á Eddu eftir hinn heimskunna bandaríska leikhús- og myndlistarmann Robert Wilson, sem sett er upp af Norske teatret í Borgarleikhúsinu 17. og 18. júní og er viðamesti erlendi viðburðurinn.

Í Hörpu kemur leikarinn vinsæli Bill Murray fram á tveimur kvöldskemmtunum með klassískum tónlistarmönnum, undir heitinu New Worlds , og í Hörpu setur Íslenska óperan upp fyrstu óperu Daníels Bjarnasonar, Brothers , en hún var fyrst sviðsett í Danmörku við mikið lof gagnrýnenda.

Þá flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands hina viðamiklu Upprisusinfóníu Mahlers, sem er lýst sem einni stórfenglegustu sinfóníu allra tíma, undir stjórn Osmo Vänskä, með Mótettukór Hallgrímskirkju og einsöngvurum.

Gjörningar og leiklist

Í tilefni af aldarafmæli fullveldisins verður gjörningurinn R1918 fjölmennasti viðburður hátíðarinnar í ár. Reykvíkingar ársins 1918 birtast þar ljóslifandi víðsvegar um borgina.

Hollenski leikhópurinn Close-Act Theatre er þekktur fyrir myndrænt götuleikhús í yfirstærð. Hann setur upp sýninguna Saurus í Iðnó og Egilshöll.

Blesugróf er heiti leiksýningar þar sem þrjú leikskáld, Kolfinna Nikulásdóttir, Mikael Torfason og Soffía Bjarnadóttir, bjóða áhorfendum í ferðalag um eitt athyglisverðasta hverfi Reykjavíkur, Blesugróf.

Í sundlaug Ölduselsskóla verður á árlegri hverfishátíð, Breiðholt Festival, boðið upp á Bíótóna í baði , og gestum boðið að fljóta um og hlusta á tónlist sem streymir úr hátölurum undir vatnsyfirborðinu. Tónverkin hafa verið samin fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti af íslenskum tónskáldum sem tengjast Breiðholti.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður Teppaborgin , tímabundið leiksvæði hannað af börnum fyrir börn.

„Be yourself, everyone else is taken“ er heiti sýningar Daniel Lismore í Hörpu en hann er listamaður, fatahönnuður, stílisti, rithöfundur og baráttumaður, þekktur fyrir íburðarmikinn og yfirgengilegan klæðnað. Gestum er boðið að sökkva sér í heim Lismore – að lifa sem list.

Nýtt leikrit Hörpu Arnardóttur, Bláklukkur , verður sýnt í öllum landsfjórðungum, sem hljóðverk í náttúrunni; á Lyngdalsheiði, Snæfellsnesi, Mývatnsöræfum og Jökuldalsheiði. Kristbjörg Kjeld, Ingvar E. Sigurðsson og Harpa leika.

Ensemble Adapter setur verkið Hjálmurinn upp í Tjarnarbíó. Áhorfendur skapa sýninguna ásamt leikaranum Guðmundi Felixsyni sem les texta barnabóka og verðlaunahöfundarins Finn-Ole Heinrich við tónlist nútímatónskáldsins Sarah Nemtsov.

Fjölbreytileg myndlist

Á sýningunni Einskismannsland: Ríkir þar fegurðin ein? sem Listasafn Reykjavíkur setur upp bæði í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum verður sjónum beint að verðmætamati Íslendinga í sambandi við náttúruna og tengslum við víðerni landsins með verkum eftir listamenn eldri kynslóða sem samtímalistamenn.

Á Austurvelli verður sett upp sýning Borghildar Indriðadóttur, Demoncrazy , með stórum ljósmyndum af berbrjósta ungum konum sem standa ákveðnar og sterkar við málverk, ljósmyndir og styttur af karlmönnum í opinberum rýmum.

Í Kling & Bang verður gjörningasýningin Peppermint og teygir sig yfir þrjár helgar með gjörningum eftir Ástu Fanney Sigurðardóttur, Florence Lam og Hannes Lárusson. Spessi setur í Rýmd, Völvufelli 13, upp sýninguna 111 , með ljósmyndaverkum úr Breiðholti, og Myndhöggvarafélagið í Reykjavík stendur fyrir sýningunni Hjólið - Fallvelti heimsins meðfram hjóla og göngustígum. 12 listamenn taka þátt.

Í gluggum víðsvegar um borgina verður sett upp sýningin Leiðin heim og taka rúmlega tuttugu listamenn á ýmsum aldri þátt í framkvæmdinni og í Norræna húsinu verður sýning finnska listamannsins Anssi Pulkkinen Street view (Reassembled) sem samanstendur af rústum heimila sem hafa verið fluttar frá Sýrlandi sjóleiðina til Evrópu. Þá verður í Safnahúsinu sýning á bókverkum úr safneign Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Allskyns tónlist

Í Silfurbergi Hörpu verða tónleikar Grammy-verðlaunasveitarinnar Flor de Toloache , fyrstu mariachi-hljómsveitar New York-borgar sem eingöngu er skipuð konum. Í Fríkirkjunni í Reykjavík og Hamri á Ísafirði verða tónleikar Strokkvartettsins Sigga Úr tré í tóna þar sem leikið er á hljóðfæri sem öll eru smíðuð af fiðlusmiðnum Jóni Marinó Jónssyni.

Úlfur og Halldór Eldjárn semja tónverkið Reykjavík GPS sem er óður til miðborgarinnar. Tónlistin er tengd við ákveðin GPS-hnit í miðbænum þannig að fólk heyrir hana breytast á rölti um bæinn.

Í Tjarnarbíói verða tónleikar hinnar bandarísku Gaelynn Lea sem kemur fram í rafmagnshjólastól og heldur á fiðlunni sem hún leikur á eins og örsmáu sellói. Hún býr til lúppur úr ryþmum og laglínum er eiga sér sígildan uppruna og býr þannig til sinfóníska kakófóníu sem spannar vítt svið. Sóley Stefánsdóttir mun koma fram með henni.

Laufey Sigurðardóttir og Elísabet Waage halda tónleika undir heitinu Sálarfóður á dvalarheimilum, sjúkrastofnunum og Klúbbi Listahátíðar í Hafnarhúsinu og leika nýjar útsetningar Tryggva M. Baldurssonar á þekktum þjóðlögum og sönglögum.

Litháísk-bandaríska tónskáldið, hljóðfæraleikarinn og listamaðurinn Abraham Brody býður upp á tónleika í Klúbbi Listahátíðar og í Gamla bíói leikur hópur listamanna af yngri kynslóðinni verk eftir Jórunni Viðar í dagskránni Vökuró .

Dans á sviði og á heimilum

Í Hafnarhúsinu verður Íslenski dansflokkurinn með sýninguna Brot úr myrkri við tónlist Sigur Rósar og undir listrænni stjórn Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar.

Íd verður einnig með nýja sýningu um vinina Óð og Flexu í Borgarleikhúsinu, og sýninguna The Great Gathering á Eiðistorgi. Þar dansar saman hópur barna og fullorðinna með suð í eyrum.

Í Tjarnarbíói verður sýnt dansverk Báru Sigfúsdóttur The Lover , og í nýuppgerðum Ásmundarsal verður sýnt dans- og myndlistarverkið Atómstjarna eftir Jóní Jónsdóttur, Steinunni Ketilsdóttur og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur.

Á útisviðinu nýja við Veröld – Hús Vigdísar sýnir kanadíski danshópurinn Corpus nýstárlegu sýninguna Kindurnar , um atferli kinda, og hefur hún verið sett upp á um 100 hátíðum í 20 löndum.

Þá bjóða íbúar í Asparfelli 2-12, með danshöfundunum Alexander Roberts og Ásrúnu Magnúsdóttur, upp á blokkarpartýið Asparfell – danspartý á heimilunum.

Frekari upplýsingar um dags- og tímasetningar viðburða má sjá á vefnum listahatid.is.